Miðvikudagur 21. júlí 2004

203. tbl. 8. árg.

Kannski muna einhverjir enn eftir því, að fyrir tveimur mánuðum ákvað Ólafur Ragnar Grímsson fyrirvaralaust að sækja ekki það brúðkaup ríkisarfa Danmerkur sem hann hafði áður þekkst. Gaf hann síðar þá skýringu að hann hefði ekki getað yfirgefið landið, jafnvel ekki til Danmerkur þaðan sem flogið er til Íslands oft á dag, þar sem hugsanlegt hefði verið að fjölmiðlafrumvarpið svonefnda yrði afgreitt á svipstundu – og var þó langt eftir af annarri umræðu af þremur um málið þegar brúðkaupið hófst, og samkvæmt lögum verður að líða nótt milli annarrar umræðu og þriðju. Fréttamenn vefengdu auðvitað ekki þessa skýringu Ólafs Ragnars, þó hinir og þessir hafi hins vegar talið hana tóman fyrirslátt. Hinn fimmta þessa mánaðar kom alþingi svo saman að nýju og tók strax til við að ræða nýtt „fjölmiðlafrumvarp“. En hvað ætli hafi svo gerst hinn níunda sama mánaðar, þegar fjölmiðlafrumvarp númer tvö hafði verið til umfjöllunar Alþingis í fjóra daga? Fór þá ekki af landi brott Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi fjármálaráðherra, síðar forseti, og hefur vafalaust verið að sinna brýnum erindum. Enginn fréttamaður segir frá þessu. Enginn spyr hvort ekki hafi verið sama „hætta“ og síðast á því að umræðu lyki fyrirvaralaust. Sá forseti, sem kom til landsins með leikrænum tilburðum í maí, og stóð íbygginn á tröppum Bessastaða og sagði einfaldlega að forsetinn hefði ýmsar skyldur og þær gengju fyrir, – hann er einskis spurður. Það er ekki einu sinni sagt frá því að forsetinn fari úr landi og handhafar forsetavalds hafi tekið við.

Það er svo skemmtileg tilviljun, að mánuði eftir að forseti Íslands sniðgekk brúðkaup ríkisarfa Danmerkur, þá skilaði danska konungsfjölskyldan til Íslands málverkinu „Svönum“ eftir Jón Stefánsson, en árið 1935 var það brúðargjöf íslenska ríkisins til þeirra Friðriks krónprins og Ingiríðar.

Þeir sem vilja banna mönnum að vera umsvifamiklir útgefendur eru í raun ekki að biðja um annað en að blöð verði rifin af lesendum og lokað fyrir viðtæki manna. Neytendur eiga að hafa síðasta orðið um hvaða fjölmiðlar lifa og hverjir ekki. Vandamál íslenskra fjölmiðlanotenda til þessa hefur verið að stjórnmálamenn hafa ákveðið að stórum hluta hvaða fjölmiðla neytendur kaupa því landsmenn eru neyddir til áskriftar að Ríkisútvarpinu. Er það í alvöru sem menn halda því fram að færa þurfi aukið áhrifavald um það hvaða fjölmiðlar starfa hér frá neytendum til pólitíkusa?
 – Vefþjóðviljinn 13. janúar 2004

Vefþjóðviljinn fagnar því að breytingar sem gerðar voru á útvarps- og samkeppnislögum í vor verða afturkallaðar. Ástæður sínar fyrir því hefur hann rakið bæði áður og eftir að frumvarp um þessar lagabreytingar var lagt fram á Alþingi. Vefþjóðviljinn er einfaldlega andvígur „samkeppnislöggjöf“ sem nær til einkafyrirtækja. Hvort sem það er bakarí eða blaðaútgáfa sem á í hlut. Hann þarf engar málamyndaástæður eins og „málsmeðferðina“ til setja sig á móti lögum af þessu tagi.

Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingar var í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gær til að ræða stöðu málsins. Þar var hann spurður að því hvort hann teldi að einhverjar takmarkanir ættu að vera á eignarhaldi svonefndra markaðsráðandi fyrirtækja á fjölmiðlum. Ef Vefþjóðviljinn skildi formanninn rétt telur hann að eins og staðan er nú sé ekki þörf á slíkum takmörkunum. Ef satt reynist er Samfylkingin einn flokka á Alþingi um þetta sjónarmið. Þetta virðist þó andstætt því sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaformaður flokksins sagði í sama þætti 5. júlí síðastliðinn en þar talaði hún að setja lög um fjölmiðla nú í sumar sem tækju á „fleiri þáttum en eignarhaldinu“. Það kemur kannski ekki á óvart að Össur og Ingibjörg séu ósammála um þetta atriði á meðan þau koma sér ekki saman um hvort eigi að vera formaður, talsmaður, snjómaður og forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar.

En Össur má eiga það að hann fylgir alltaf sömu stefnu og samkvæmur sjálfum sér að því leyti að hann er aldrei efnislega samkvæmur sjálfum sér. Fyrir tveimur árum vildi hann fá samkeppnisstofnun tæki til að skipta upp ákveðnu fyrirtæki, sem hann kallaði „einokunarrisa“, til að vernda neytendur. Síðan hefur „einokunarrisinn“ stækkað verulega, hann er ekki lengur almenningshlutafélag undir reglum Kauphallarinnar og hann hefur eignast tvö af þremur dagblöðum landsins, þrjár sjónvarpsstöðvar af fimm og nokkrar útvarpsstöðvar. Og nú er engin þörf á takmörkunum að mati formanns Samfylkingarinnar.

Ætla menn í alvöru að láta sér í léttu rúmi liggja að Samfylkingin eins og hún leggur sig, ólmist út af einu máli mánuðum saman án þess að menn fái á hreint hver afstaða hennar er til málsins?