Hefði tilboð bankanna verið jafnhagstætt og raun ber vitni, hefði ríkisvaldið ekki gengið á undan í því að lækka vextina? Og af hverju eru kjör þau, sem bankarnir bjóða, svona dæmalaust lík frá einum banka til annars, eins og kemur fram í Morgunblaðinu í dag? |
– Leiðari Morgunblaðsins miðvikudaginn 25. ágúst 2005 |
Ef til er ein almenn stefna í leiðurum Morgunblaðsins þá er það tortryggni gagnvart frjálsum markaði. Oft er þessi tortryggni byggð á misskilningi þótt stundum sé um að ræða hreina andstöðu við frjálsan markað eins og afstaða blaðsins til sjávarútvegsmála hefur borið með sér um árabil. Þegar tilvitnunin í leiðara blaðsins hér að ofan er skoðuð liggur auðvitað beint við að spyrja hvers vegna áskrift að öllum íslenskum dagblöðum hefur svo lengi kostað svo gott sem það sama? Áður fyrr voru mörg blaðanna gefin út að mestu leyti á kostnað ríkisins en allt kom fyrir ekki. Nú eru aðeins seld tvö dagblöð á Íslandi, Morgunblaðið og DV, og áskrift að báðum kostar 2.400 krónur á mánuði. Svona dæmalaust lík kjör, myndi einhver segja. En vill einhver að ríkið hefji útgáfu dagblaðs og gangi á undan í því að lækka áskriftina?
Í umræðum um svonefnd samkeppnismál er því oft haldið á lofti að hin og þessi fyrirtæki keppi í raun ekki sín á milli því þau bjóði svipað verð á vöru og þjónustu. Það dæmi sem oftast er nefnt um þetta er olía þótt skattheimta ríkisins af olíu geri það að verkum að verðmunur verður aldrei mjög mikill á útsöluverði. Það sem skiptir hins vegar mestu máli fyrir neytendur er að verði sé haldið niðri. Hefðu neytendur verið einhverju bættari ef einhverjir bankar hefðu ekki jafnað tilboð KB banka heldur haldið áfram að bjóða hærri vexti á íbúðalánum? Þá væru kjörin ekki „svona dæmalaust lík frá einum banka til annars“ og leiðarahöfundur Morgunblaðsins væri væntanlega ánægður.
Ísíðari fréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi var sagt frá því að ríkissáttasemjari hefði mælst til þess að forsvarsmenn kennarasamtaka og sveitarfélaga, sem nú semja um kaup og kjör, viðruðu ekki deiluefni sín á fjölmiðlum. Tilefnið virðist hafa verið grein Kristjáns Þórs Júlíussonar bæjarstóra á Akureyri í Morgunblaðinu þar sem hann upplýsti útsvarsgreiðendur á Akureyri – og þar með á landinu öllu – hvaða áhrif það hefði á hag bæjarsjóðs ef gengið yrði að kröfum kennarasamtakanna.
Það vekur auðvitað alltaf jafn mikla undrun að sjá það í sjónvarpi að ríkið útvegi „viðsemjendum“ fundaraðstöðu, fundarstjóra og kaffibrauð. Það hljómar alltaf jafn einkennilega að til sé sérstakt embætti á vegum ríkisins til þess arna. Ekki minnkar undrunin þegar frá því er sagt að fundarstjórinn, sjálfur sáttasemjari ríkisins, mælist til þess að sveitarstjórnarmenn kynni útsvarsgreiðendum ekki hvaða launakröfur starfsmenn sveitarfélaga gera.