Nú þegar fjölmiðlamálinu svonefnda er lokið – í bil að minnsta kosti – er spennandi að fylgjast með um hvaða mál Samfylkingin og Fréttablaðið ætla næst að sameinast um. Tvisvar á jafnmörgum árum hafa blaðið og flokkurinn gert samstillt áhlaup á ríkisstjórnina með það að markmiði að fella hana en báðar hafa þær runnið út í sandinn. Þeim mistókst að fella stjórnarmeirihlutann á Alþingi í kosningunum í fyrra og ríkisstjórnin stóð einnig af sér fárið vegna fjölmiðlalaganna síðustu mánuðina þrátt fyrir lítinn þingmeirihluta. Markmiðið er að hér taki við svonefnd „velferðarstjórn“ vinstri flokkanna, helst án Framsóknarflokks.
Hvaða mál er líklegast að geti bæði valdið spennu í ríkisstjórnarsamstarfinu og styrkt málefnastöðu Samfylkingarinnar? Það blasir auðvitað við að afstaðan til Evrópusambandsins er alveg rakið mál til þess arna. Þótt stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar mæli fyrir um að áfram skuli byggt á samningnum um evrópska efnahagssvæðið í samskiptum Íslendinga við ESB, og stefnuskrá Framsóknarflokksins sömuleiðis, er alveg ljóst að þarna kann að vera glufa milli stjórnarflokkanna sem má reyna að stækka. Um leið má efla málefnastöðu Samfylkingarinnar í þessu máli sem flokkur kastaði frá sér fyrir síðustu þingkosningar þegar skoðanakannanir bentu til þess að Íslendingar hefðu engan áhuga á aðild. Þess sjást nú þegar merki í leiðurum Gunnars Smára Egilssonar ritstjóra Fréttablaðsins. Hann hefur ákveðið að bæta ekki frekar Íslandsmet sitt í samfelldum leiðara- og forsíðufréttaskrifum um sama málið og hefur því snúið sér að öðrum málum en fjölmiðlamálinu.
Ritstjórinn hefur áður lýst þeirri skoðun sinni í leiðurum að Íslendingar komist ekki hjá því að ganga í Evrópusambandið, hvort sem þeir vilji það eður ei. Þetta hafa verið helstu rök ESB-sinna fyrir aðild Íslendinga í að minnsta kosti tvo áratugi en þrátt fyrir alla forlagatrúna hefur það aldrei verið raunhæfur kostur að Ísland gangi í sambandið. Í leiðara Fréttablaðsins í gær gerir ritstjóri blaðsins stórbrotna tilraun til að færa Ísland til á landakortinu. Í fyrsta lagi telur hann Ísland ekki lengur miðja vegu milli Evrópu og Ameríku. Í öðru lagi telur hann hafa verið uppgang í Evrópu en stöðnun í Bandaríkjunum þótt atvinnuleysi sé jafnan nær tvöfalt í Evrópu á við það sem gerist í Bandaríkjunum og hagvöxtur minni. Í þriðja lagi metur hann samskipti Íslands við Bandaríkin út frá hlutfalli fiskútflutnings til Bandaríkjanna nú og til Sovétríkjanna fyrir einhverjum áratugum þegar ríkisstýrð vöruskipti voru drjúgur þáttur í utanríkisverslun Íslendinga!
Almenn niðurstaða ritstjórans er að Íslendingar eigi enga samleið með Ameríku lengur. Það er alveg furðulegt að stilla málum þannig upp að stjórnvöld eigi að ákveða við hvaða þjóðir Íslendingar hafi samskipti í stað þess að leyfa frjálsum viðskiptum að þróast í allar áttir. Og það eru nokkur atriði sem mæla eindregið gegn þessari nýju kenningu um að Ísland reki nú eingöngu í austur. Ísland er með varnarsamning við Bandaríkin þótt framkvæmd hans haldi óhjákvæmilega áfram að breytast. Íslendingar hafa staðið með Bandaríkjunum og Bretlandi í mikilvægustu alþjóðamálum síðustu missera; brottrekstri harðstjóra frá Balkanskaga, Afganistan og Írak. Bandaríkin eru helsta viðskiptaland Íslendinga þrátt fyrir að EES-samningurinn leggi ýmsar tæknilegar hindranir á beinan innflutning frá Bandaríkjunum. Þrátt fyrir há skólagjöld (og kannski vegna þeirra líka) er ótrúlega mikill fjöldi Íslendinga við nám í Bandaríkjunum (536 lánþegar Lín voru í Bandaríkjunum veturinn 2001 til 2002 samanborið við 90 í Þýskalandi og 21 í Frakklandi, stærstu ESB ríkjunum). Af erlendri fjármunaeign hér á landi er fjárfesting frá Norður-Ameríku yfirgnæfandi og mun augljóslega halda áfram að aukast verulega á næstu árum en fá merki eru um evrópskar fjárfestingar í atvinnustarfsemi hér á landi.
Það liggur við að ekki sé rétt að halda áfram þessari upptalningu því hún gæti farið að virka sem ástæða fyrir því að Ísland gangi í ESB til að draga hér úr bandarískum áhrifum. En það er ekki hægt að skilja við þennan samanburð án þess að gleðja þá sem vilja loka okkur innan tollmúra ESB með nokkrum dæmum úr daglega lífinu. Íslendingar og Bandaríkjamenn berjast um efsta sætið í bílaeign á mann. Báðar þjóðirnar hafa óvenju miklar mætur á fjórhjóladrifnum bílum. Bandarísk listframleiðsla og afþreying er yfirgnæfandi í stærstu miðlunum hér; sjónvarpi, myndböndum, tímaritum, tölvum og kvikmyndahúsum.
Vefþjóðviljanum þætti fróðlegt að vita þegar Gunnar Smári lauk við að skrifa þennan leiðara sinn í Word frá Microsoft á tölvu frá Apple hvort hann hafi hlaupið á Nike skónum sínum út á McDonalds, Subway, Pizza Hut, Dominos, Burger King, Kentucky Fried Chicken, Little Caesars, Hard Rock Cafe, T.G.I. Fridays eða Ruby Tuesday. En auðvitað er líklegast að hann, Evrópubúinn sjálfur, hafi farið á næsta veitingahús við skrifstofur Fréttablaðsins í Skaftahlíðinni sem ekki er hluti af þessum amerísku keðjum. Þá kemur auðvitað ekkert annað til greina en hinn prýðilegi íslenski og þar með alevrópski matsölustaður við Skipholtið, American Style.