F orsetaframbjóðandinn bandaríski John Kerry vill að auglýsingar fyrrum hermanna úr Víetnam-stríðinu sem beint er gegn honum verði bannaðar. Hann og stuðningsmenn hans halda því fram að þessar auglýsingar komi úr herbúðum George W. Bush forseta og sýni þá neikvæðu kosningabaráttu sem hægri menn í Bandaríkjunum heyi jafnan. Undir þetta taka fjölmiðlamenn víða um heim – líka hér á landi – athugasemdalaust. Flestir þeirra eru enda vinstra megin við miðju og þykir gott að fá tækifæri til að draga upp neikvæða mynd af pólitískum andstæðingum sínum, jafnvel í öðrum löndum. Gallinn við gagnrýni Kerrys er annars vegar sá að hann hefur ekki sýnt fram á að auglýsingarnar komi úr herbúðum Bush og hins vegar að Kerry er ekki í góðri aðstöðu til að finna að þessum auglýsingum.
The Wall Street Journal vitnaði í vikunni til orða Kerrys frá 8. febrúar á þessu ári þar sem hann sagði: „Málið snýst um, eins og ég hef heyrt það lagt fram, hvort [Bush] var á staðnum og við skyldustörf í Alabama þegar hann átti að vera það. … Það eitt að ljúka herþjónustu með sæmd svarar í raun ekki þeirri spurningu.“ Samkvæmt þessu er það ekki Bush sem hefur veist að Kerry fyrir að hafa farið rangt með um feril sinn í hernum, heldur Kerry sem hefur veist að Bush. Bush hefur reyndar þvert á móti sagt nýlega að Kerry geti verið stoltur af herþjónustu sinni. Eins og The Wall Street Journal bendir á er góð regla í stjórnmálum að ef menn byrja einhvern slag eiga þeir að vera reiðubúnir til að ljúka honum. Blaðið segir Kerry ekki aðeins hafa byrjað á því að efast um herþjónustu Bush heldur hafi Kerry líka lagt á það áherslu í kosningabaráttu sinni að hann sé stríðshetja. Og þegar haft sé í huga að hann hafi við heimkomuna frá Víetnam árið 1971 ásakað aðra hermenn um stríðsglæpi – og hafi neitað að taka þær ásakanir til baka þrátt fyrir að hafa aldrei lagt fram nokkra sönnun orða sinna – þá þurfi enginn að verða hissa á að honum sé nú svarað fullum hálsi.
The Wall Street Journal segist ekki vita sannleikann um það hvernig Kerry hafi unnið til þeirra heiðursorða sem hann hafi fengið fyrir þjónustuna í Víetnam, en í einhverju tilviki að minnsta kosti hafi hann lagt sig í hættu við að bjarga öðrum hermanni. Það sé líka lítill vafi á því að hann hafi ýkt sumt og blaðið segir hógværð ekki verða talda til hans helstu kosta, ólíkt til að mynda fyrrum forsetaframbjóðanda Bob Dole og fyrrum forseta George H. W. Bush, sem hafi ekki haft hátt um mikil afrek sín á þessu sviði. Þeim spurningum og efasemdum sem uppi séu mætti þó að sögn blaðsins svara ef Kerry myndi einfaldlega opinbera allar skýrslur um herþjónustu sína. Þetta hafi hann hins vegar ekki gert, heldur hafi hann valið úr og sýnt það sem honum hafi hentað.
Einn hermannanna fyrrverandi, sem þjónuðu með Kerry í Víetnam og eru ekki sáttir við lýsingu hans á atburðum þar, ritaði grein í The Wall Street Journal í gær þar sem hann hafnar því alfarið að þeir séu útsendarar hægri manna í Bandaríkjunum. Hann segir þá tilheyra öllu hinu pólitíska litrófi og að þeir hefðu líka komið fram ef Kerry væri repúblikani og það að þeir myndu ekki hætta gagnrýni á Kerry þótt Bush forseti myndi biðja þá um að hætta gagnrýni sinni. Nú er ekki gott að fullyrða um hvað er til í þessu, en Kerry hefur að minnsta kosti gengið illa að afsanna þetta, líkt og honum hefur gengið illa að sýna fram á orð sín um stríðsglæpi þessara manna í Víetnam eða um eigin afrek á hernaðarsviðinu. Þegar horft er til þess hvaða menn þetta eru sem komið hafa fram til að gagnrýna Kerry er hins vegar ekki að undra að honum finnist gagnrýnin óþægileg og vilji láta banna hana. Hermaðurinn sem ritar í The Wall Street Journal segir að í þessum hópi gagnrýnenda Kerrys sé stór hluti þeirra sem þjónuðu með Kerry, bæði yfirmanna og undirmanna, og á vef gagnrýnendanna er farið rækilega yfir málið og meinta misnotkun Kerrys á herþjónustu sinni og á þeim sem þjónuðu með honum og hann reyni ranglega að láta líta út fyrir að styðji sig.
Mörgum leiðist kosningabarátta af þessu tagi og það er að sumu leyti skiljanlegt, þótt óheilindi á einu sviði geti vissulega gefið vísbendingar um hversu heilir menn séu á öðrum sviðum og þess vegna geti verið eðlilegt að ræða um framgöngu manna í fortíðinni. Þetta á vitaskuld sérstaklega við þegar menn vekja sjálfir máls á einhverju í fortíð sinni sem þeir telja sér til framdráttar og gagnrýna keppinauta sína fyrir meinta vafasama fortíð á sama sviði. Það verður ekki betur séð en Kerry hafi sjálfur kallað yfir sig þá gagnrýni sem hann kveinkar sér nú undan.