Laugardagur 25. september 2004

269. tbl. 8. árg.

Reglugerðafarganið um umhverfið verður sífellt tilkomumeira. Væntanlega myndi einhver umhverfisverndarsinninn segja að það væru ófá tré sem fallið hafa til að koma þessu öllu á blað. Alls kyns alþjóðlegar skuldbindingar hlaðast upp auk innlenda regluverksins, að ógleymdum tilskipunum Evrópusambandsins. Það er því ekki gott að henda reiður á öllum reglunum og ýmsir lenda í því að fara jafnvel ekki eftir þeim.

The Wall Street Journal sagði til að mynda frá því í síðustu viku að saksóknari í Alaska hefði höfðað mál gegn Grænfriðungum fyrir að brjóta umhverfislöggjöf ríkisins. Svo virðist sem bátur grænfriðunga, Arctic Sunrise, hafi farið inn í lögsögu Alaska án þess að hafa gert áætlun um hvernig yrði brugðist við olíuleka frá fleyinu. Einnig mun hafa skort vottorð þess efnis að báturinn væri tryggður fyrir þeim kostnaði sem leki gæti valdið. Báturinn getur borið allt að hálfa milljón lítra af eldsneyti og smurolíum og mun hafa verið við Ketchikan þar sem bátsverjar voru að mótmæla skógarhöggi.

Saksóknari heldur því fram að þegar umhverfisverndarsamtökunum var tilkynnt um brot þeirra á reglunum hafi umboðsmaður skipsins samþykkt að það myndi liggja við festar þar til búið væri uppfylla ákvæði reglugerðarinnar. Arctic Sunrise hafi hins vegar haldið úr höfn þennan sama morgun og flengst um „viðkvæm hafsvæði í miðri laxagöngu án þess að skeyta um þau skelfilegu áhrif sem það gæti haft í för með sér að hafa ekki nauðsynlegan viðbúnað til að bregðast við óhappi.“ Réttað verður í málinu í október.

The Wall Street Journal segir að talsmenn Grænfriðunga hljómi eins og hverjir aðrir talsmenn stórfyrirtækis þegar þeir eru spurðir skýringa á þessu öllu saman. Þeir bera við skriffinnsku og mistökum í boðskiptum. Blaðið hefur svo heimildir fyrir því að lögmaður samtakanna hafi borið því við að reglur um umhverfismál „séu að verða æ flóknari nú um stundir“. Já er það virkilega?

Grænfriðungar eru meðal annars frægir fyrir að láta ekkert tækifæri ónýtt til að stefna mönnum fyrir brot á reglum um umhverfismál.