Helgarsprokið 18. júlí 2004

200. tbl. 8. árg.

B

ókin Applied Economics: Thinking Beyond Stage One eftir hagfræðinginn Thomas Sowell kom út fyrr á þessu ári og er nokkurs konar framhald af bókinni Basic Economics: A Citizen’s Guide to the Economy, sem kom út fyrir fjórum árum og Vefþjóðviljinn hefur fjallað um. Eins og þessir tveir titlar gefa til kynna kafar Sowell heldur dýpra í nýju bókinni en þeirri eldri og fjallar nokkuð ýtarlega um ýmis raunhæf viðfangsefni á sviði stjórnmála og hagfræði og hvaða afleiðingar ýmsar ákvarðanir stjórnvalda geta haft. Hugað er að því þegar stjórnmálamenn grípa til aðgerða til að leysa ýmis vandamál og hverjar afleiðingar þessara aðgerða geta verið. Sowell sýnir fram á að þótt stundum virðist við fyrstu sýn mega leysa vanda með því að setja reglur, til þess svo dæmi sé tekið að stýra verði eða framboði á ákveðinni vöru eða þjónustu, þá verði afleiðingarnar í raun allt aðrar en að var stefnt. Aðgerðirnar sem kallað var eftir og farið út í skapi iðulega meiri vanda en þær leysi.

„Sowell bendir á að oft hafi aðgerðir stjórnvalda þær afleiðingar að mismunun verði ódýrari en ella og auki mismunun af þeim sökum.“

Sowell tekur dæmi af skattheimtu og segir ekkert auðveldara fyrir borg eða ríki, þar sem arðbær fyrirtæki séu til staðar, en að hækka skatta á þessi fyrirtæki til að fjármagna hið opinbera. Hægt sé að líta svo á að fyrirtækin geti ekkert annað gert en að greiða skattana, því að þau geti ekki auðveldlega flutt starfsemi sína annað. Sowell útskýrir hvernig afleiðingar hærri skatta verða smám saman þær að draga úr starfsemi fyrirtækja á staðnum og að eftir því sem tíminn líði geti komið að því að skatttekjurnar verði minni en þær hafi verið áður en skattar voru hækkaðir. Þetta geti hins vegar tekið langan tíma og þegar að þessu komi verði þeir stjórnmálamenn sem ábyrgðina bera komnir annað eða muni að minnsta kosti ekki þurfa að bera ábyrgðina, þar sem hvorki kjósendur né fjölmiðlar átti sig á því hvað olli lækkun skattteknanna. Sowell nefnir New York borg sem sígilt dæmi um slíka þróun. Áður fyrr hafi höfuðstöðvar margra af stærstu fyrirtækjum Bandaríkjanna verið í New York, en í upphafi 21. aldarinnar hafi aðeins eitt af eitthundrað þeirra fyrirtækja sem vaxi hraðast í Bandaríkjunum haft höfuðstöðvar sínar í borginni. Í New York séu hærri skattar en í nokkurri annarri bandarískri borg og hæsti eignarskattur á fermetra af skrifstofuhúsnæði. Útgjöld borgarinnar séu líka mikil miðað við aðrar borgir og almennt talað sé sú stefna að eyða miklu og hafa háa skatta til vinsælda fallin í stjórnmálum, þrátt fyrir að hafa neikvæð efnahagsleg áhrif.

Í bókinni fjallar Sowell líka um vinnumarkaðinn, þróunarríkin, heilbrigðiskerfið og húsnæðismálin, svo nokkur dæmi séu nefnd. Í tengslum við húsnæðismál fjallar hann um fyrirbæri á borð við hámarksleigu, takmarkanir á heimildum landeigenda til að láta byggingarframkvæmdir ráðast af eftirspurn á markaði og fleira sem hefur áhrif á húsnæðismarkaðinn. Hann bendir á að sambærilegt húsnæði á ólíkum stöðum í Bandaríkjunum kosti mjög misjafnlega mikið og segir það ekki aðeins vera vegna mismunandi staðsetningar. Hann segir mismunandi eftirspurn á ólíkum stöðum geta skýrt mismun í verði, en framboðið spili einnig inn í. Takmarkanir á byggingarrétti skýri oft hátt verð á húsnæði, til að mynda ef settar séu reglur um tiltekna lóðastærð eða hámarkshæð. Áður en ýmsar slíkar takmarkanir hafi verið settar í Kaliforníu á áttunda áratugnum hafi verð á húsnæði þar verið svipað því sem gerðist annars staðar í Bandaríkjunum, en nú sé það margfalt hærra vegna ýmissa takmarkana á byggingarrétti landeigenda.

