Þriðjudagur 3. ágúst 2004

216. tbl. 8. árg.

Ávef Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum, var bent á það í síðustu viku að Evrópusambandið sé fremur tollabandalag en fríverslunarsvæði. Fríverslunarsvæði setji ekki hömlur á fríverslun aðildarríkja við ríki utan svæðisins en það geri tollabandalag eins og ESB hins vegar. Munurinn á þessu tvennu kom einmitt vel í ljós þegar fríverslunarsamningar EFTA ríkjanna við ýmis Austur-Evrópuríki féllu úr gildi við inngöngu þeirra ESB.

Eftir að stækkun Evrópusambandsins gekk formlega í gildi þann 1. maí sl., og raunar vel fyrir þann tíma, hafa sumir haft á orði að þar með væri sambandið orðið að stærsta fríverslunarsvæði heimsins. Það mun hins vegar ekki eiga við rök að styðjast þar sem Evrópusambandið er ekki fríverslunarsvæði sem slíkt heldur tollabandalag, en á þessu tvennu er ákveðinn grundvallarmunur.

Fríverslunarsvæði felur í sér að annað hvort eru tollar á milli þeirra ríkja, sem aðild eiga að svæðinu, afnumdir eða að ríkin komast að samkomulagi um að sömu tollar gildi á öllu svæðinu. Hins vegar er ríkjunum frjálst að gera sína eigin samninga um tolla við aðila utan svæðisins. Dæmi um slíkt fyrirbæri er Fríverslunarbandalag Evrópu (EFTA). Tollabandalag á það sameiginlegt með fríverslunarsvæði að tollar innan þess eru afnumdir eða að samkomulag er um þá. En ólíkt fríverslunarsvæði hafa aðildarríki tollabandalaga ekki frelsi til að gera sjálfstæða samninga um tollamál við ríki utan þeirra. Aðeins er um að ræða eina sameiginlega stefnu í þeim efnum.

Og um þessa skoðun og skilgreiningar virðist samkomulag milli Heimssýnar og Evrópusamtakanna. Í greininni á vef Heimssýnar er einmitt vitnað til skrifa um þetta á vef Evrópusamtakanna.

Út af fyrir sig er sennilega ekki mikið deilt um þetta atriði. Þetta er t.a.m. viðurkennt á heimasíðu Evrópusamtakanna þar sem m.a. segir: „Evrópusambandið myndar einn sameiginlegan markað með vörur, fjármagn og þjónustu og er jafnframt tollabandalag. Þetta merkir að það eru engar hömlur á viðskiptum innan sambandsins og ESB hefur sameiginlega tolla gagnvart ríkjum utan þess.“ Sem sagt dæmigert tollabandalag.

En þrátt fyrir það heyrist því stundum fleygt af sumum stuðningsmönnum Evrópusambandsins hér á landi að sambandið sé fríverslunarsvæði. Hvað því veldur er ekki gott að segja, en ekki er ósennilegt að þessir aðilar telja einfaldlega að fríverslunarsvæði hljómi betur í eyrum almennings en tollabandalag og því vænlegra hugtak til markaðssetningar.