Skattstjórar segja langa hefð fyrir því að taka saman lista yfir þá sem þeir áætla að greiði hæstu skattana í sínum umdæmum. Þessa lista senda þeir svo hiklaust á helstu fjölmiðla og í síðustu viku mátti jafnvel heyra útvarpsfréttamann segja frá því með öndina í hálsinum að listinn frá einum skattstjóranna hefði ekki enn borist en hlyti bara að fara að koma. Aðspurðir hafa skattstjórar þó viðurkennt að engin skýr lagaheimild sé fyrir slíkum listum og var það rifjað upp í frétt Morgunblaðsins í gær og jafnframt sú skoðun þeirra að ekkert banni það sérstaklega.
Það er ekki beint traustvekjandi þegar embættismenn hafa þetta viðhorf til trúnaðarstarfa sinna, – að það þurfi að banna þeim sérstaklega að upplýsa óviðkomandi um þau einkamálefni manna sem undir þá heyra. Það hefur þá ekki verið vanþörf á ákvæðinu í 117. gr. skattalaganna þar sem segir: „Skattstjórum, umboðsmönnum skattstjóra, ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra ríkisins og yfirskattanefnd er bannað, að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi, að skýra óviðkomandi mönnum frá því er þeir komast að í sýslan sinni um tekjur og efnahag skattaðila.“
„Ætli skattstjórar telji sig líka í fullum rétti til að gefa út lista yfir þá sem þeir áætla að greiði lægstu skattana eða þá tíu menn sem teljast næst því að vera meðalskattgreiðendur? Nei, trúlega ekki og líklega eru „hákarlalistarnir“ sendir fjölmiðlum í þeirri von að þeir sem á listunum eru veigri sér við að finna að þessari framkvæmd stöðu sinna vegna.“ |
Um leið og lög kveða á um þagmælsku og trúnað hinna ýmsu embættismanna um málefni sem almennt eru talin til einkamála, svo sem fjárhagur manna er, er einnig kveðið á um skyldu skattstjóra til að leggja fram álagningarskrár og skattskrár. Þessa dagana liggja einmitt frammi álagningaskrár með upplýsingum um tekjur manna, – misréttum upplýsingum þó og í einhverjum tilfellum arfavitlausum. Áhugi hnýsinna er mikill og upplýsingar úr álagningaskrám munu næstu daga fylla tugi blaðsíðna dagblaðanna og fá heiðurssess í fréttatímum ljósvakamiðla. Leiðrétt álagningaskrá, svokölluð skattskrá, mun svo liggja frammi eftir áramót en mun vekja áhuga fárra enda upplýsingar í henni nær sanni en álagningaskrá boðar.
Nú er það auðvitað eitt að birta lista yfir skattgreiðslur manna á því formi sem skattstjórum ber að gera með framlagningu álagningaskrár og annað að vinna sérstaklega úr þeim lista og dreifa til fjölmiðla. Svo sýnist sem skattstjórar telji þessa framlagningu álagningaskrár ekki banna þeim að útbúa hina svokölluðu „hákarlalista“ sem telur þá sem hæstu skattana greiða. Afar skýr og afdráttarlaus ofangreind 117. gr. skattalaga virðist ekki veita skattstjórum neina vísbendingu um hvernig fara eigi með þær upplýsingar sem embætti þeirra búa yfir og í vissum tilvikum er gert að leggja fram með tilteknum hætti. Það hlýtur að teljast einkennileg stjórnsýsla af hálfu skattstjóra að með hliðsjón af 117. greininni skuli þeir túlka ákvæði um framlagningu álagningaskrár þannig að þeim sé heimilt að gefa fréttatilkynningar um að Guðmundur borgi hærri skatta en Jón en þó lægri skatt en Jónmundur. Ætli skattstjórar telji sig líka í fullum rétti til að gefa út lista yfir þá sem þeir áætla að greiði lægstu skattana eða þá tíu menn sem teljast næst því að vera meðalskattgreiðendur? Nei, trúlega ekki og líklega eru „hákarlalistarnir“ sendir fjölmiðlum í þeirri von að þeir sem á listunum eru veigri sér við að finna að þessari framkvæmd stöðu sinna vegna.
Það eru svo ekki bara skattstjórar sem leyfa sér að fara frjálslega með upplýsingar úr álagningaskrá þessa dagana. Fjölmiðlar munu fjalla sérstaklega um ýmsa þjóðþekkta einstaklinga eða í þekktum atvinnugreinum. Ekki verður látið nægja að segja frá hugsanlegum skattgreiðslum þeirra heldur verður sú fjárhæð notuð til að reikna út tekjur þeirra – og þá verður auðvitað ekki greint á milli launa og annarra tekna. Svo mun tímarit sem alla jafna gefur sig út fyrir að vera viðskiptatímarit, helga eitt tölublað sitt fabúleringum af þessu tagi og einkamál hátt í þriðja þúsund einstaklinga gerð að eina umfjöllunarefni blaðsins. Svo kalla menn DV og Séð og heyrt aðalsorprit landsins.
Það er ljóst að meðferð skattupplýsinga er löngu komin út fyrir allt sem eðlilegt getur talist með tilliti til rannsóknarhagsmuna skattyfirvalda og árangursríkrar skattinnheimtu. Þá er birting álagningaskrár ekki lengur á þeirri forsendu sem var í upphafi, þ.e. til að gera einstaklingum kleift að kæra álagningu þriðja manns. Árið 1962 var sú kæruheimild felld niður og ástæðan fyrir því einna helst sú að kæruheimildin var lítt notuð. Eins og Vefþjóðviljinn gat um fyrir ári er ekkert sem bendir til þess að opinberun álagningaskrár hafi leitt til meiriháttar uppgötvana í skattrannsóknum.
Með hliðsjón af ótrúlega þröngri lögskýringu skattyfirvalda á ákvæðum um einkamálefni manna blasir við að ákvæði núgildandi skattalaga um opinbera birtingu álagninga- og skattskrár þurfa endurskoðunar við. Það var því ánægjulegt að þingmenn tóku við sér í þessum efnum seint í vor og lögðu fram frumvarp þess efnis að fella niður skyldu skattstjóra til að leggja fram álagningaskrár og skattskrár. Frumvarpið komst þó ekki á dagskrá en mikilvægt er að það verði lagt fram strax í haust og verði afgreitt í vetur. Miðað við málflutning skattstjóra undanfarin ár er þó ekki víst að sú skýra lagabreyting sem lögð er til með frumvarpinu myndi nægja til að birtingu álagningaskrár verði hætt. Allt eins mætti ætla að skattstjórar myndu halda uppteknum hætti með vísan til langrar hefðar og að það væri ekkert sem beinlínis banni framlagningu álagningaskrárinnar. Það er því spurning hvort ekki þurfi að bæta við frumvarpið – Opinber birting álagningaskrár og skattskrár er bönnuð – svona fyrir þá embættismenn sem þurfa að láta banna sérstaklega að níðast á launagreiðendum sínum.