Thomas Sowell

Einn af áhugaverðari köflum bókarinnar fjallar um mismunun og orsakir hennar og afleiðingar. Sowell bendir á að oft hafi aðgerðir stjórnvalda þær afleiðingar að mismunun verði ódýrari en ella og auki mismunun af þeim sökum. Hann nefnir dæmi þar sem menn, sem hafi haft fordóma gagnvart tilteknum hópum, hafi engu að síður ráðið menn úr þessum hópum í vinnu þar sem það hafi borgað sig. Séu efnahagslegu hvatarnir réttir- eða öllu heldur ef efnahagslegu hvötunum sé ekki spillt með opinberum aðgerðum – sjái fólk sér hag í að láta fordóma sína ekki ráða gjörðum sínum. Hann segir að reglur um takmarkanir á vinnumarkaði, hvort sem sé vegna sterkra verkalýðsfélaga eða reglna hins opinbera, geti minnkað kostnaðinn af mismunun og þar með ýtt undir hana. Svartir menn í Bandaríkjunum hafi til að mynda fengið betri tækifæri til vinnu á þeim hlutum vinnumarkaðarins og á þeim tímabilum í sögunni, þar sem meira frelsi hafi ríkt en þar sem hömlur hafi verið meiri. Sowell segir að of oft séu þeir sem séu andsnúnir mismunun líka andsnúnir samkeppni á frjálsum markaði sem geri mismununina dýrari. Þetta sé vegna þess að þeir hugsi ekki út í afleiðingar þeirrar stefnu sem þeir aðhyllast.

Launamunur er enn eitt af því sem Sowell kemur inn á í bók sinni, bæði á milli karla og kvenna og ólíkra kynþátta. Hann segir að ekki sé nóg að gera grófan samanburð á hópum þegar fjallað sé um launamun því að skýringarnar komi oft ekki í ljós fyrr en málin séu skoðuð náið. Eitt af dæmunum sem hann tekur er af samanburði á hvítum og svörtum háskólakennurum í Bandaríkjunum. Rannsókn hafi sýnt að þeir sem hafi virst sambærilegir samkvæmt ákveðnum mælikvörðum hafi engu að síður verið mjög ólíkir þegar aðrir mælikvarðar hafi verið skoðaðir. Svartir prófessorar með doktorsgráðu hafi yfirleitt fengið gráðuna eldri, frá minna virtum skólum og þeir hafi birt færri fræðigreinar en þeir hvítu sem voru til samanburðar. Þegar þættir eins og starfsreynsla í háskóla, gæði skólanna sem kennararnir útskrifuðust frá og birtar greinar hafi verið teknir inn í dæmið hafi svörtu prófessorarnir haft hærri tekjur en þeir hvítu. Þetta hafi jafnvel átt við árið 1970, ári áður en alríkislög um jákvæða mismunun hafi verið sett.

Annað dæmi sem Sowell tekur af launamun er af samanburði á konum og körlum. Hann segir að laun bandarískra kvenna hafi aldrei verið jafn há og laun bandarískra karla, en jafnvel árið 1971 hafi konur á fertugsaldri, sem höfðu aldrei gifst og höfðu unnið samfellt frá útskrift úr framhaldsskóla, haft heldur hærri laun en karlar sem falli undir sömu skilgreiningu. Í Kanada hafi ógiftar konur yfir 99% af launum ógiftra karla. Og meðal háskólakennara í Bandaríkjunum hafi konur sem aldrei hafi gifst, jafnvel þótt litið sé aftur til ársins 1969, haft umtalsvert hærri tekjur en menn sem ekki höfðu kvænst.

Bók Sowells er ætluð jafn leikum sem lærðum. Hún er þess vegna ólík mörgum öðrum fræðibókum að því leyti að í henni eru fáar tilvísanir og neðanmálsgreinar, en þess í stað er sérstakur kafli aftast þar sem greint er frá því hvaða heimildir hafa verið notaðar í hverjum kafla og í hvaða sambandi. Þetta gerir bókina þægilega aflestrar, en hún er umfram allt áhugaverð og skemmtileg lesning fyrir alla áhugamenn um stjórnmál og hagfræði.