Mánudagur 13. september 2004

257. tbl. 8. árg.
Pictures are for entertainment; messages should be delivered by Western Union.
 – Samuel Goldwyn.

Ísíðustu viku var greint frá því að borgaryfirvöld í Reykjavík hefðu, síðast þegar þau efndu til „bíllauss dags“, ekki látið sér nægja að hvetja borgarbúa til þess að fara ekki um á einkabifreið, heldur hefði meirihlutinn í samgöngunefnd beinlínis samþykkt „að láta loka einni akrein Miklubrautar og Hringbrautar fyrir allri umferð nema strætisvagna“, þennan bíllausa dag. Þessi gæfulega fyrirætlan hefði strandað á því að lögreglan hefði neitað að taka þátt í gríninu. Þó áróðurinn fyrir bíllausa deginum sé á margan hátt undarlegur, þá er hann eiginlega eðlilegur í samanburði við það að fara hreinlega að loka götum til að sveigja borgarana undir vilja borgaryfirvalda.

Bandaríski kvikmyndaframleiðandinn Samuel Goldwyn taldi að kvikmyndir væru til þess að skemmta fólki; þeir sem teldu sig þurfa að koma skilaboðum á framfæri gætu bara gert það með símskeyti. Þetta er ekki vitlausara sjónarmið en margt annað, að minnsta kosti ekki á þeim tímum þegar Michael Moore er sagður gera „heimildamyndir“. En ef skilaboð eru boðflennur í kvikmyndum, hvað á þá að segja um þá hugmynd að nota opinber fyrirmæli til þess að „senda skilaboð“ til borgaranna? Eitt er að vilja að fólk ferðist sem minnst í eigin bílum, menn mega alveg vera á þeirri skoðun ef þeir vilja, en það er orðinn allt annar hlutur þegar yfirvöld eru farin að loka götum til þess að þrýsta fólki til þess að eltast við þessa hugmyndafræði. Yfirvöld eiga sem minnst að reyna að stjórna vali borgaranna, hvort sem það er um það hvort þeir fara í vinnuna í strætisvagni eða einkabíl, eða um aðra hluti sem engan rétt brýtur á öðrum.

Boð og bönn, þvinganir og ívilnanir, eru meðul sem hið opinbera á sem minnst að nota til þess að þvinga borgarana til þess að láta af eigin vilja en fara að vilja hins opinbera. Nú má helst ekki misskilja þessa staðhæfingu; hér á Vefþjóðviljinn við að ekki eigi að þrýsta á borgarana til annars en að brjóta ekki á rétti annarra. Eitt er að nota hótun um fangelsisvist til þess að þrýsta á fólk að svipta ekki aðra menn lífi, og svo framvegis. Það er hins vegar óeðlilegt að nota reglur til þess að fá menn til þess að láta af hegðun eða taka upp hegðun, velja eitthvað eða velja ekki eitthvað, sem engan rétt brýtur á öðrum. Þó einhverjir stjórnmálamenn hafi ef til vill þá skoðun að hjón eigi að skipta heimilisstörfum og tekjuöflun með tilteknum hætti, þá eiga þeir ekki að nota opinbert kerfi til þess að ná fram þeirri skiptingu. Þó einhverjir stjórnmálamenn vilji fá alla úr einkabílunum og í strætisvagnana, þá eiga þeir ekki að hrófla upp götuvígjum. Og svona mætti lengi telja. Hegningarlög til dæmis, þau á að nota til þess að vernda mikilvæga hagsmuni, svo sem líf, heilsu og eignir, en ekki til þess að „senda skýr skilaboð“. Dæmi um það gæti verið svokallað vændisfrumvarp sem töluvert var rætt á alþingi síðastliðinn vetur. Það frumvarp var soðið eftir sænskum reglum sem settar voru til að berjast við götuvændi, sem hins vegar er óþekkt hér. Þegar bent var á þetta atriði svöruðu frumvarpsmenn því til að þá væri einfaldlega rétt að samþykkja frumvarpið til þess að senda skýr skilaboð, að vísu til óviss viðtakanda. En skilaboð geta menn sent í ræðu og riti. Lög, reglur og samþykktir eru ekki ætluð til þess.