Vaxandi skattheimta gerir atvinnusókn, dugnað og framtakssemi minna eftirsóknarverða, vöru og þjónustu kostnaðarsamari. Umsvifin aukast hjá þeim útvöldu sem hafa rétt til að heimta fé af landsmönnum. Vaxandi baggi af kröfum og eftirliti setur höft á alla athafnasemi og hamlar þróun fyrirtækja og stuðlar að fáokun. Bönn og takmarkanir á atvinnustarfsemi og atvinnuuppbyggingu valda hnignun byggðar á landinu. Heilu atvinnugreinarnar eru fastar í stöðnun miðstýringar. Aðalástæðan fyrir þessu falli frelsisins er að frelsi sjálfs þjóðríkisins Íslands, til þess að taka ákvarðanir í eigin málum, er að verða svipur hjá sjón; er að hverfa aftur til útlanda. Meiriháttar ákvarðanir eru nú ekki einvörðungu teknar af Íslendingum sjálfum, heldur samkvæmt lögum frá útlöndum eða eftir að erlendar valdastofnanir hafa veitt stjórnvöldum Íslands leyfi. Svokallaðir alþjóðasamningar, oft byggðir á ósönnuðum kenningum, eru einnig teknir að flytja vald yfir íslenskum málefnum úr landi.
– Friðrik Daníelsson, „Ísland er land þitt“, bls. 7-8.
Meðal þeirra sem af til tjá sig um þjóðmál á opinberum vettvangi, er Friðrik Daníelsson efnaverkfræðingur en hann skrifar af og til greinar í dagblöð og gaf auk þess fyrir tæpum fjórum árum út athyglisverða bók, „2000 árum eftir Vínlandsfund – Lifa Íslendingar annað árþúsund?“ sem Vefþjóðviljinn minntist á örfáum orðum á sínum tíma. Nýlega sendi Friðrik frá sér nýja bók, „Ísland er land þitt“, en hún geymir blaðagreinar sem hann hefur skrifað um ýmis mál á síðustu árum. Greinar Friðriks eru fallnar til þess að vekja lesendur til umhugsunar um eitt og annað, og má nefna að hann er einarður andstæðingur samningsins um hið evrópska efnahagssvæði og almennur andstæðingur hafta og ofstjórnar. Friðrik er sjálfstæðissinni í þeirri merkingu að honum er afar annt um sjálfstæði Íslands og vill að Íslendingar stjórni eigin málum en lúti ekki fyrirmælum erlendra ríkja eða stofnana.
En oft er flagð undir fögru skinni. Evrópusambandið er orðið nátttröll óþarfa hafta, reglugerða, laga og skatta og meðfylgjandi stöðnunar í efnahagsþróun; gamalkunn evrópsk saga. Og þó að reynt sé að halda því leyndu er vofa Evrópuvaldsins aftur komin til Íslands. Það gerðist í janúar 1993 að 33 þingmenn samþykktu fullveldisafsal til Evrópuvaldsins með EES samningnum. Samstaða EFTA-ríkjanna rofnaði þegar Norðmenn, Íslendingar og Lichtenstein álpuðust í EES-netið, en Svisslendingar, sem gerst þekkja evrópuvaldið, höfnuðu EES. Hérlendis eru ennþá þaggaðar niður umræður um meint stjórnarskrárbrot EES-samningsins. En ólögin sem EES hefur borið með sér hingað eru að hægja á þróun byggðar á Íslandi. Íslenska bókaþjóðin, sú mesta í heimi, stjórnar ekki lengur skattlagningu á bækur. Reglur um útboð bregða fæti fyrir íslensk fyrirtæki. Ónothæf lög um mat á umhverfisáhrifum eru að sigla þjóðþrifaframkvæmdum í strand. Reglur og kvaðir um vinnumarkað eru að gera litlum og nýjum fyrirtækjum ómögulegt að hafa fólk í vinnu. Skömmtunarkerfi, ný höft og opinbert eftirlit á atvinnustarfsemi eru að stöðva nýliðun og þróun í atvinnuvegum. Með EES eru Íslendingar aftur orðnir fórnarlömb evrópskra stjórnarhátta eins og á myrkasta tímabili Íslandssögunnar, eftir sjálfstæðismissirinn árið 1262.
Eins og áður segir geymir bókin blaðagreinar Friðriks Daníelssonar. Greinarnar eru flestar í styttri kantinum, snaggaralega skrifaðar og virðast hugsaðar til þess að kynna einarða skoðun höfundarins og vekja lesandann til umhugsunar um eitt og annað sem margir telja fyrirfram sjálfsagt. Það ætti að vera óhætt að vekja athygli þeirra, sem reiðubúnir eru að vakna til slíkrar umhugsunar, á bók Friðriks Daníelssonar. Sem og þá kannski einnig lokaorðum hennar, þar sem meðal annars segir
Nú þurfa Íslendingar að spyrja Evrópuvaldið leyfis. Það þurfti leyfi til þess að semja um álverið á Reyðarfirði. Skattlagningarvaldið rýrnar, bókaþjóðin má ekki ákveða skattlagningu á bækur. Evrópska eftirlitsstofnunin þvælist fyrir ákvörðunum svo árum skiptir, sendir Íslendingum hótanir um bönn og útilokanir ef landið gegni ekki tilskipunum og flýti ekki upptöku valdsboða ESB. Tilskipanirnar hrannast upp. Lög um orkugeirann, ættuð frá ESB, sem Alþingi er nauðbeygt til að setja hér, munu spilla orkukerfinu og gætu orðið afdrifarík fyrir atvinnuuppbygginguna. Lög um umhverfisvernd valda aukakostnaði og töfum og setja hömlur á atvinnustarfsemi og auðlindanýtingu. Sveigjanleiki vinnumarkaðarins er að minnka, vinnutímaskipanirnar valda vandræðum, kostnaði og slysahættu.
Og bókinni lýkur Friðrik á þessum orðum
Svo djúpt er tilskipanakviksyndi EES-samningsins orðið að enginn virðist lengur vita hvað má, hinir þjóðkjörnu fulltrúar eru að missa völdin og þurfa bældir að spyrja embættismenn með ESB-lagareglur í höndunum hvað þeim leyfist. Enginn veit á hverju er næst von frá ESB. Eftirlátssemin við ESB-valdið er komin á það stig að komnar eru fram tillögur um að athuga hvort framkvæmd EES-samningsins samræmist stjórnarskránni með það fyrir augum að breyta henni. Það sem þyrfti að athuga er framkvæmd þáverandi utanríkisráðuneytis á EES-málinu og hvort samningurinn var andstæður stjórnarskránni með það fyrir augum að breyta honum. Stórafmæli þjóðfrelsisbaráttunnar eru nú haldin í skugga erlends tilskipanavalds, vonandi tekur ekki sjö aldir að losna við það eins og síðast.