Helgarsprokið 29. ágúst 2004

242. tbl. 8. árg.
Var vestrið fremur stillt en villt?

Fréttnæmustu viðburðir samtímans eru af stríði, hamförum, óáran og átökum í stjórnmálum og viðskiptum. Fréttaannálar fortíðar eru sama marki brenndir. Þegar rætt er um komu Evrópumanna til vesturríkja Bandaríkjanna er yfirleitt talað um „villta vestrið“ og menn sjá fyrir sér óheflaða kúreka, gullgrafara, veiðimenn og aðra ævintýramenn slást innbyrðis og við indíána um land og önnur gæði í fullkomnu stjórnleysi. Flestar bíómyndir um þetta tímabil, Vestrarnir svonefndu, gefa þá mynd að þeir hafi helst orðið ofan á í lífsbaráttunni sem voru skjótastir að skjóta.

Í nýrri bók, The Not So Wild, Wild West, eftir hagfræðingana Terry Anderson og P.J. Hill er dregin upp nokkuð önnur mynd af landnáminu og lífinu á sléttunum miklu. Vestrið hafi fremur verið stillt en villt. Þegar menn hafi lagt af stað vestur og yfirgefið skipulagt samfélag hafi þeir átt tvo kosti þegar leysa þurfti deilumál. Annars vegar að leysa mál með valdi og hins vegar með samningum. Landnemarnir hafi tekið síðari kostinn í flestum tilfellum. Þeir hafi lagt sig fram um að semja um ólík og ólíklegustu mál og séu réttnefndir „sáttmálafrumkvöðlar“. Anderson og Hill neita því vissulega ekki að ofbeldi hafi átt sér stað í Vestrinu. Það hafi fyrst og fremst verið með tvennum hætti. Annars vegar með því að einstaklingar eða samtök þeirra gripu til vopna til að verja eignarrétt sinn. Hins vegar hafi ríkisvaldið verið nýtt til að taka land af mönnum og eiga þeir þar einkum við stríð við Indíána á síðari hluta nítjándu aldar. Höfundarnir telja því áhugavert að skoða við hvaða skilyrði landnemarnir völdu samninga og aðrar friðsamlegar lausnir fremur en að láta sverfa til stáls.

Hvaða aðstæður við landnámið ýttu undir samvinnu fremur en átök? Við höldum því fram að samvinna hafi verið svo yfirgnæfandi vegna þess að kostir og gallar við myndun á nýju samfélagi hafi leitt til myndunar á smáum og vel skilgreindum samfélögum. Svo fremi sem leikreglur og stofnanir samfélagsins urðu til af fúsum og frjálsum vilja þeirra sem í hlut áttu var tryggt tekið var tillit til kostnaðar við átök og ávinnings af samvinnu. Þessar staðbundnu stofnanir gátu því lagað sig að nýju umhverfi og breyttum efnahag. Um leið og ríkið hóf afskipti af þessum samfélögum raskaðist jafnvægið þar sem einstaklingar báru ekki lengur allan kostnaðinn af átökum og höfðu minni hag af samvinnu. Þegar menn geta kallað á her kostaðan af skattgreiðendum til að taka land af Indíánum eða fengið ríkið til að styrkja óarðbæra áveitu gera menn það óháð heildarútkomunni fyrir samfélagið. Þetta gerist þegar stjórnvöld, víðs fjarri þeim er ákvarðanirnar varða, geta dreift kostnaðinum af þeim á alla landsmenn með skattheimtu en ávinningurinn lendir allur hjá litlum sérhagsmunahópi.

Hversu vel þessar sjálfsprottnu leikreglur og stofnanir virkuðu voru má svo meta út frá því hve vel þeim tókst að koma í veg fyrir átök.

