Fimmtudagur 26. ágúst 2004

239. tbl. 8. árg.

Raufarhafnarhreppur tilkynnti í gær að með markvissum aðgerðum hefði tekist að bæta svo rekstur sveitarfélagsins að nú verði afgangur af rekstrinum, en í fyrra hafi orðið umtalsvert tap. Breytingin nemi tugum milljóna króna og hafi náðst með „alhliða niðurskurði á rekstrargjöldum“ og „aðhalds verið gætt í hvívetna“. Þetta er mikil og ánægjuleg breyting fyrir Raufarhafnarbúa, en fyrir skömmu leit út fyrir að sveitarfélagið ætti stutt í þrot. Þá virðist sem frammistaða sveitarstjórnarinnar mætti verða mörgum öðrum sveitarstjórnum til fyrirmyndar og þá eins þó enn standi þau flest kannski betur en Raufarhafnarhreppur gerði. Það ætti nefnilega ekki að þurfa slík vandræði til þess að sveitarstjórnarmenn færu vel með það fé sem þeir hafa náð af sveitungum sínum. Sveitarfélög eru rekin fyrir nauðungargjöld íbúanna en ekki frjáls framlög, og allar útgjaldahugmyndir mætti skoða með það bak við eyrað. Sveitarstjórnarmaður sem beðinn er um styrk til einhvers erindisrekstrar ætti ekki að velta eingöngu fyrir sér hvort verkefnið væri „þarft eða óþarft“; hann mætti að minnsta kosti stundum velta fyrir sér hvort verkefnið sé þess eðlis að það geti hreinlega verið réttlætanlegt að neyða sveitungana til að fjármagna það. Mjög margir telja vafalaust að lögreglan, sjúkrahúsin og skólarnir réttlæti skattheimtu af fólki. Margir myndu nefna gatnagerð líka og svo framvegis. En hvað ætla menn að ganga langt? Bæjarlistamaður? Ný stúka við fótboltavöll númer tvö? Kórstjóri? Rennibraut við sundlaugina? Hvenær koma menn að mörkum þess sem þeim þykir réttlætanlegt að neyða aðra til stuðnings við og þess sem áhugamenn verða bara að borga sjálfir?

Og við frásagnir af Raufarhafnarhreppi má svo bæta því, að sveitarstjórinn á Raufarhöfn hélt því fram í Ríkisútvarpinu í gærkvöldi að sparnaður sveitarfélagsins hefði ekki „komið niður á þjónustunni“, ef menn hafa haft miklar áhyggjur af því.

Hversu örvæntingarfullir geta menn orðið? William Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna var á ferð hér á landi í fyrradag, konu sinni til fylgdar og sjálfum sér til skemmtunar og afþreyingar. Heimsótti hann einnig nokkra íslenska leiðtoga, forsætisráðherra á heimili hans, utanríkisráðherra í ráðherrabústaðinn og forseta Íslands á Bessastaði. En svo náði annar einstaklingur að grípa í höndina á Clinton og fá af sér mynd í blöðin, án þess að Clinton hafi nú leitað þessa persónu uppi. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaþingmaður þaut niður í bandaríska sendiráð þegar Clinton var væntanlegur þangað, og „átti með honum stuttan fund“.