Laugardagur 17. júlí 2004

199. tbl. 8. árg.

E vrópusambandið hefur tekið ákvörðun um tvöhundruð daga tollaaðgerðir í tengslum við innflutning á löxum. Af fréttum að dæma er tilgangur aðgerðarinnar sá að bregðast við miklum innflutningi á eldislaxi til Evrópusambandsins og mjög lækkuðu verði á þessari neytendavöru. Nú eru það Norðmenn sem helst flytja inn eldislax til Evrópusambandsins, Íslendingar í litlum mæli en einhverjum þó. Í fréttum af málum sem þessum eru afleiðingar svona stjórnvaldsaðgerða gjarnan reifaðar með tilliti til þeirra sem flytja inn viðkomandi vöru. Í nýlegum fréttum af tvöhundruð daga laxatollinum er til að mynda fullyrt að Noregur eigi hér mikilla hagsmuna að gæta og Íslendingar bíði nú milli vonar og ótta um að Norðmenn „nái samningum“ við Evrópusambandið. Vissulega eiga þeir sem selja þessa vöru hagsmuna að gæta og réttilega berjast þeir gegn skattheimtunni. Það er þó rétt að halda því til haga að þeir sem verst verða úti í aðgerðum sem þessum eru auðvitað neytendur. Af hverju er ráðist með þessum hætti að hagsmunum heimilanna í Evrópusambandinu? Og hvar eru málsvarar þeirra gagnvart skriffinnunum í Brussel? Ætli neytendur í Evrópusambandinu hafi nokkra hugmynd um þessa aðgerð, eða nokkrar þær aðrar íþyngjandi aðgerðir sem daglega er tekin ákvörðun um í Brussel?
Hvað vilja menn svo veðja miklu um að laxeldistollurinn verði bara í tvöhundruð daga?

S tjórnarandstaðan á þingi er enn í öngum sínum yfir „málsmeðferð“ þingmeirihlutans í fjölmiðlamálinu. Málsmeðferðin svokallaða hefur vikum saman þjakað stjórnarandstöðuna og þá aðallega vegna þess að meirihluti Alþingis hefur að hennar mati afgreitt málið of hratt. Ekki mun hafa verið gefinn nægur tími til að ræða málið svo vel sé. En nú kveður við annan tón. Þó að enn sé deilt á málsmeðferðina frægu er það að þessu sinni ekki vegna of mikils asa, heldur þvert á móti. Nú er sérstaklega gagnrýnivert að allsherjarnefnd Alþingis skuli ekki keyra málið í gegn með hraði, heldur eigi að leyfa einum virkum degi og einni helgi að líða án fundar. Þetta fer svo mjög í taugarnar á stjórnarandstöðunni, að hún hefur allt á hornum sér. Eftir hamaganginn þegar málið þótti lítt rætt eftir að hafa fengið einhverja mestu umræðu í þingsögunni, þá er þessi málflutningur stjórnarandstöðunnar vægast sagt ekki mjög sannfærandi. Hvað veldur því að stjórnarandstöðunni liggur nú svo á að ekki má láta þrjá daga, þar af einn virkan dag, líða áður en allsherjarnefnd tekur ákvörðun? Hvernig er nú komið fyrir „umræðustjórnmálum“ Samfylkingarinnar?