Þriðjudagur 14. september 2004

258. tbl. 8. árg.
Í nótt tókust samningar milli launanefndar sveitarfélaga og bakara um verð og lögun á heilhveitibrauði til heimilisnotkunar…

Þær fjárhæðir sem tekist er á um í samningum kennarasamtaka og samninganefndar sveitarfélaga hlaupa á milljörðum á ári. En það er ekki þessi gjá á milli kennara og vinnuveitenda þeirra sem er helsta áhyggjuefnið. Hvorki kennarar sjálfir né raunverulegir vinnuveitendur þeirra, foreldrar skólabarna, koma beint að samningaborðin heldur eru nokkrir milliliðir sem sjá um samningana. Samninganefndir kennarasamtaka, sem skylduaðild er að, sjá um samninga fyrir kennara. Samninganefnd sveitarfélaga, sem valin er af sveitarstjórnarmönnum sem kosnir eru af öllum, hvort sem þeir eiga börn í skóla eða ekki, semur fyrir foreldra. Nú geta milliliðir verið ágætir en þá því aðeins að einhver hafi óskað eftir liðsinni þeirra, sem er ekki raunin í þessu tilviki.

Það er ekki að undra þótt erfiðlega gangi að semja þegar málum er miðstýrt á þennan hátt. Menn geta ímyndað sér hvað gerðist ef bakarar höguðu málum á sama veg og kennarar. Þeir semdu ekki við kúnnann um verðið á brauðinu heldur færi félag bakarameistara með „kröfugerð“ til samninganefndar sveitarstjórna. Samninganefndir tækjust svo á um brauðverðið hjá sérstökum sáttasemjara á vegum ríkisins. Í samningaviðræðum yrði einnig tekist á um hve mikið af brauði íbúar sveitarfélaga ættu að torga. Það er hætt við að úrvalið í bakaríum yrði ekki aðeins fábreyttara heldur má gera ráð fyrir að menn þyrftu að vera án heilhveitihorna og kanilsnúða nokkra daga eða vikur á ári þar sem ekki náðist samkomulag milli kjaranefndar bakara og launanefndar sveitarfélaga í tæka tíð fyrir verkfall. Svo væru bakarar með „starfsdag“ og þá væri heldur ekkert bakað. Líklega yrðu þó „samkeppnisyfirvöld“ fljót að skipta sér af „samráði“ bakara ef þeir færu þessa leið en ekkert hefur heyrst af afskiptum yfirvaldanna af því víðtæka og nauðuga verðsamráði sem verkalýðsfélög eins og kennarasamtökin standa fyrir.

Miðstýring af þessu tagi útilokar einnig að gert sé vel við góða kennara og slakir kennarar fá engin skilaboð um að þeir ættu að snúa sér að einhverju öðru.