Miðvikudagur 1. september 2004

245. tbl. 8. árg.

S ex árum og um eitt þúsund milljónum króna síðar verður Þjóðminjasafn Íslands opnað á ný í dag. Almenningi verður boðið að ganga inn um nýjar bakdyr hússins og segja má að það sé við hæfi, enda iðulega komið aftan að fólki þegar það er fengið til að styrkja hvers kyns menningar-, íþrótta- eða aðra tómstundastarfsemi annarra landsmanna. Almenningur var til að mynda ekki spurður þegar farið var út í þessa eitt þúsund milljóna króna fjárfestingu – sem raunar átti að vera mun minni – en hann er vitaskuld engu að síður látinn greiða fyrir hana. Nú kann mörgum og jafnvel flestum að þykja sjálfsagt að ríkið sinni því sem kalla megi þjóðmenningu með þeim hætti að reka sérstakt safnahús þar sem munir úr sögu Íslendinga eru til sýnis. Einhverjir myndu halda því fram að þetta væri ein af skyldum ríkisins, en aðrir telja að ríkið hafi ekkert með að neyða fólk til að láta fé af hendi rakna til að reka slíkt safn. Þeir sem vilji að þeim munum sem þar eru sé haldið til haga skuli gera það á eigin kostnað og láta fjármuni annarra í friði.

En ríkið stundar ekki aðeins það að varðveita það sem einhverjir telja þjóðminjar eða þjóðmenningu, ríkið stuðlar líka að því að styðja eitt og annað sem flokkast undir framleiðslu á menningu eða list og væntanlega eru færri þeirrar skoðunar að þau fjárútlát ríkisins séu réttmæt en stuðningurinn við verndun minjanna. Í báðum tilvikum á þó hið sama við, að enginn getur fullyrt að minjar myndu glatast eða menningarsköpun verða að engu ef ríkið hætti stuðningi sínum og myndi eftirláta íbúum landsins að sinna slíkum málum. Eftirsóknarverð menningarstarfsemi er væntanlega sú menningarstafsemi sem fólk sækist eftir og er þar með tilbúið til að greiða fyrir án þess að nauðung komi til. Margvísleg menningarstarfsemi er stunduð hér á landi sem lifir ekki vegna opinberra styrkja og ýmis starfsemi sem nú fær opinbera styrki gæti haldið áfram án styrkjanna. Þá má ekki gleyma því að sú menningarstarfsemi sem nú nýtur stuðnings hins opinbera kemur í veg fyrir að margvísleg önnur menningarstarfsemi verði að veruleika. Hið opinbera, ríki og sveitarfélög, hefur sömu áhrif á þessu sviði eins og öðrum. Með afskiptum sínum styður það ekki aðeins við starf eins heldur ryður það burtu starfsemi annars. Sá sem hefur góða hugmynd sem hann vill koma á framfæri og sýna almenningi gegn greiðslu verður stundum að sætta sig við að geta ekki keppt við niðurgreidda menningarstarfsemi hins opinbera. Þannig verður við núverandi aðstæður frekar til sú menning sem hinu opinbera er þóknanleg en sú sem almenningur kysi helst fengi hann að ráða.