Fimmtudagur 23. september 2004

267. tbl. 8. árg.

Á tóbaksvarnarráðstefnunni LOFT 2004, sem haldin var í Hveragerði fyrir réttri viku, voru ráðstefnugestum lesin eftirfarandi skilaboð frá heilbrigðisráðherra: „Mér finnst alltaf skjóta skökku við þegar stjórnvöld eru gagnrýnd fyrir frelsisskerðingu og mannréttindabrot sýni þau vilja og þor til að beita stjórnvaldsaðgerðum í baráttunni gegn tóbaki.“ Já, það skýtur skökku við í huga ráðherrans að einhverjir hafi áhyggjur af grundvallarréttindum manna þegar tóbaksvarnir eru annars vegar og má af því væntanlega draga þá ályktun að öll réttindi einstaklinga verði að víkja þegar þessi barátta er háð. Þannig hefur það reyndar verið og er skemmst að minnast nýlegra tóbaksvarnarlaga sem banna mönnum til að mynda að reykja í sameignum heimila sinna jafnvel þótt allir íbúar hússins séu samþykkir því að reykt sé. Og þessi lög banna líka umræður um einstakar tóbakstegundir, aðrar en þær sem fela í sér viðvörun um skaðsemi tóbaksins, þannig að hér má víst ekki geta þess að ýmsum þykir afskaplega gott að byrja daginn á því að fá sér eina Camel nema láta þess um leið getið að reykingar hafi skaðleg áhrif á heilsu manna. Eignarrétturinn og tjáningarfrelsið eru ekki í meiri metum hjá sumum en svo, að þeim þykir „skjóta skökku við“ að fundið sé að þessu.

En þetta var ekki það versta í ræðu þeirri sem flutt var í nafni ráðherrans. Í ræðunni var einnig boðað að nú sé í undirbúningi frumvarp til laga um að banna alfarið reykingar á veitingastöðum og þar kemur fram að ráðherrann telur að nái slíkt frumvarp fram ganga muni ekki líða mörg ár þar til að reykingar á veitingastöðum þykja jafn fráleitar og þær þykja nú í opinberum stofnunum, almenningssamgöngutækjum og víðast þar sem fólk sækir sér þjónustu af einhverju tagi, svo vitnað sé til ræðunnar. Það er með suma ákafa baráttumenn gegn reykingum eins og marga aðra ákafamenn að þeir sjást ekki fyrir og sjá ekkert óeðlilegt við það að beita ríkisvaldinu fyrir sig til að þvinga sjónarmið sín upp á aðra. Þeim nægir ekki að reka áróður fyrir sjónarmiðum sínum, heldur vilja þeir beita þá sem eru ósammála nauðung. Og þeir vilja sífellt ganga lengra og lengra. Þegar fallist er á að banna reykingar á veitingastöðum nema í tilteknum hlutum þeirra, þá ganga þeir nú á lagið og vilja næst banna með öllu að reykt verði á slíkum stöðum.

Verði þetta væntanlega frumvarp heilbrigðisráðherra að lögum skulu menn ekkert láta sér bregða þótt næsta frumvarp um þetta efni kveði á um að reykingar verði bannað á einkaheimilum. Eins og áður segir hefur þegar tekist að banna reykingar í sameign þótt allir eigendurnir séu sammála um að þar skuli reykt, þannig að skrefið yfir í bann við reykingum inni á heimilum fólks er ekki eins stórt og það kann að virðast í fyrstu. Og þegar frumvarp um þetta efni verður lagt fram mun einhver áreiðanlega verða tilbúinn til að færa fyrir því þau rök að síðar muni þetta þykja alveg sjálfsagt. En sama hversu sjálfsagt einhverjum – eða jafnvel flestum – kann einhvern tímann þykja að banna fólki að gera það sem það vill á heimilum sínum eða á veitingastöðum sínum, þá breytir það ekki því að með þessu er brotinn réttur á fólki og engin ástæða er til þess fyrir ráðherra eða aðra að gera lítið úr þeim rétti.