Ómar Ragnarsson, fréttamaður og fleira, var að gefa út bók þar sem hann segist rekja röksemdir þær sem skipti máli með og á móti þeim framkvæmdum sem kenndar eru við Kárahnjúka. Vefþjóðviljinn hyggst ekki fjalla um bókina sem slíka hér og nú, en hins vegar er eitt atriði við kynninguna á henni sem blaðið telur rétt að víkja að. Ómar hefur, rétt eins og þegar hann kynnti kvikmynd sem hann hefur gert um svipað efni, gefið til kynna að erfitt sé að vinna verk eins og þessi enda séu ýmist lagðir steinar í götu höfundar eða þá að fólk óttist um sig og sína ef það aðstoðar við framkvæmdina. Rétt eins og við kvikmyndagerðina hafi einhverjir ónafngreindir menn komið að máli við Ómar og jafnvel konu Ómars – svona eins og þegar Helgi Tómasson talaði við konu Jónasar – og varað við hefndaraðgerðum einhverra annarra ef haldið yrði áfram. Og rétt eins og þegar Ómar kynnti mynd sína, þá rata þessar áhyggjur hans í fréttatíma og þykja hinar merkilegustu.
Bókin er komin út og umsvifamikið forlag stendur að henni. Kvikmyndin var sýnd og þeir sáu hana sem vildu. Ómar er enn fréttamaður á Ríkissjónvarpinu og flýgur um landið þvert og endilangt í fréttaleit. Enginn hefur komið fram og sagst hafa misst vinnuna, orðið fyrir ónæði eða verið kallaður gunga eða drusla fyrir það að hjálpa Ómari við þessa útgáfu sína. En alltaf skal Ómar krydda kynningu verka sinna með því að einhverjir ónafngreindir menn hafi varað einhverja menn við hefnd þriðju manna, sem ekki hafi reyndar verið nefndir.
Menn geta haft hvaða skoðun sem þeir vilja á virkjunum og ekkert hefur Vefþjóðviljinn við það að athuga að þeir gefi þær út á bók. Og blaðið sér ekkert að því að fréttamaður á opinberri sjónvarpsstöð geri það einnig, enda gefur blaðið sér að Ómar segi í bókinni það sem hann sjálfur telur réttast í málinu. En þessi söngur um ógn og skelfingu er ákaflega þreytandi. Menn hafa hamast gegn stjórnvöldum í hverju málinu á fætur öðrum, Kárahnjúkamálinu ekki síst, og enginn hefur goldið fyrir það svo vitað sé. Ómar Ragnarsson er ekki einu sinni sá fyrsti sem efnir til bókarútgáfu í þessu skyni; lesi menn til dæmis verk Guðmundar Páls Ólafssonar, þar er nú ekki alltaf verið að spara stóru orðin innan um glæsilegar náttúrumyndir og ýmsan fróðleik um land og náttúru. Hefur nokkur maður verið ofsóttur vegna þeirra bóka? Er ekki Guðmundur Páll bara margverðlaunaður fyrir sín verk? Ríkisútvarpið heldur meira að segja úti sérstökum þætti, Speglinum, í þeim tilgangi að kynna viðhorf vinstrimanna til þess sem hæst ber hverju sinni. Þetta tal um ofsóknir og ógnanir er einfaldlega gaspur út í loftið, og þegar menn hafa þann sið að kynna verk sín með slíkum staðhæfingum, verk sem eiga að hafa heimildagildi og vera marktæk í umræðu, þá verða slíkar aðferðir höfundinum skammgóður vermir, jafnvel þó þær komi honum í viðtöl og færi honum fyrirsagnir um stund. Í staðinn fyrir að láta röksemdir sínar tala fyrir sig sjálfar, þá dregur höfundurinn úr áhrifamætti sínum og röksemdanna með þessum aðferðum sínum. Í kappsemi sinni verður hann eiginlega fyrir sama óhappi og einn farsælasti íþróttamaður Íslendinga fyrr og síðar, Jói útherji. Í þvögu fram og aftur hann einlék og svo reið af spark. Það var óverjandi skot í stöng og inn í eigið mark.