Mánudagur 30. ágúst 2004

243. tbl. 8. árg.

Ríkisútvarpið sagði í gær frá rannsókn á því sem nefnt var félagsleg staða fanga, og meðal þeirra niðurstaðna sem slegið var upp var sú að „félagsleg staða og bakgrunnur“ kvenna í fangelsi væri mun verri en karla. Þessa niðurstöðu er auðvitað vandalaust – fyrir þá sem vilja – að skýra sem svo að konur standi verr en karlar í réttarvörslukerfinu, að verr sé farið með konur en karla. En svo væri líka hægt – fyrir þá sem það vilja frekar – að skýra þessa niðurstöðu þannig, að konur sem koma fyrir dómstóla fái þvert á móti betri meðferð en ákærðir karlmenn. Að refsing kvenna sé fremur skilorðsbundin, þær séu jafnvel fremur sýknaðar eða ekki hreinlega ekki ákærðar. Því verði það svo, að þær konur, sem á annað borð rati inn fyrir múrana, séu þær sem komnar séu í alger óefni, en hins vegar séu karlar fremur settir inn og þá einnig þeir sem skár eru staddir. Ekki veit Vefþjóðviljinn hvort nokkuð væri til í slíkum skýringum en nefnir þetta fremur til að minna á hversu ólíkar ályktanir má draga af einni og sömu niðurstöðunni. Sem að sínu leyti eykur nú ekki gagnið sem hafa mætti af slíkum rannsóknum, þó hluta niðurstaðnanna sé slegið upp í einum og einum fréttatíma.

Á dögunum voru birtar niðurstöður annarrar rannsóknar þar sem að sögn kom fram að konur, utan vinnumarkaðar, væru í betri holdum en útivinnandi konur og væri meiri munur þar á en milli þeirra karla sem ynnu úti og svo þeirra sem væru heima. Þetta þótti fréttamönnum sýna að ríflegur líkamsvöxtur héldi konum fremur en körlum utan vinnumarkaðarins. Ekki virtist fréttamönnum aðrir möguleikar koma til greina, svo sem að þær konur, sem tækju þann kost að vinna ekki úti, yrðu líklegri til að safna holdum en hinar. Að umgengni við vinnufélaga hefði kannski áhrif á lífsstíl kvennanna, eða eitthvað slíkt. En að vísu má segja að fyrri skýringarkosturinn getur ratað í fréttirnar. Hinn er hversdagslegur, skiptir engu máli og kallar ekki á nokkur viðbrögð.

Af hverju er Vefþjóðviljinn að brjóta heilann um þessar undarlegu kannanir eða útleggingu niðurstaðna þeirra? Ja þá kannski helst til að minna á hversu fréttir af hinum endalausu „rannsóknum“ sem félagsfræðingar eru að selja hinu opinbera, geta verið gagnslitlar. Hversu oft menn eru í raun engu nær þó fjölrituð hafi verið hundrað blaðsíðna skýrsla sem kynnt sé á klukkutíma blaðamannafundi, fái tveggja mínútna frétt, engan skilning fjölmiðlamannsins og jafnvel lítinn hjá áhorfandanum sem aldrei sér skýrsluna í heild og heyrir aldrei minnst á þá ótal fyrirvara sem oft eru á víð og dreif í skýrslunum þó þeir rati auðvitað aldrei í fréttirnar. Þó óþarfi sé að efast um að rannsakendur leggi sig almennt fram um að vinna verk sitt vel, þá fer ekki hjá því að Vefþjóðviljinn spyrji: Hversu oft hefði hið opinbera ekki getað sparað nokkrar krónur með því að afþakka „rannsóknina“ og „skýrslugerðina“ í tæka tíð?