Þverstæða miðstýrðs hagkerfis felst í því að þar er ekki mögulegt að stýra neinu af viti. Ekki er hægt að gera áætlanir þar sem verð skortir á öllum vörum. Það verður aðeins fálm í myrkri. |
– Ludwig von Mises, Human Action |
MISES3Hugmyndir sósíalista um miðstýringu þjóðfélaga og hæfileika fárra manna til að fara með aðalhlutverk í þeim rekstri leiddu hörmungar yfir milljónir manna í þeim ríkjum þar sem hugmyndunum var hrint í framkvæmd. Einstaklingurinn mátti sín oft lítils þegar stjórnlyndi og skipulagsárátta. Austurríski hagfræðingurinn Ludwig von Mises fékk að kenna á stjórn þýskra þjóðernissósíalista þótt hann slyppi betur en margur annar. Árið 1934 sá hann sér þann kost vænstan að yfirgefa heimaland sitt og flytja til Sviss. Eftir að móðir hans lést, árið 1937, skaust Mises til Vínar og bjó um eigur sínar í einu herbergi íbúðar þeirra í Vínarborg en dvaldi sjálfur áfram um skeið í Sviss. Meðal þess sem hann skildi eftir í Vín var bókasafn hans, eigin ritsmíðar, margar óbirtar, og bréfaskriftir hans við ýmsa fræðimenn. Þessi verðmæti áttu ekki eftir að rata aftur í hendur eiganda síns því fljótlega eftir að Þjóðverjar ruddust inn í Austurríki árið 1938 létu Gestapómenn greipar sópa um herbergið og hirtu öll skjöl þaðan. Við eftirgrennslan komst Mises að þeirri niðurstöðu að öllu hefði verið eytt og stóð hann í þeirri trú það sem hann átti eftir ólifað en hann lést í New York árið 1973.
Ludwig von Mises varði ævi sinni í baráttu gegn skipulagningu að ofan hvort sem hún var nefnd sósíalismi eða þjóðernissósíalismi (fasismi). Hann trúði því staðfastlega að öllum þráðum þjóðfélagsins yrði ekki komið fyrir hjá stjórnvöldum, til þess væri mannskepnan of flókin. Ef menn vildu byggja réttlátt þjóðfélag yrðu einstaklingarnir að vera útgangspunkturinn því þekkingin væri dreifð meðal þeirra og henni væri ekki hægt að safna saman á kontóra ríkisins. Embættismenn skorti því allar forsendur til að taka réttar ákvarðanir. Mises rökstuddi þessa skoðun sína í mörgum ritum og afbragðsvel helsta verki sínu, Human Action. Svo afkastamikill var hann eftir að hann yfirgaf Austurríki að menn hafa hugsað til þess með trega að hafa ekki ritsmíðar og önnur vinnuskjöl hans frá fyrstu þremur áratugum síðustu aldar en þau urðu flest eftir í herberginu í Vín.
En svo kom það á daginn að skjölin úr herbergi Mises hafa verið geymd í skjalaskápum í Moskvu, flokkuð og vel merkt. Þjóðverjar geymdu þau í nokkur ár Tékkóslóvakíu þar sem Rauði herinn hirti þau þegar hann lagði landið undir sig. Richard M. Ebeling formaður stjórnar FEE og eiginkona hans Anna sem fædd er í Rússlandi, höfðu upp á þeim árið 1996. Í erindi sem hann flutti hjá FEE nú í júní lýsir hann hvernig það kom til og hvað skjölin hafa að geyma. Kemur nú í enn frekar í ljós að Mises var ekki bara framúrskarandi fræðimaður á sviði hagfræði og lögfræði heldur höfðu hugmyndir hans talsverð áhrif í Austurríki á árunum milli stríða. Það verður áhugavert að fylgjast með vinnu úr þessum heimildum á næstu árum en hluti þeirra hefur þegar verið gefinn út og von er á frekari útgáfu á næstunni.
Það er auðvitað eftir öðru í veröldinni að skjölin sem Mises, einn helsti andstæðingur miðstýringar og skipulagshyggju á 20. öldinni, taldi að eilífu glötuð skuli hafa verið prýðilega varðveitt, flokkuð og skráð í hjarta samhyggjunnar í stjórnarbyggingu í Moskvu.