Laugardagur 24. júlí 2004

206. tbl. 8. árg.

V ændi er þekkt sem elsta starfsgreinin og líkurnar á að útrýma henni eru engar, segir Martin Wolf í Financial Times í fyrradag, en hann ritar reglulega pistla í það blað. Wolf tekur ágætt dæmi um það sem hann nefnir fáránleika þess hvernig vændi er meðhöndlað nú, þegar hann biður lesandann að velta því fyrir sér hvernig færi ef dýraverndunarsinnum tækist að fá kjötát bannað. „Svartur markaður myndi spretta upp. Kjötið yrði svo lélegt að það yrði heilbrigðisvandamál. Glæpamenn myndu fljótlega bæta kjöti við framboð sitt af ólöglegum vörum og með tímanum yrðu „kjötsalar“ álitnir jafn svívirðilegir og melludólgar eða fíkniefnasalar nú til dags,“ segir Wolf.

Tilefni skrifanna er skýrsla innanríkisráðuneytisins breska um vændi og vangaveltur innanríkisráðherrans um að lögleyfa vændishús og að skilgreina ákveðin svæði þannig að þar sé heimilt að stunda vændi á götum úti. Wolf bendir á heilbrigðisvandann sem fylgi vændi þegar það er rekið sem neðanjarðarstarfsemi og í nánum tengslum við ólögleg fíkniefni, eins og hann segir að raunin sé nú. Með lögleyfingu mætti draga úr heilsufarsvandanum sem vændi getur fylgt. Wolf segir að engin einföld leið sé til að draga úr þeim vandamálunum sem talin eru fylgja vændi, en að skýrslan bendi til að best sé að lyfta vændinu upp á yfirborðið með því að lögleyfa það og setja um það reglur. Auk þess verði að halda áfram að refsa harðlega fyrir misnotkun, einkum á börnum, og tryggja að þeir fullorðnu sem starfi við vændi geri það af fúsum og frjálsum vilja.

„Við getum ekki lögleitt dygð, en við getum lágmarkað skaðann sem lestir valda. Að gera það sem þykir siðleysi að glæp er að bæta gráu ofaná svart,“ segir Martin Wolf undir lok pistils síns, sem er ágæt áminning um það að lausn vandamála er ekki að finna í því að banna þau með lögum. Þar við bætist að sumir telja tiltekin „vandamál“ alls engin vandamál. Sumir eru hreinlega þeirrar skoðunar að vændi sé ekkert aðfinnsluvert og vilja þess vegna fá að stunda það í friði, ýmist sem kaupendur eða seljendur þjónustunnar. En hvernig sem menn kjósa að líta á vændi þá er ljóst að öll rök hníga að því í þessu máli sem öðrum, að ríkið hætti að hafa vit fyrir fullorðnu fólki.