Þriðjudagur 28. september 2004

272. tbl. 8. árg.

Heyrðu þú þarna tekjustofn, ertu ekki til í að breikka þig örlítið fyrir hann Vilhjálm hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga? Hefurðu nokkuð á móti því að sveitarfélögin fái rýmri heimild til að nýta þig? Eða þau gerðu það kannski það með nýjum hætti?

Í Morgunblaðinu 18. september var birt frétt undir yfirskriftinni „Kanna nýja tekjustofna“ þar sem var rætt við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson formann Sambands íslenskra sveitarfélaga um „sameiginlega viljayfirlýsingu“ um eflingu sveitarstjórnarstigsins sem félagsmálaráðherra, fjármálaráðherra og fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga undirrituðu degi fyrr. Öll fréttin og viðtalið við formanninn snerust um hvernig sveitarfélögin gætu hækkað skatta á landsmenn en orðið „skattur“ kom hvergi fyrir, hvað þá „skattahækkun“.

Morgunblaðið segir svo frá þessari viljayfirlýsingu og hefur líklega beint upp úr henni:

Markvisst verður unnið að eflingu sveitarstjórnarstigsins á komandi mánuðum, og m.a. kannað hvort rýmka beri heimildir sveitarstjórna til að nýta núverandi tekjustofna, eða hvort marka þurfi nýja tekjustofna fyrir sveitarfélögin.

Í lauslegri þýðingu Vefþjóðviljans lítur frásögnin af þessari merku sameiginlegu viljayfirlýsingu svona út:

Markvisst verður unnið að því að auka eyðslu og útgjöld sveitarfélaga á komandi mánuðum og meðal annars verður kannað hvort sveitarfélögin hækki þá skatta sem þau leggja þegar á íbúa sína, eða hvort leggja verði nýja skatta á íbúana.