Þriðjudagur 31. ágúst 2004

244. tbl. 8. árg.

Þ

egar bandaríski útvarpsmaðurinn Howard Stern gafst upp á starfi sínu á útvarpsstöð í Bandaríkjunum sem sérhæfði sig í sveitatónlist lét hann þess getið að hann næði bara engu sambandi við þessa tegund tónlistar enda hvorki átt pallbíl né sængað með föðursystur sinni. Nú getur Vefþjóðviljinn ekkert fullyrt um hversu margir Íslendingar uppfylla bæði skilyrðin sem Howard Stern setur fyrir því sveitatónlist falli í kramið hjá mönnum en líklega uppfylla of margir að minnsta kosti annað þeirra. Íslendingar eiga sennilega of marga pallbíla. Of margir Íslendingar aka um með vörubílafjöðrun, aukahjól og vörupall.

Ástæðan fyrir þessu er einföld. Pallbílar bera engin eða 15% vörugjöld en venjulegir fólksbílar og jeppar bera 30 eða 45% vörugjöld. Bílarnir á myndinni hér til hliðar eru sömu gerðar, Ford Explorer, en annar er með pall og væntanlega stífari fjöðrun. Pallbíllinn ber 15% vörugjöld en jeppinn 45%. Á báða leggst svo 24,5% virðisaukaskattur. Kosti þeir báðir 2 milljónir króna á hafnarbakkanum hér kostar jeppinn 3,6 milljónir eftir tollafgreiðslu en pallbíllinn 2,8 milljónir. Ef pallbíllinn væri með tvöföldum hjólum að aftan myndi hann kosta 2,5 milljónir króna. Munurinn í krónum talinn er enn meiri ef um dýrari bíla er að ræða.

Það má því gera ráð fyrir að ýmsum þyki freistandi að aka um með pall fyrir verðmuninn. Kannski má orða þetta svo að ríkið greiði þeim laun sem aka um með pall frekar en á venjulegum jeppa. Ástæðan fyrir því að pallbílar bera lægri vörugjöld er væntanlega sú að þeir eru mikið notaðir í atvinnurekstri og yfirvöld hafa ekki viljað leggja svo ofboðslegar hömlur á bílanotkun í atvinnurekstri og þau gera á kaup almennings á bílum til eigin nota.

Það er ekki nýtt að þegar skattar eru háir þurfi að vera undanþágur frá þeim. Þessar undanþágur eru svo auðvitað nýttar af fleirum en ætlað var. Ráðið við þessum vanda er ósköp einfalt og nefnist skattalækkun.