Samskipti Evrópumanna við Indíána eru sérlega áhugaverð í þessu sambandi. Í upphafi áttu landnemarnir að mestu friðsamleg samskipti við frumbyggjana. Það auðveldaði viðskipti að ættbálkar Indíána í austurríkjum Bandaríkjanna skipuðu eignarrétti á landi með líkum hætti og Evrópumenn áttu að venjast. Í byrjun þurftu auk þess báðir að bera allan kostnað af vopnuðum átökum sjálfir. Eftir því sem tíminn leið og vestar dró tóku átök hins vegar við af frjálsum viðskiptum í vaxandi mæli. Indíánar á sléttunum voru hirðingjar og höfðu ekki eignarrétt á landi sem féll saman við þörf landnemanna á landi til landbúnaðar. Eftir stríð milli Bandaríkjanna og Mexíkó og stríðið milli ríkjanna sjálfra var bandaríski herinn orðinn það öflugur að landnemar gátu kallað á hann – á kostnað allra annarra – til að „útkljá“ deilumál sín við frumbyggjana. Við það bættist svo að herinn hafði sjálfur hag af því að standa í stappi við Indíánana því þannig hafði hann ástæðu til að krefjast aukinna fjárframlaga. Eftir að stríðunum við Indíána lauk var eignarrétti á verndarsvæðum þeirra ráðstafað ofan frá en ekki af íbúunum sjálfum. Ákvarðanir um nýtingu á verndarsvæðunum hafa ekki verið tekin af þeim sem bera kostnaðinn af ákvörðununum heldur af embættismönnum sem hafa annarra hagsmuna að gæta. Á verndarsvæðunum hefur því alla tíð verið þriðja heims bragur.

Annað dæmi af starfi sáttmálafrumkvöðla eru vagnalestirnar sem héldu vestur á bóginn frá Independence, Council Bluffs, St. Joseph og öðrum brottfararstöðvum yfir slétturnar miklu, yfir Klettafjöllin og Sierra fjöllin og allt að Kyrrahafinu. Þessar ferðir tóku um 160 daga á fimmta áratug nítjándu aldar áratug síðar tók ferðin um 115 daga enda var þá komin meiri þjónusta á leiðinni, fleiri ferjur, brýr og búið að finna styttri leiðir. Um leið og brottfararstaður var yfirgefinn voru menn búnir að yfirgefa formlegt ríkisvald og þurftu að þróa leiðir til að leysa deilur, verjast árásum Indíána og taka ákvarðanir um ferðahraða, viðgerðir, veiði og svo framvegis.

Hafi nokkru sinni verið ástæða til að ætla að alger ringulreið réði för var það í þessum löngu, erfiðu og hættulegu vagnaferðunum yfir slétturnar miklu. Fólkið í vögnunum þekkti ekki hvert annað, átti ekki von á því að eiga frekari samskipti við hvert annað að ferð lokinni, lenti í ótal óvæntum vandkvæðum á leiðinni og var komið langt frá öllu sem talist gat til stjórnvalda. Við slíkar aðstæður hefði ekki komið á óvart að upp úr syði. 
Það hve margir komust á leiðarenda er til marks um hve lagnir menn voru að þróa með sér samninga. Við upphaf ferðarinnar komu menn sér saman um hvernig standa skyldi að sameiginlegum ákvörðunum á leiðinni. Hópurinn réð til sín leiðangursstjóra sem einnig var settur undir samkomulagið. Rétt eins og hlutafélög nútímans sanka að sér hlutafé til að eiga kost að hagkvæmni stærðarinnar deildi fólkið í vögnunum tækjum og verkviti í ferðafélagi með takmarkaðan líftíma. 

Flestar vagnaferðirnar voru því farnar undir röð og reglu þótt ekkert yfirvald hafi verið til staðar til að styðja við samninga. Vagnalestir höfðu oft samvinnu um að handsama glæpamenn og til eru frásagnir af því að menn sem myrtu samferðamenn sína hafi verið eltir uppi, réttað yfir þeim með aðstoð frá mönnum úr nálægum vagnalestum og þeir hengdir sama dag. Alls kyns þjónusta við vagnafólkið spratt upp á brottfararstöðum og meðfram helstu leiðunum. Er kaflinn um þessar vagnaferðir afar fróðleg lesning þeim sem hafa áhuga á því hvort maðurinn geti haft skipulag án þess að ríkið skipuleggi lífs hans; hvort til séu reglur án lagasetningar. Það má til dæmis velta því fyrir sér hvort nokkur þessara ferða hefði verið farin ef tilskipanir og reglugerðir Evrópusambands nútímans hefðu náð til Evrópumannanna sem fóru þær. 

