B arátta Fréttablaðsins gegn þeirri fyrirætlun ríkisstjórnarinnar að setja ný lög um fjölmiðla hófst fyrir alvöru eftir að frumvarp byggt á skýrslu fjölmiðlanefndar menntamálaráðherra var kynnt í ríkisstjórn þriðjudaginn 20. apríl síðast liðinn. Vefþjóðviljinn hefur áður tekið saman upplýsingar um umfjöllun Fréttablaðsins 50 daga af þessu tímabili, en nú þegar Alþingi hefur samþykkt að fella brott fjölmiðlalögin svokölluðu er ekki úr vegi að líta yfir umfjöllun Fréttablaðsins í heild sinni frá því að frumvarpið komst fyrst í umræðuna eftir kynningu í ríkisstjórn og þar til lögin höfðu verið felld brott fimmtudaginn 22. júlí síðast liðinn. Tímabilið sem hér verður skoðað nær þess vegna frá 21. apríl til 23. júlí og á því tímabili voru gefin út 92 tölublöð af Fréttablaðinu, sem sjálft sló því upp í fyrirsögn á blaðsíðu 4 þann 23. júlí að nú væri „Hundrað daga stríði lokið“.
Stríð Fréttablaðsins einkenndist af miklum fjölda stríðsfyrirsagna, ekki aðeins á forsíðu blaðsins heldur víða á fréttasíðum þess. Í þeirri samantekt sem hér verður grein frá er þó aðeins litið á fréttir á forsíðu blaðsins auk leiðara, enda nægir það til að sýna hvers eðlis umfjöllun blaðsins var á meðan það taldi sig eiga í þessu mikla stríði. Hér verður ekki farið nákvæmlega út í það hvaða skilgreiningu var beitt við að leggja mat á umfjöllunina, en hún er sú sama og þegar fjallað var um dagana 50 og vísast til þeirrar umfjöllunar um aðferðafræðina.
Umfjöllun Fréttablaðsins um fjölmiðlafrumvarpið í tölum: |
Fjölmiðlafrumvarpið á forsíðu | Fjölmiðlafrumvarpið aðalfyrirsögn á forsíðu | Fjölmiðlafrumvarpið minni frétt á forsíðu | Fjölmiðlafrumvarpið í leiðurum | Fjölmiðlafrumvarpið í leiðurum Gunnars Smára Egilssonar |
78% | 49% | 29% | a.m.k. 70% | a.m.k. 77% |
Prósentutölur gefa til kynna hlutfall af þeim 92 dögum sem fjölmiðlafrumvarpið var til umfjöllunar í ríkisstjórn og á Alþingi, nema prósentutalan lengst til hægri, þar er átt við hlutfallið af þeim leiðurum sem Gunnar Smári ritaði á tímabilinu. |
Fyrirsagnir aðalfrétta á forsíðu og leiðara þessa 92 daga má sjá á undirsíðu, en hér verður látið nægja að geta niðurstaðna samantektarinnar. Af 92 aðalfréttum á forsíðu voru 45, eða rétt tæpur helmingur, um þetta eina mál, fjölmiðlamálið. Þær fréttir sem helst ruddu fjölmiðlamálinu úr heiðurssæti á forsíðunni voru af forsetakosningum, skoðanakönnunum um fylgi flokkanna og ríkisstjórnarinnar, voveiflegu mannsláti og stærsta fjársvikamáli Íslandssögunnar svo nokkrar séu nefndar. Sumar þeirra þjónuðu augljóslega þeim tilgangi að veikja ríkisstjórnina eða þá flokka sem að henni standa og voru þar með liður í baráttu Fréttablaðsins, en þær eru þó ekki taldar með í fyrrnefndri tölu.
