Á vef Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum, var um helgina sagt frá heimsókn Daniels Hannans, þingmanns á þingi Evrópusambandsins, til Íslands. Hannan, sem var hér í boði Heimssýnar, flutti erindi í Norræna húsinu síðast liðinn miðvikudag á fundi Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands. Í greininni á vef Heimssýnar er stiklað á stóru í erindi Hannans og meðal annars sagt frá umfjöllun hans um þá spillingu og óreiðu sem ósjaldan hafi einkennt stjórnarhætti hjá Evrópusambandinu. Endurskoðendur ársreikninga Evrópusambandsins hafi til að mynda ekki treyst sér til að undirrita reikningana undanfarin níu ár, meðal annars vegna þess að stór hluti útgjalda sambandsins sé óútskýrður. Enginn viti hvað orðið hafi um þá peninga og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins aðhafist ekkert í málinu. Haft er eftir Hannan að meginástæðan fyrir spillingu og óreiðu innan Evrópusambandsins, og því að ekkert sé gert í málinu, sé sú að Evrópusambandinu sé ekki stjórnað með lýðræðislegum hætti. Valdamestu menn sambandsins séu ekki lýðræðislega kjörnir og hafi þannig hvorki lýðræðislegt umboð frá almenningi né beri nokkra ábyrgð gagnvart almenningi sem geti ekki veitt þeim nokkurt aðhald.
Hannan mun einnig hafa fjallað um fyrirhugaða stjórnarskrá Evrópusambandsins og sagt að með stjórnarskránni myndi sambandið fá meira eða minna yfirráð yfir öllum sviðum aðildarríkja sinna, nema heilbrigðismálum og menntamálum. „Hannan sagði það ennfremur deginum ljósara að með stjórnarskránni myndi Evrópusambandið endanlega breytast úr ríkjasambandi í sambandsríki. Ef skoðað væri hvað skilgreindi ríki samkvæmt alþjóðalögum lægi fyrir að í stjórnarskránni væri í raun kveðið á um allt það sem sambandið þyrfti til að verða sambandsríki. Þ.á.m. sameiginleg ytri landamæri, skilgreint landsvæði, þjóðhöfðingja, utanríkisstefnu, varnarstefnu, hæstarétt, þing, framkvæmdastjórn, gjaldmiðil, dómskerfi, fána, þjóðsöng, þjóðhátíðardag og auðvitað ekki síst sameiginlega stjórnarskrá,“ segir í greininni á vef Heimssýnar. Þá er haft eftir Hannan að helsta umræðuefnið meðal Evrópusambandssinna í Brussel sé hvernig hægt verði að láta stjórnarskrána taka gildi, jafnvel þótt eitt eða fleiri aðildarríki sambandsins myndu fella hana. Þegar sé til dæmis byrjað að byggja upp sjálfstæða utanríkisþjónustu fyrir Evrópusambandið þrátt fyrir að endanlega samþykkt stjórnarskrárinnar sé forsenda fyrir því að það sé heimilt. Eins og fyrri daginn sé stefna Evrópusambandsins einfaldlega sú að málið skuli í gegn, sama með hvaða hætti og hvort sem almenningi líki betur eða verr.