S é Englendingur spurður að því hvernig honum líki Frakkland verður svarið á ýmsa lund og ræður þar mestu hver er spurður og kannski nokkru hver spyr en vinsælt svar er að Frakkland sé dásamlegt land sem hafi aðeins einn galla og hann sé sá að þar búi helst til margir Frakkar. En þetta er auðvitað bara brandari, svona brandari sem er fyndinn vegna þess að þar er alhæft um eitthvað sem er næstum því alveg ósatt.
„En það er einmitt þetta sem er eitur í beinum vinstri manna, þessi sjálfsákvörðunar-réttur einstaklinganna … Fyrir þeim eru þjóðaratkvæða-greiðslur ekkert annað en eitt af áhrifaríkustu tækjunum sem bjóðast í opnu samfélagi til að traðka á þessum rétti.“ |
Vinstrimenn hafa þetta sama viðhorf til þjóða, þjóðir eru dásamlegar en þær hafa tvo galla: annar er sá að þær eru samsettar úr einstaklingum og hinn er sá að þeir eru helst til of margir. En þetta er enginn brandari því þarna er alhæft um nokkuð sem er alveg satt. Vinstrimenn í Kína hafa sett lög til að takmarka fjölda nýrra einstaklinga, lög sem banna fólki að eignast börn. Vinsælasta dægrastytting vinstrimanna á vesturlöndum er að hafa áhyggjur af of mörgum einstaklingum. Það er of mikið af fólki, bráðum verður ekki til nægur matur handa öllu þessu fólki, bráðum klárar allt þetta fólk olíuna, bráðum verða öll störfin uppurin og svo framvegis og svo framvegis. Og vinstrimenn hafa svo sem ekki látið sitja við orðin tóm heldur unnið markvisst að því að fækka þessu fólki en það er nú önnur saga.
Þetta einkennilega viðhorf vinstrimanna til þjóða brýst fram í ýmsu. Þeir standa alltaf í einhverjum sérstökum tengslum við þjóðina, þeir skynja þjóðviljann og vita hvernig þjóðarsálinni líður á hverjum tíma. Nýjasta dæmið um þetta er svo kölluð Þjóðarhreyfing sem er þar að auki með lýðræði. Hún er þó ekki með lýðræði í sama skilningi og pylsa er með remúlaði því þjóðarhreyfinguna hefur engin kosið svo vitað sé, í það minnsta ekki þjóðin þó þetta eigi að heita hennar hreyfing.
Það kemur því ekki á óvart að ein vinsælasta klisja vinstrimanna er að fjölga þurfi þjóðaratkvæðagreiðslum. Það er einhvern veginn hreinna og beinna og gott ef ekki heilagra ef þjóðin greiðir atkvæði um eitthvað frekar en þeir sem fengið hafa umboð í þingkosningum. Og atkvæðagreiðsla, hverju nafni sem hún nefnist, er alltaf betri en engin atkvæðagreiðsla í augum vinstrimanna hún tekur öllu fram, sérstaklega frjálsu vali einstaklinganna.
Setjum nú sem svo að bjórinn væri ennþá bannaður á Íslandi og fyrir þinginu lægi frumvarp um að leyfa hann og gerum svo ráð fyrir að þingið samþykkti frumvarpið en forseti synjaði því staðfestingar. Þingið heldur frumvarpinu til streitu og efnt er til þjóðaratkvæðagreiðslu og niðurstaða hennar er að frumvarpið er fellt með 51% atkvæða eða með 90% atkvæða eða barasta 99% atkvæða. Er þessi niðurstaða á einhvern hátt betri en ef frumvarpið hefði orðið að lögum frá þinginu? Er réttlætinu á einhvern hátt betur fullnægt?
Í dag er það svo að hver og einn, sem hefur aldur til, tekur um það ákvörðun á hverjum degi, fyrir sjálfan sig og engan annan, hvort leyfa eigi bjórinn. Með öðrum orðum, einstaklingarnir ákveða sjálfir hvort þeir drekka bjór eða ekki. Sumir hafa tekið þann kostinn að banna hann alveg, aðrir leyfa hann eingöngu um helgar og enn aðrir leyfa hann á virkum dögum, sumir að teknu tilliti til sinna nánustu aðrir án tillits til nokkurs, eins og gengur. En það er einmitt þetta sem er eitur í beinum vinstri manna, þessi sjálfsákvörðunarréttur einstaklinganna. Það er honum sem þeir eru að berjast gegn fyrst og fremst. Fyrir þeim eru þjóðaratkvæðagreiðslur ekkert annað en eitt af áhrifaríkustu tækjunum sem bjóðast í opnu samfélagi til að traðka á þessum rétti.
Robert Nozick komst að þeirri niðurstöðu í Anarchy State and Utopia að útópískt samfélag væri hugsanlegt svo lengi sem það væri samsafn af útópíum þeirra sem það byggðu. Samfélag þar sem hver og einn greiddi atkvæði fyrir sig en ekki sumir eða nokkrir fyrir alla. Útópía vinstri manna rúmar hinsvegar ekkert annað en þeirra eigin útópíu rétt eins og Þjóðarhreyfingin rúmar ekki þjóðina heldur bara þann hluta hennar sem vinstrimönnum þóknast.