S amkvæmt frásögn The Wall Street Journal hafa ráðgjafar þýska fjármálaráðuneytisins lagt til að skattkerfinu verði bylt með því að taka upp flatan 30% skatt á tekjur bæði einstaklinga og fyrirtækja. WSJ segir að þetta sé hátt á alþjóðlegan mælikvarða, í Rússlandi sé skattur á einstaklinga til dæmis 13%, en í Þýskalandi sé hagnaður fyrirtækja nú skattlagður um 37% og skattur á tekjur einstaklinga liggi á bilinu 16% til 45%. WSJ segir að flati skatturinn sé þegar við lýði í Rússlandi, Eistlandi, Slóvakíu og núna jafnvel í Írak og með tillögu þýsku ráðgjafanna hafi hugmyndinni að minnsta kosti verið hreyft í stærsta hagkerfi Evrópu.
WSJ er fylgjandi einföldun skattkerfisins og lækkun skatta, en er þó ekki allt of bjartsýnt á að núverandi stjórnvöld í Þýskalandi muni fara að ráðum ráðgjafa sinna. Aðstoðarfjármálaráðherrann í ríkisstjórninni, sem er samsett úr sósíal-demókrötum og græningjum, hafi sagt að flati skatturinn bryti gegn grundvallarsjónarmiðum um „félagslegt réttlæti“ og kynni að leiða til lægri skatttekna – rétt eins og lægri skatttekjur séu rök á móti en ekki með hugmyndinni. Há skatthlutföll draga úr hvata einstaklinga og fyrirtækja til að framleiða verðmæti, segir WSJ og er afar ósammála aðstoðarráðherranum í þessu efni. Uppstokkun skattkerfisins myndi að áliti blaðsins bæði örva efnahagslífið og draga úr fjármagnsflótta til Austur-Evrópu þar sem skattar séu lægri. Undanskot frá skatti yrðu einnig minni með flötum skatti, sem væri lægri en skatturinn er nú.
Ef gert er ráð fyrir að efnahagslífið taki engum breytingum þegar skattkerfinu er breytt – sem er vitaskuld afar óeðlileg forsenda – má reikna út að þýski ríkiskassinn myndi tapa á breytingunni sem ráðgjafarnir leggja til. Þeir telja hins vegar að með breiðari skattstofni og niðurfellingu undanþágna megi auðveldlega afla þeirra tekna sem ríkið annars yrði af. Niðurfelling undanþágna telja þeir að kæmi hinum efnaminni vel, því að hinir efnaðri séu þeir einu sem hafi efni á að kaupa þá sérfræðiþjónustu sem þurfi til að nýta sér allar skattasmugurnar. Þeir sem tapa á lægri sköttum og einfaldara skattkerfi eru hins vegar sérfræðingar sem hafa atvinnu af að leiðbeina skattgreiðendum um skattalagafrumskóginn, og útgefendur bóka með leiðbeiningum um hvernig hagkvæmast sé að fylla út skattframtalið. Á slíkum bókum er enginn skortur í Þýskalandi eða öðrum löndum með flóknu skattkerfi og háum sköttum. Í löndum sem búa við einfalt skattkerfi og lága skatta getur almenningur varið tíma sínum í þarfari hluti en að lesa bækur um skattasmugur og sérfræðingar geta sérhæft sig í einhverju sem gagn er að.