Mánudagur 2. ágúst 2004

215. tbl. 8. árg.
Það er vont að fá fréttir í Varsjá,
að vísu sést Moskva í fjarsjá,
en þar hafa ekki enn
fundist heilvita menn
sem hægt væri að leita sér svars hjá.
 – Jóhann S. Hannesson.

Íágústbyrjun 1944 hófu pólskir andspyrnumenn uppreisn gegn þýska hernámsliðinu í Varsjá. Var það meðal annars gert vegna ítrekaðrar hvatningar til þeirra frá Moskvu-útvarpinu, en sovéskir herir voru þá skammt undan á sókn sinni um Pólland. Pólskir andspyrnumenn voru öflugir, en heimaherinn þeirra svokallaði réði yfir nær 400 þúsundum manna. Urðu úr blóðug átök því Þjóðverjar brugðust hinir alverstu við og börðust við uppreisnarmenn af fyllstu hörku. En þegar átökin voru hafin, og pólskir andspyrnumenn teknir að falla þúsundum saman, þá heyrðist ekkert lengur í Moskvu-útvarpinu. Sovéskir herir námu staðar og hreyfðu hvorki legg né lið til hjálpar Pólverjum. Sovétmenn neituðu Bandaríkjamönnum meira að segja um leyfi til að taka eldsneyti á sovéskum flugvöllum, þegar þeir ætluðu að senda uppreisnarmönnum vopn og lyf. Þjóðverjum, sem á þessum tíma voru á undanhaldi um alla Evrópu, tókst þess vegna að berja uppreisnina niður og halda Varsjá í greipum sínum áfram. Tvöhundruðþúsund Pólverjar féllu í þessum átökum og um tuttuguþúsund Þjóðverjar. Og þegar Sovétmenn náðu Póllandi undir vald sitt, þá var allur kraftur úr pólsku andspyrnuhreyfingunni.

Í gær sögðu bæði Ríkisútvarpið og Bylgjan frá uppreisninni í Varsjá, í tilefni 60 ára afmælisins. Hvorug útvarpsstöðin sagði aukatekið orð um Sovétríkin og framgöngu þeirra.

Ólafur Ragnar Grímsson lét af embætti forseta Íslands í fyrradag en tók að vísu við því aftur síðdegis í gær. Í ræðu sem hann hélt við það tækifæri upplýsti hann sérstaklega að nú hefði „þjóðin“ kosið sig til forseta þriðja sinni. Í viðtali við Ríkissjónvarpið að ræðu lokinni tók hann hins vegar sérstaklega fram að Ásgeir Ásgeirsson hefði verið fyrsti þjóðkjörni forsetinn, því Sveinn Björnsson hefði aldrei verið kosinn í almennum kosningum. Gott og vel, Sveinn var fyrst kosinn af Alþingi til eins árs en upp frá því sjálfkjörinn án atkvæðagreiðslu, eins og sitjandi forsetar hafa löngum verið. En ef Sveinn var þá ekki þjóðkjörinn, samkvæmt skilningi Ólafs Ragnars, hvernig getur þjóðin þá hafa kosið Ólaf Ragnar þrívegis, en árið 2000 var Ólafur kjörinn án atkvæðagreiðslu, rétt eins og Sveinn Björnsson á sínum tíma? Ef að Sveinn var ekki þjóðkjörinn, eins og Ólafur Ragnar Grímsson hélt fram í gær, þá var Ólafur Ragnar Grímsson ekki þjóðkjörinn árið 2000, þvert á það sem Ólafur Ragnar Grímsson hélt fram í gær.

Og þarf þá varla að minna á að þjóðin hefur aldrei kosið Ólaf Ragnar Grímsson til eins eða neins. Meira að segja í sumar, eftir átta ára forsetaferil og engan raunverulegan mótframbjóðanda, þá naut Ólafur Ragnar Grímsson aðeins stuðnings 42,45 % kosningabærra manna.