Til viðbótar þeim 45 dögum af 92 sem fjölmiðlamálið var aðalfrétt blaðsins, var það í 27 skipti á forsíðu sem minni frétt, stundum ein lítil frétt sem vísaði á frekari umfjöllun inni í blaðinu, stundum líka stærri frétt en þó ekki efst á síðunni og fyrir kom að allt að fjórar litlar forsíðufréttir fjölluðu um þetta eina mál. Samanlagt í stórum og litlum fréttum var fjölmiðlamálið til umfjöllunar á 72 af 92 forsíðum Fréttablaðsins á umræddu tímabili, eða á ríflega 78% forsíðna þess. Nú kann að vera að einhverjir af starfsmönnum eða eigendum Fréttablaðsins geti fengið sig til að halda því fram að þetta lýsi eðlilegu fréttamati en ekki annarlegu. Þeir sem eru í aðstöðu til að horfa á málið án beinna hagsmunatengsla við blaðið munu þó viðurkenna að fréttamat sem felur í sér að eitt mál af því tagi sem hér um ræðir fái slíka umfjöllun er ekki eðlilegt fréttamat heldur eitthvað allt annað. Tilgangurinn var augljóslega ekki að segja fréttir af málum líðandi stundar heldur að hafa áhrif á gang mála. Fréttablaðið er þess vegna ekki fréttablað heldur áróðursrit sem berst fyrir ákveðnum málstað. Vefþjóðviljinn hefur ekkert við það að athuga að blöð séu gefin út til að berjast fyrir ákveðnum málstað, en telur vægast sagt óeðlilegt að þau sigli undir fölsku flaggi.
Leiðarar blaða eru sá vettvangur sem þau nota yfirleitt til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og Fréttablaðið notar þá einnig í því skyni, en lætur ekki fréttirnar nægja einar sér. Leiðarar blaðsins á tímabilinu bera þess þó merki að þeir sem ráða ferðinni eru óvenjulega uppteknir af þessu eina máli, fjölmiðlamálinu, og þar er vafalítið að nokkru leyti að finna skýringu þess að fréttamat blaðsins er jafn litað og raun ber vitni. Stundum er erfitt að leggja mat á það nákvæmlega hvenær á að telja leiðara fjalla um þetta mál og þau sem því tengjast með beinum hætti, en varlega áætlað má engu að síður fullyrða að í það minnsta 65 leiðarar af 92, eða yfir 70% allra leiðara blaðsins, hafi fjallað um þetta eina mál og þau sem því tengjast beint. Ritstjórinn sjálfur, Gunnar Smári Egilsson, sem jafnframt er einn eigenda Norðurljósa, ritaði 66 leiðara í blað sitt þessa 92 daga. Þar af fjallaði í það minnsta 51 leiðari um þetta mál. Ritstjórinn var með öðrum orðum svo upptekinn af málinu að hann ritaði um það leiðara rúmlega annan hvern dag.
Sú ótrúlega umfjöllun í Fréttablaðinu sem hér hefur verið lýst með tölum ætti svo sem ekki að koma þeim á óvart sem fylgst hafa með fréttaflutningi blaðsins og leiðaraskrifum þess, en ætti engu að síður að vera gagnleg þeim sem vilja fá yfirsýn yfir umfjöllunina. Niðurstaðan er sú að einungis á fimmtu hverri forsíðu Fréttablaðsins var þetta baráttumál blaðsins ekki til umfjöllunar og í besta falli þrír af hverjum tíu leiðurum blaðsins voru ekki ritaðir í þeim tilgangi að hafa áhrif á þetta mál. Fjórar forsíður af hverjum fimm fjölluðu um málið og að minnsta kosti sjö leiðarar af hverjum tíu. Með hliðsjón af þessum staðreyndum væri ekki úr vegi að Fréttablaðið breytti um nafn og viðurkenndi þannig í verki að það er ekki fréttablað í hefðbundnum skilningi þess orðs. Má Vefþjóðviljinn leggja til nafnið Fréttablað Samfylkingarinnar?