Þegar Lewis og Clark fóru um slétturnar miklu fyrir tveimur öldum voru þær þéttskipaðar vísundum. Einni öld síðar voru örfá dýr eftir. Bjórinn fór sömu leið. Það er áhugavert að velta því fyrir sér hvers vegna sáttmálafrumkvöðlar komu ekki í veg fyrir þessa ofnýtingu og það gera Anderson og Hill í bók sinni. Ofnýting af þessu tagi er oftast dæmi um „ólán í almenningi“. Slíkt ólán á sér stað þar sem eignarréttur á auðlindum er óskýr og aðgangur þeim er þar með ótakmarkaður með þeim afleiðingum að þær eru opnar fyrir ofnýtingu. En þetta nægir ekki sem skýring varðandi bjórinn og vísundinn. Erfitt er að hafa stjórn á vísundahjörð nema á mjög stóru landi. Ted Turner getur þetta nú til dag á 100 þúsund ekrunum sínum í Montana en landnámsjarðirnar voru venjulega miklu minni enda lagði ríkisvaldið hömlur á hvað hver maður mátti leggja undir sig (Homestead Acts) og kom einnig í veg fyrir að menn girtu landið af. Vísundurinn átti auk þess í keppni um beitarland við nautgripi og annan búsmala mannsins og varð einfaldlega undir í þeirri baráttu. Honum varð hins vegar forðað frá algerri útrýmingu með framtaki nokkurra manna og nú eru um 200 þúsund dýr til í Bandaríkjunum. Ekki var gengið eins nálægt bjórnum og vísundinum. Víða voru til staðar veiðiréttindi en á þau komst aldrei almennileg skipan með þeim afleiðingum af hver veiddi sem mest hann mátti. Það var einfaldlega ekkert vit í að veiða ekki dýr sem næsti maður myndi hvort eð er veiða. Bjórinn rétti hins vegar úr kútnum af sjálfsdáðum eftir að menn hættu að leggja fyrir hann gildrur um 1840. Að þessum skýringum gefnum er það niðurstaða Anderson og Hill að ekki hafi verið um annað að ræða en að menn nýttu þessi dýr með þessum hætti. Skýr eignarréttur auki hins vegar líkurnar á því að auðlindir séu ekki ofnýttar og nýtingin fari friðsamlega fram.

Anderson og Hill fjalla einnig um hvernig gullgrafarar í Kaliforníu og Nevada leystu sín mál. Á ótrúlega skömmum tíma fundu þeir leiðir til að skilgreina og vernda eignarrétt á námum. Yfirleitt voru hópar námumanna svo litlir að allir höfðu augljósan hag af því að halda uppi röð og reglu. Hið sama má segja um kúrekana sem ráku nautgripi allt að 2.400 kílómetra leið norður frá Texas og þurftu að tryggja gripunum beit og vatn á leiðinni. Þegar gripirnir höfðu etið nægju sína á sléttunum þurfti svo að koma kjötinu á markað á austurströndinni. Að auki er í bókinni fróðlegur kafli um hvaða áhrif það hefur á útdeilingu lands að hún verði til án stjórnar að ofan og með slíkri stjórn en þeir félagar telja að þær reglur sem Bandaríkjaþing setti um landnámið hafi leitt til sóunar og eyðilagt það sjálfsprottna skipulag landnámsmanna sem þegar var til staðar. Sjálfsprottna skipulagið var uppfinning þeirra sem voru á staðnum og báru allan kostnað af því sjálfir. Lögin voru hins vegar sett að þingmönnum í órafjarlægð sem þekktu lítt til aðstæðna og höfðu meiri áhyggjur af kjósendum sínum á austurströndinni en fólkinu sem þurfti að búa við lagasetninguna.