Miðvikudagur 11. ágúst 2004

224. tbl. 8. árg.

Strætó bs hefur lagt fram tillögur til samgöngunefndar Reykjavíkurborgar um nýtt leiðakerfi fyrirtækisins. Í frétt Morgunblaðsins í dag kemur fram að fyrirtækið hafi einnig lagt fram tillögur þess efnis að strætisvagnar hafi forgang í umferðinni í Reykjavík og mun nefndin hafa tekið jákvætt í þær og talið þær í anda umhverfisstefnu borgarinnar. Strætó vill fá tvær akreinar (eina í hvora átt á Hringbraut), tvær á Miklubraut þar sem gatan er þrjár akreinar í hvora átt, nýja sérakrein í Lækjagötu og forgang á einum fjölförnustu gatnamótum borgarinnar á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Ekki kemur fram í frétt Morgunblaðsins hver rökstuðningur Strætó bs er fyrir þessum tillögum sínum, ef þá nokkur.

Má Vefþjóðviljinn benda fyrirtækinu á að það gæti hljómað vel í eyrum borgarfulltrúa að það þurfi auðvitað tómar akbrautir fyrir tóma strætisvagnana.

Myndin hér til hliðar er tekin kl. 12:00 í dag af Búrfelli og á henni sést yfir í Heiðmörkina. Þótt það sjáist ekki vel á þessari mynd getur Vefþjóðviljinn fullyrt að á þessari mynd er ekki sála. Í dag var þó slegið hitamet í Reykjavík, margir eru í sumarleyfum eða hafa einfaldlega skrópað í vinnunni til að vera úti. Hvenær má eiga von á að útivistarsvæði á höfuðborgarsvæðinu séu nýtt ef ekki í dag? Þeir sem fara reglulega um Heiðmörkina og fleiri slík svæði vita að þau eru lítið nýtt, kannski ekki jafn lítið og strætisvagnarnir, en miðað við allt talið í sveitarstjórnarmönnum um að fjölga þurfi útivistarsvæðum mætti halda að þau væru flest stappfull. Því fer hins vegar fjarri. Þeir sem vilja þétta byggð á höfuðborgarsvæðinu þurfa því ekki að vera hræddir við að svonefnd „græn svæði“ séu tekin undir byggð. En þannig vill þó til að þeir sem helst vilja þétta byggð eru líklegastir til að stofna „grasrótarhóp“ til að mótmæla því að grænu svæðin svonefndu, ýmis óræktartún og ónýtt svæði ,séu tekin undir byggð.