ÍKastljósi Ríkissjónvarpsins á fimmtudagskvöld í síðustu viku var rætt um skipulagsmál í Reykjavík. Þar voru mættir fulltrúar að minnsta kosti þriggja arma úr hreyfingu fyrir „þéttari byggð“ í borginni en þétting byggðar er oft, en alls ekki alltaf, notað sem feluheitið á hatri manna á fólksbílum. Þétting byggðar er þó ekki endilega lausn á umferðarhnútum því þegar byggð er þétt og fólki fjölgar á ákveðnu svæði er jafnframt hætt við að bílum fjölgi og umferð aukist á svæðinu.
Þegar leið á þáttinn og menn voru búnir að segja tíu sinnum hver að það væri ljótt að fara ferða sinn á bíl spurði stjórnandi þáttarins grátklökkur hvort menn væru ekki einfaldlega búnir að tapa fyrir bílnum, hann væri búin að taka öll völd af mönnum í skipulagsmálum. Einn gestanna, Egill Helgason, tók undir það. Til marks um það nefndi Egill að það þætti orðið svo fjarstæðukennt að vera andvígur mislægum gatnamótum á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar að það jafngilti því hér um bil að vera fylgjandi dauða og eyðileggingu. Ljótt ef satt er. Það er ekki fallegt að stilla mönnum upp við vegg með þessum hætti, annaðhvort ertu sammála okkur um að smíða mislæg gatnamót eða þú hefur ánægju af dauðanum og öðrum skaða sem verður á gatnamótunum!
Vefþjóðviljinn man ekki eftir mörgum slíkum dæmum úr umræðu síðustu ára nema helst að þegar umræðan um framtíð flugvallarins var hvað mest í aðdraganda skrípaleiksins sem kallaður var kosning um flugvöllinn og fáir tóku þátt í og enn færri mark á enda var leikreglunum breytt að kosningum loknum. Þá var í sjónvarpi vikulegur umræðuþáttur sem hófst jafnan á myndbandi sem sýndi flugvél flogið á Alþingishúsið með tilheyrandi sprengingu. Átti þetta að sýna mannvonsku þeirra sem vildu hafa flugvöllinn á sínum stað. Annaðhvort viltu flugvöllinn burt eða þú hefur ánægju af því að flugvél í aðflugi að vellinum brotlenti á þinghúsinu!
Þátturinn sem hér um ræðir var Silfur Egils.