Fimmtudagur 22. júlí 2004

204. tbl. 8. árg.

N

Eitt helsta kennileiti Reykjavíkur: mannlaus strætisvagn.

ýting strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu er svo léleg að þær fáu sálir sem nýta sér þjónustuna geta iðulega látið fara vel um sig í rúmgóðum vögnunum og kynnst af eigin raun þeirri tilfinningu að hafa einkabílstjóra. Eina aðkoma alls almennings að þessum vögnum, sem þó eru kenndir við hann, er að hann greiðir vel á annað þúsund milljónir króna með þeim á ári hverju. Þessi slaka nýting vagnanna hefur það auðvitað í för með sér að útblástur frá hverjum strætisvagnafarþega er engu minni en frá farþegum í venjulegum fjölskyldubíl og í mörgum tilfellum meiri. „Umhverfisvernd“ er þó ein af yfirlýstum ástæðunum fyrir opinberum rekstri á vögnunum. Vefþjóðviljinn hefur stundum hvatt til þess að hið opinbera hætti rekstri strætisvagna, selji vagnana og leyfi einkaaðilum að sinna þessari þjónustu þar sem eftirspurn er eftir henni. Þannig mætti bæði draga úr útblæstri og spara skattgreiðendum nokkrar milljónir á dag. Í öllu falli gangi ekki að þessir stóru trukkar aki um borgina án farþega. Í engu hefur verið farið að þessum tillögum Vefþjóðviljans og nýting vagnanna versnar ár frá ári undir styrkri forystu vinstri grænu kallanna í R-listanum.

Þrátt fyrir að farþegana hafi vantað hefur þó fram að þessu mátt ganga að bílstjórum vísum við stýrið í vögnunum. Því kastaði fyrst Hlemmi-Fellunum þegar fréttir bárust af því í gær að mannlaus strætó hefði farið um Borgarholtsbraut; bæði án farþega og bílstjóra.

Ætli það dugi til að koma sveitarstjórnarmönnum á höfuðborgarsvæðinu á rétt spor í þessum málum að bílstjórarnir séu farnir sömu leið og farþegarnir?