Mánudagur 19. júlí 2004

201. tbl. 8. árg.

Það er af og til verið að koma með nýjan söguskilning og sagnfræðikenningar sem eru svo endurteknar hvað eftir annað. Sú nýjasta er sjálfsagt sú sem nú er haldið að framsóknarmönnum – og með þeirri viðbót að þeir eigi að verða hinir reiðustu við tíðindin – að mjög hafi verið ráðist að Eiríki Tómassyni lögfræðingi og hans álit talin hin ómerkilegustu. Einkum er sagt að Davíð Oddsson forsætisráðherra hafi ráðist sérstaklega að álitum Eiríks. Þessu er nú haldið fram oft á dag og gengið út frá þessari kenningu sem hinum mesta sannleika. Fjölmiðlamenn segja að framsóknarmönnum misbjóði þessar „árásir Davíðs“ á Eirík og jafnvel hefur verið sagt að sjálfstæðismenn séu „rasandi“ yfir þeim, og má þá nærri geta hvernig framsóknarmönnum líður.

En hvernig var nú árásin sem meira að segja „sjálfstæðismenn eru rasandi“ yfir? Hún var nú bara svona og birtist í viðtali við Morgunblaðið 10. júlí síðastliðinn:

Reyndar er það svo að á undanförnum vikum og mánuðum hafa ýmsir þeir sem maður hefur haft álit á sem lögfræðilegir fræðimenn farið þannig fram að hlutfall lýðskrums annars vegar og lögfræði hins vegar hefur verið afskaplega óhagstætt, svo ekki verði meira sagt. Þetta er orðið eins og eitthvert fyrirbæri í tilverunni þessi svokölluðu lögfræðilegu sjónarmið sem eru einhver persónuleg, pólitísk sjónarmið manna sem skreyta sig með fræðititlum. Þetta er orðið mjög vont. Ég man ekki eftir þessu áður í þessum mæli. Ég er ekki að tala um það í sambandi við þetta álit Eiríks, því það hef ég ekki séð. Ég hef bara heyrt um það í fréttum og af þeim að dæma virðist þetta frekar vera trúaratriði en lögfræði. Ef það er svo að hann telur að það sé hægt með lögum að fella þessi lög úr gildi en ekki að setja ný lög eða breyta lögum, þá er lögfræðin farin að taka á sig nýjar víddir og það sannar þá að vegir hennar eru að minnsta kosti órannsakanlegir ef hún er túlkuð svona. En það er eiginlega ekkert farið að vekja manni undrun lengur af því sem haft er eftir lögfræðilegum fræðimönnum að undanförnu því miður og hafa nú ýmsir verið verri en Eiríkur í því efni.

Þetta er nú allt og sumt. Hvernig er nú hægt er að reiðast svo mjög fyrir hönd Eiríks Tómassonar vegna þessa? Það er meira að segja sérstaklega tekið fram að ekki sé átt við álit hans. En jafnvel þó svo hefði verið, má kannski ekki lengur vera ósammála Eiríki Tómassyni? Eiríkur hefur verið stórorður um stjórnvöld mánuðum saman og talið ófátt vera brot á stjórnarskrá, lögum og reglum. Það segir sig væntanlega sjálft að stjórnvöld og margir aðrir telja þau álit hans röng, hvor aðilinn sem svo hefur rétt fyrir sér. Rétt eins og ýmsir segja álit hans rétt, og þar með álit hinna röng. Mega þeir, sem telja álit Eiríks röng, þá ekki segja það? Jú auðvitað dettur engum í hug að þeir megi ekki, eða jafnvel að sú skoðun geti verið árás á Framsóknarflokkinn, enda er reiðin fyrir hönd Eiríks Tómassonar – vegna ummæla, sem tekið er fram að eigi ekki við um hans álit, því þau hafi menn ekki séð – væntanlega aðeins ætluð til að vera vopn í pólitískri baráttu. Eða hvenær sjást fréttir um að heilu stjórnmálaflokkarnir séu rasandi yfir því að einhver hafi vísað áliti einhvers lögfræðings á bug? Og ef framsóknarmenn ættu í alvöru að vera reiðir yfir því að einhver sé ósammála Eiríki Tómassyni – ættu þeir þá ekki að vera jafnvel reiðari í garð þeirra sem telja röng þau álit Jóns Sveinssonar, sem ekki er minni framsóknarmaður en Eiríkur, að lögfræðilega standi ekkert í vegi fyrir þeim frumvörpum sem stjórnvöld hafa lagt fram? Eru framsóknarmenn kannski rasandi út í Eirík fyrir að vera ósammála Jóni? Og út í Jón fyrir að hafna algerlega áliti Eiríks?

Ídag vilja baráttumenn gegn virkjanaframkvæmdum að landsmenn flaggi í hálfa stöng og á það meðal annars að vera til stuðnings við framtak nokkurra landvarða sem hafi flaggað í hálfa stöng á starfstöðvum sínum fyrir ári, til að mótmæla framkvæmdum á hálendinu, og fengið bágt fyrir. Ýmsir, ekki síst Ögmundur Jónasson, hafa haldið því fram að landverðirnir hafi goldið fyrir flöggun sína og væri það til marks um að tjáningarfrelsi þeirra væri ekki virt. Vefþjóðviljinn veit ekki hvort sett var ofan í við landverðina, en hefði það verið óverðskuldað? Menn mega hafa hvaða skoðun á virkjunum sem þeir vilja. En ímyndi menn sér nú, að húsvörðurinn hjá BSRB telji einn daginn að nýjustu samningar bandalagsins stefni stöðugleikanum í hættu og hann ákveði því að hafa bara flaggað í hálfa stöng á skrifstofu samtakanna. Ætli Ögmundur Jónasson teldi það spurningu um tjáningarfrelsi þess vafalaust mæta manns? Eða ef húsvörðurinn í fjármálaráðuneytinu ákveddi að mótmæla skattalækkun – eða skattahækkun – með sama hætti?