Laugardagur 11. september 2004

255. tbl. 8. árg.

U tanríkisráðherra er viðkvæmur fyrir því að bent skuli vera á að utanríkisþjónustan sé of dýr og að spara megi með því að nýta nútímatækni í stað þess að hafa fjölda manna í dýru húsnæði á víð og dreif um heiminn eða á sífelldum ferðalögum. Ástæða þessarar viðkvæmni utanríkisráðherra er líklega afar einföld; hann veit að hún á rétt á sér og hann veit að honum er um að kenna. Í tíð Halldórs Ásgrímssonar hefur utanríkisráðuneytið þanist út og það þarf ekki að koma á óvart að honum mislíki að á það sé bent. Það sem hér er vísað til eru vitaskuld viðbrögð utanríkisráðherra við ábendingum Tryggva Þórs Herbertssonar forstöðumanns Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um hvar megi spara í ríkisrekstrinum. En forstöðumaðurinn nefndi fleira en utanríkisþjónustuna þótt aðrir ráðherrar sé síður viðkvæmir en utanríkisráðherra og setji ekki fram óskir um að hagfræðingar hætti að ræða pólitík eins og utanríkisráðherra gerði.

Forstöðumaðurinn nefndi til að mynda vegaframkvæmdir og benti á að á því sviði mætti spara. Ekki vill Vefþjóðviljinn fullyrða að ábendingin um sparnað í vegagerð hafi komið í framhaldi af ferðalögum forstöðumannsins um landið í ár eða á liðnum árum, en það kæmi þó ekki á óvart. Þeir sem ekið hafa um landið hafa vafalítið áttað sig á því að margar vegaframkvæmdir sem staðið  hefur verið fyrir á nýliðnum árum eða standa yfir nú eru ekki nema mátulega mikilvægar. Þeir sem aka um Snæfellsnes hafa til að mynda orðið varir við brúargerð yfir lítinn fjörð, Kolgrafarfjörð, á norðanverðu nesinu. Þessi brú á að stytta vegalengdina út á nesið um örfáa kílómetra og kostnaðurinn verður engan veginn réttlættur með notkun vegarins. Annar vegaspotti sem unnið hefur verið við að bæta er ekki beinlínis í alfaraleið, en hann er norðan Gullfoss og gagnast þeim vilja aka Kjalveg yfir miðhálendið. Þarna er verið að setja bundið slitlag á nokkurra kílómetra kafla og verður seint hægt að halda því fram að umferðaröngþveitið réttlæti þess háttar vegabætur.

Ýmsar aðrar vegabætur mætti nefna á afskekktum fjallvegum víðs vegar um landið og þá ekki aðeins á miðhálendinu. Að ógleymdum þeim fjöllum sem beinlínis er verið að bora gat á til að koma þeim fáu sem um þau aka hraðar á milli staða. Vissulega er þetta allt til bóta fyrir þá fáu sem munu nýta sér vegabæturnar, en engin leið er að réttlæta þær þegar litið er til kostnaðar fyrir skattgreiðendur. Þegar haft er í huga að um og yfir tíu milljarðar króna fara til vegaframkvæmda ríkisins á hverju ári er augljóst að vel má spara myndarlega í þessum málaflokki.