Helgarsprokið 12. september 2004

256. tbl. 8. árg.

Þann 21. mars 1974 afhentu forvígismenn undirskriftasöfnunarinnar Varið land, forsætisráðherra og forseta alþingis, undirskriftir 55.522 Íslendinga þar sem skorað var á ríkisstjórn og Alþingi að láta af áformum um að segja upp varnarsamningnum við Bandaríkin. Rúmlega helmingur kosningabærra manna hafði ljáð áskoruninni samþykki sitt með undirskrift. Undirskriftasöfnun Varins lands stóð frá 15. janúar til 20. febrúar 1974. Stefnt hafði verið að afhenda undirskriftirnar þann 1. mars en þar sem allar undirskriftir voru sannprófaðar með samanburði við þjóðskrá dróst það um nær þrjár vikur. Enda varð kostnaður vegna skýrsluvélavinnu við þessa sannprófun eina rúmlega fjörutíu af hundraði alls kostnaðar við söfnunina þegar upp var staðið. Rétt er að benda á, að teknu tillit til fjölgunar landsmanna frá 1974 til dagsins í dag, þá samsvarar fjöldi undirskriftanna því að safnað væri undirskriftum um 85.000 Íslendinga. Ekki er vafi á því að þessi undirskriftasöfnun hafði veruleg áhrif til þess að Alþingi og ríkisstjórn hættu við fyrirætlan sína um uppsögn varnarsamningsins og þá um leið að fyrirhuguð lög urðu ekki að lögum.

„…lagði forvígismaður söfnunarinnar sérstaka áherslu á það að nöfnum og kennitölum yrði safnað burtséð frá því hvort nöfnin og kennitölurnar ættu við einstaklinga sem væru samþykkir eða andvígir því sem „skrifa“ átti undir. Enda fór það svo að fylgismenn söfnunarinnar reyndu að skipta um nafn á henni

Þetta er rifjað upp hér vegna þess að á nýliðnu sumri fór fram svo kölluð undirskriftasöfnun sem ætlað var að hafa sömu áhrif, það er að fyrirhuguð lög yrðu ekki að lögum. Annað eiga þessar safnanir ekki sammerkt. Þær eru reyndar svo ólíkar að það væri fullkomlega tilgangslaust að bera þær saman ef ekki væri vegna þess að þær urðu, hvor með sínum hætti, liður í því að fyrirhuguð lagasetning náði ekki fram að ganga.

Undirskriftasöfnunin gegn fjölmiðlafrumvarpinu sem fram fór í sumar var í fyrsta lagi ekki undirskriftasöfnun heldur var hún söfnun nafna og kennitalna sem hver sem var gat skráð á vefsíðu söfnunarinnar. Í öðru lagi lagði forvígismaður söfnunarinnar sérstaka áherslu á það að nöfnum og kennitölum yrði safnað burtséð frá því hvort nöfnin og kennitölurnar ættu við einstaklinga sem væru samþykkir eða andvígir því sem „skrifa“ átti undir. Enda fór það svo að fylgismenn söfnunarinnar reyndu að skipta um nafn á henni, eins og vinstri manna er siður, þegar þeir gátu ekki lengur varist gagnrýninni. Þannig fór fyrrverandi húsvörður hjá ríkinu, sem var ákafur fylgismaður söfnunarinnar, að tala í sífellu um bænaskjal á heimasíðu sinni þegar hann átti við þetta fyrirbæri sem áður hafði heitið undirskriftasöfnun. Og bænaskjöl, þau lúta jú allt öðrum lögmálum en undirskriftasafnanir, eða hvað?

Söfnunin Varið land setti bæði ótvírætt og gott fordæmi. Ótvírætt vegna þess hversu margir skrifuðu undir og gott vegna þess hversu vel var að söfnuninni staðið og sannprófun undirskrifta.

Það er því furðulegt að forseti skuli ekki hafa litið til þess fordæmis þegar hann tók við kennitölusafninu sem átti að vera til höfuðs fjölmiðlafrumvarpinu. En ef fjöldi þeirra kennitalna sem safnaðist var rúmlega þrjátíuþúsund eins og forvígismaðurinn hélt fram en enginn fékk að sannreyna nema hann og forseti og ef allar þessar kennitölur voru lagðar fram af þeim sem þær áttu sem ómögulegt er að sannreyna, ef öll þessi ef eru sönn, þá er fjöldi þessara „undirskrifta“ litlu meiri en fjöldi þeirra sem mætti á kjörstað í forsetakosningum til að skila auðum seðli. Og það eru þó alltént engin ef í því að tæplega tuttuguogáttaþúsund manns mættu á kjörstað til að skila auðum seðlum. Og það er enn furðulegra að forseta og fylgismönnum hans þóttu þessi vafasömu rúmlega þrjátíuþúsund óskaplega merkileg en þessi óvefengjanlegu tuttuguogáttaþúsund næsta ómerkileg og ekki orðum á eyðandi.

En furðulegust var Þjóðarhreyfingin, þessi með lýðræði, hún var eins og Hjartadrottningin í Undralandi á meðan þessu stóð. Orðin þjóð, hreyfing og lýðræði merktu allt og ekki neitt, eða einmitt það sem hún vildi.