Hið opinbera er sífellt að setja nýjar reglur. Leyfir sumt en bannar mun fleira, og þá ekki aðeins einhverja grundvallarglæpi. Ráðleggingar um hegðun, vafalaust skynsamlegar margar hverjar, eru settar fram í fyrirskipunarformi og sektir liggja við ef menn fara svo öðruvísi að. Það á að gera hlutina svona en ekki hinsegin. Svo er gert skylt að gera náunganum eitthvað til þæginda. Samkeppnisstofnun sektar fyrirtæki sem er ekki með nægilega marga verðmiða úti í glugga. Og auðvitað er alltaf verið að banna mönnum að móðga aðra. Sjómaður nokkur var dæmdur til refsingar eftir að hafa sagt þá skoðun sína að afríkunegrar væru latari en Íslendingar. Aðra má hins vegar ennþá móðga að vild. Ákæruvaldið myndi sennilega ekki gera nokkurn skapaðan hlut þó hálf sjómannastéttin segði að Íslendingar væru almennt séð aumingjar.
Það má vel vera að það væri frá almennu sjónarmiði betra ef fólk færi eftir reglum sem þessum. Það breytir ekki þeirri skoðun Vefþjóðviljans að þær ætti að afnema. Það á enginn að eiga rétt á því að verslun lími fleiri verðmiða á vörurnar en kaupmaðurinn vill. Viðskiptavinur sem telur sig ekki fá nægar upplýsingar um verðið, hann á alltaf þess kost að fara bara leiðar sinnar, og ætti að taka þann kost fremur en að hringja inn á Samkeppnisstofnun og fá hana til að sekta kaupmanninn. Maður sem ekki vill aka í öryggisbelti eða hjóla með hjálm, hann ætti að mega það. Þó að ríkið hafi ákveðið að sinna þeim sem slasast í umferðinni þá ætti það ekki að veita ríkinu neinn rétt til að sekta þá sem ekki eru í belti. Nema náttúrlega að menn vilji að sú staðreynd að ríkið býðst til þess að reyna að lækna menn af lungnabólgu leiði til þess að það megi skipa fólki að ganga með húfu og trefil og taka lýsi á morgnana.
Það er alltaf verið að auka réttindi manna á hendur náunganum og langt umfram grundvallaratriði eins og rétt til þess að vera ekki sviptur lífi, heilsu eða eigum. Þessari þróun verður að snúa við. Fyrsta skrefið í því er væntanlega að berjast gegn nýjum bönnum eða aukningu „réttinda“. Hættur á nýjum bönnum eru ótalmargar, og þá einkum smávægilegum bönnum sem safnast saman og virðist ómögulegt að losna við. Margir hafa ánægju af íslenskum búningi og vilja að honum sé sýndur sómi. Slíkt fólk myndi sennilega fagna því ef konur sæjust opinberlega á upphlut en ókyrrast töluvert ef það yrði rangt gert, jafnvel með vilja. Skotthúfunni kannski sleppt eða búningurinn bara notaður á einhvern annan hátt, aðeins að hluta. Eða kannski hafður við gallabuxur. Það ætti hins vegar ekki að banna fólki að klæða sig þannig, ekki fremur en það ætti að banna því að fara rangt með málshætti og orðskviði. En það er ekkert við það að athuga að menn segi öðrum til, svo lengi sem engum er skylt að fara að leiðbeiningunum. Það er gott ef menn sýna öðrum mönnum eða menningu þeirra virðingu. Það er sjálfsagt að gera athugasemdir við þá sem gera það ekki. En hið opinbera ætti að fara varlega í að sekta þá sem tala „vitlaust“, klæða sig „vitlaust“ eða telja að einhverjir séu latir.