F réttamenn eru sumir alltaf að reyna að gera sig hlægilega. Þannig hafa sumir reynt að gera sem mest úr fundi norrænna krata í fyrradag, og virðist sumum fréttamönnum þykja slíkur fundur ekki ómerkilegri en fundur forsætisráðherra Norðurlanda sem fram fór nú um helgina. Á öðrum fundinum var einn forsætisráðherra og nokkrir stjórnarandstöðuþingmenn og hápunkturinn var blaðamannafundur Össurar Skarphéðinssonar sem taldi skoðanir hinna stjórnarandstöðuþingmannanna stórtíðindi. Hinn fundurinn var formlegur fundur nokkurra þjóðarleiðtoga, manna sem hafa í senn völd og áhrif, þó þau séu eflaust mismikil eftir löndum og oft líklega minni en margir halda. En niðurstöður þeirra og ákvarðanir geta þó haft raunveruleg áhrif, ólíkt gasprinu í össurunum.
Í gær greindi Morgunblaðið frá því að John Kerry, forsetaframbjóðandi bandarískra demókrata, hefði aðspurður lýst sérstakri andstöðu við það að rýmkaðar yrðu þær reglur sem í Bandaríkjunum gilda um eignarhald á fjölmiðlum. Mun John Kerry hafa sagt að slík tilslökun myndi stangast á við lýðræðisleg markmið og meðal annars tekið fram að eignarhald sama aðila á ljósvakamiðli og dagblaði væri „valdasamþjöppun“ sem væri „alvarlegt mál“. Eins og kunnugt er, þá er í Bandaríkjunum bannað að sama fyrirtæki eigi bæði dagblað og sjónvarpsstöð á sama svæði, og John Kerry er andvígur því að því banni verði haggað. Það þarf vitanlega ekki að koma á óvart enda eru hefðbundnir stuðningsmenn bandarískra demókrata í öðrum löndum einnig þeirrar skoðunar að strangar reglur verði að gilda um eignarhald á fjölmiðlum, rétt eins og svokallaðir jafnaðarmenn hafa löngum talað mjög fyrir öðrum samkeppnisreglum.
Á Íslandi varð hins vegar mjög merkileg undantekning frá þessari reglu á dögunum, þegar íslenskir vinstri menn, þeir sömu og fram að því höfðu jafnan sagst vera miklir áhugamenn um samkeppnisreglur, risu sem einn maður gegn því að sett yrðu lög um eignarhald á fjölmiðlum. Einhverra hluta vegna höfðu fjölmiðlamenn engan áhuga á því að vita hvað hefði ráðið þeirri skyndilegu kúvendingu, sem þó var í áberandi ósamræmi við málflutning sömu flokka og forystumanna síðustu árin. Fjölmiðlamenn – sem stundum segjast gegna því hlutverki að veita stjórnmálamönnum aðhald – útvörpuðu afstöðu íslensku vinstri mannanna í sífellu, en gættu þess að segja ekki orð um það hvernig hún hafði breyst á örskömmum tíma. Það væri vissulega afar ánægjulegt ef íslenskir vinstri menn hefðu skipt um skoðun á samkeppnismálum og þess vegna væri forvitnilegt að heyra þá færa efnisleg rök fyrir afstöðu sinni til fjölmiðlalaga nú og hvort aðrar skoðanir þeirra hefðu gjörbreyst með jafn ánægjulegum hætti. En sennilega munu íslenskir fjölmiðlamenn aldrei minnast á það.
T oyota-bílar eru kannski ekki eins góðir og Vefþjóðviljinn hafði haldið. Eða hvernig á að skilja fyrirsögn heilsíðuauglýsingar Toyota-umboðsins í Morgunblaðinu í gær? „Það græða allir á samanburði við Toyota“. – Jæja, þessi athugasemd er kannski ekki málefnaleg, en eins og segir í kvikmyndinni „Forget Paris“ og sumir hafa hugsanlega séð, „You asked for it. You got it. Toyota.“