Mánudagur 26. júlí 2004

208. tbl. 8. árg.
I know this will generate howls of protest, but at present a family of four going by car is about as environmentally friendly as you can get.
 – Roger Ford ritstjóri tímaritsins Modern Railways í The Daily Telegraph 21. júní 2004.

V

Lestir eru ekki endilega umhverfisvænni en einkabíllinn ógurlegi eða jafnvel þotur. Mynd: The Daily Telegraph.

efþjóðviljinn birti fyrir nokkrum árum litla skoðun á því hvort eitthvað væri hæft í þeim fullyrðingum að svonefndar almenningssamgöngur í Reykjavík væru umhverfisvænni en einkabíllinn. Svo reyndist ekki vera. Vegna slakrar nýtingar á vögnum Strætó bs á höfuðborgarsvæðinu er útblástur frá hverjum kílómetra sem strætisvagnafarþegi fer síst minni en frá venjulegum fólksbíl í hefðbundinni notkun. Í fyrravetur gerði DV athugun á þessum með svipaðri niðurstöðu. Og það er líklega rétt að taka það fram að það var áður en DV var gert að því sem það er í dag svo að niðurstöðunum var ekki snúið á haus. Í fyrrasumar sagði einnig frá því í Seattle Weekly að fullyrðingar um strætisvagnar í Seattle mengi minna en fólksbílar séu ekki alls kostar réttar. Þetta virðist því ekki bundið við Reykjavík.

Sem kunnugt er hefur R-listinn, eins og raunar flest pólitísk framboð, það í orði kveðnu á stefnuskrá sinni að auka hlut almenningssamgangna. Listanum hefur gengið álíka vel að hrinda þessu stefnumáli sínu í framkvæmd og loforðum um að greiða niður skuldir borgarinnar og hækka ekki gjöld á borgarbúa. Almenningur notar ekki almenningssamgöngur R-listans, skuldir borgarinnar hafa margfaldast og skattar hækkað.

Til að breiða yfir minnkandi notkun almenningssamgangna og aukinn kostnað af þeim hefur R-listinn látið semja skýrslur með nýjum skýjaborgum um hvernig lokka megi Íslendinga um borð í einhver konar almenningsvagna. Fyrst kom skýrsla um neðanjarðarlestir sem áttu auðvitað að vera „þjóðhagslega hagkvæmar“. Þegar skýrslan var rædd var kostnaður vegna jarðarganga fyrir lestirnar ekki talin fyrirstaða. Nú minnist auðvitað enginn á þessa dellu lengur og borgin hefur ekki einu sinni efni á að setja lítinn bút af Hringbrautinni í stokk neðanjarðar. Svo kom skýrsla frá Orkuveitu Reykjavíkur um hraðlest milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Sú lest var talin koma út á núlli ef öllum kostnaði, 30 til 50 milljörðum króna, við að koma lestinni á sporið yrði sleppt. Þetta mun vera sama aðferð og R-listinn notaði til að reikna út arðsemi af fjárfestingu í Línu.neti. Að síðustu lögðust borgarfulltrúar í ferðalög um Evrópu í leit að einhverju sem hugsanlega mætti benda á þegar menn færu að spyrjast fyrir um helstu afrek R-listans á þessu sviði. Upp úr þeirri ferð kom vitrun um „léttlestir“ en það er ein tegund sporvagna. Auðvitað voru þessar lestir eins og hinar taldar mjög áhugaverður og góður kostur þótt kostnaður sé mikill og slíkt kerfi teina um borgina sé mjög ósveigjanlegt.

Allar þessar óraunhæfu vangaveltur R-listans um lestasamgöngur í Reykjavík eru auðvitað óbein viðurkenning á því að núverandi kerfi strætisvagna hefur gengið sér til húðar. En yrðu lestirnar umhverfisvænni en strætó? Og það sem meira er um vert, yrðu þær umhverfisvænni en fólksbíllinn?

Í The Daily Telegraph í síðasta mánuði var sagt frá samanburði verkfræðinga við Lancaster háskóla á mengun frá lestum og fólksbílum. Þeir komust meðal annars að þeirri niðurstöðu að útblástur frá hverju sæti í hraðlest milli Edinborgar og London sé heldur meiri en frá Diesel bíl (t.d Volkswagen Passat) sem fer sömu leið. Munurinn sé enn meiri bílnum í vil þegar um háhraðalest er að ræða. Jafnvel sé skárra að fara með þotu en lestinni!

Þetta á auðvitað við þar sem rafmagn í lestarnar er framleitt með bruna jarðefnaeldsneytis sem yrði líklega ekki tilfellið ef lestar færu að bruna um Reykjavík. Á móti kæmi að vísu að einhvers staðar þyrfti að virkja og það getur verið erfitt fyrir grænu kallana í R-listanum. En það breytir því ekki að orkunýtingin í lestunum er ekki endilega alltaf betri í einkabílnum ógurlega. Almenningssamgöngur eru ekki endilega umhverfisvænni en þær samgöngur sem almenningur notar í raun og veru.