K
Kennarar greiða nauðugir stórfé í félagsgjöld til Kennarasamabands Íslands. |
ennarasambandið birti launaseðil eins félaga síns með blaðaauglýsingum í vikunni. Hann mun hafa átt að sýna að laun kennara eru ekki upp á marga fiska. Hann sýnir þó fyrst og fremst hvað það er einkennilegt að allir kennarar á sama aldri með sömu starfsreynslu og menntun hafi sömu laun. Það er til dæmis erfitt að hafa samúð með þessum tiltekna kennara vegna lágra launa án þess að vita hversu góður kennari hann er. Það er kannski ein skýringin á því að menn hafa litla samúð með kröfum kennara um hærri laun. Það er skrítið að launahækkun gangi jafnt yfir alla, ágæta sem vonlausa kennara.Með öðrum orðum er enginn kennari með mjög góð laun. Góðir kennarar njóta hæfileika sinna ekki í launum og slakir kennarar fá ekki þau skilaboð að þeir eigi að snúa sér að einhverju öðru þar sem jafnvel yrði gert betur við þá. „Launajafnréttið“ er fullkomið og allir tapa.
Sveitarfélögin verja á milli 50 og 60% tekna sinna til skólamála og þar af er launakostnaður 70 til 80%. Tveggja prósenta hækkun á launum kennara getur því þýtt hátt í eins prósents hækkun á útgjöldum sveitarfélaga. Þar með hækka skattar samsvarandi. Almennar launahækkanir til kennara koma því fljót fram í hærri sköttum. Það er því ekki að undra þótt hugmyndir um miklar launahækkanir til kennara veki almennt litla hrifningu meðal skattgreiðenda.
Það vekur líka athygli að á launaseðlinum eru í raun átta frádráttarliðir fyrir utan skatta og lífeyrissjóðsiðgjöld. Þar ber einna hæst 2.955 krónur sem renna til Kennarasambandsins Íslands. Það er með ólíkindum að menn sætti sig við að teknar séu hátt í 40 þúsund krónur á ári í félagsgjöld til félags sem enginn hefur óskað eftir að vera í. Þetta er líka alveg ótrúlega hátt hlutfall af launum, sérstaklega þegar það er haft í huga að kennarar virðast almennt sammála um að kjörin sem sambandið hefur samið um fyrir þeirra hönd gætu vart verið verri. Þessir peningar virðast fara beint út um gluggann. Við þetta bætast svo ýmis „mótframlög“ launagreiðandans sem renna ekki til launþegans heldur í ýmsa sjóði sem sinna hinu og þessu. Það er til dæmis gaman fyrir kennara sem á sumarbústað að greiða í orlofsheimilasjóð. Alls nema þessir frádráttarliðir tæpum 11 þúsund krónum á mánuði eða um 120 þúsund krónur á ári. Auðvitað á hver og einn kennari að gera það upp við sig hvort hann vill leggja til hliðar vegna þessara mála í stað þess að tekin sé miðstýrð ákvörðun um þetta af kennarasambandinu og launanefnd sveitarfélaganna.