Föstudagur 30. júlí 2004

212. tbl. 8. árg.

A

Þessi kostar 2,9 milljónir króna í Bandaríkjunum en yfir 5 milljónir hér á landi.

ð þvælast um vefinn og skoða bíla er góð skemmtun. Kannski ekki eins og að fara skrans um plönin á sölunum sjálfum en ágætt engu að vefsíður. Á bilasolur.is má til dæmis skoða ágætt úrval hér innanlands en svo magnast spennan ef farið er um usedcars.com fyrir Ameríku eða mobile.de sem dekkar Evrópu.

Þetta er þó aðeins gaman upp að vissu marki. Svo tekur heiftin öll völd og illar hugsanir berast til hins geðþekka fjármálaráðherra þjóðarinnar og ekki síður forvera hans í starfi. Þegar það rennur upp fyrir mönnum á hvaða verði bílar í Ameríku eru og hvers vegna þeir eru svo miklu dýrari hér eru þetta eðlileg viðbrögð.

Í dag er til dæmis hægt að kaupa árgerð 2005 af Mercedes-Benz ML350, bílinn hér á myndinni, fyrir 2,9 milljónir króna í Bandaríkjunum. Þetta er bíllinn fyrir íslenskar aðstæður, myndi einhver segja. Rúmgóður fyrir fimm manna fjölskyldu. Ekki of stór til að skottast um í bænum en hár til pústsins og fjórhjóladrifinn fyrir íslenskan snjó og malarvegi. Hann er með sex strokka, 3,7 lítra, 232 hestafla vél og auðvitað sjálfskiptur. Þetta verð er ekki langt frá því verði sem sett er upp hér á landi fyrir vinsæla fjölskyldubíla af millistærð og myndi því koma til greina sem slíkur hér á landi nema…

Já, nema af því að þegar Íslendingur fer og kaupir sér bíl er hann ekki nema að hálfu leyti að kaupa bíl því nær helmingur viðskiptanna er við fjármálaráðherra. Nær helmingur kaupverðsins rennur í ríkissjóð Íslands. Umræddur glæsivagn má sæta því þegar hann rúllar inn á hafnarbakkann á Íslandi leggjast á 45% vörugjöld, á bæði kaupverðið erlendis og flutningskostnað. Ofan á það leggur bílasalinn sjálfsagt eitthvað. Að því loknu kemur ríkissjóður svo og bætir við 24,5% virðisaukaskatti. Ef flutningskostnaður er 100 þúsund krónur en álagning bílasalans engin fer verðið á þessum bíl því úr 2,9 milljónum í 5,2 milljónir króna. Raunhæft er að gera ráð fyrir að verðið sé nær 6 milljónum króna.

Með öðrum orðum fer verð bílsins úr því að vera raunhæft fyrir stóran hóp fólks í einhvern fáránleika á fárra færi. Bensín á bílinn kostar svo 240 þúsund á ári hér en 90 þúsund í Bandaríkjunum miðað við 20 þúsund kílómetra akstur.

Þorvaldur Gylfason prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands sló á létta strengi í Fréttablaðinu í gær í grein sem bar heitið „Margt býr í hæðinni“. Þar fjallaði hann um árangur þjóða í sentímetrum í stað senta eins og hagfræðingum er svo tamt. Er það vel til fundið og góð tilbreyting frá aurastaglinu sem er allsráðandi í umræðunni eins og pistillinn um bílverðið hér að ofan sannar. Upp úr þessari pælingu kemur sú almenna kenning Þorvaldar að því betra sem menn hafi það þeim mun hærri verði þeir. Þessu til rökstuðning nefndi hann að Frakkar hefðu hækkað um nokkra sentímetra eftir byltinguna í Frakklandi árið 1789. Þorvaldi láðist hins vegar að geta þess að það kann að skýrast að nokkru leyti af því að úrvalsmennirnir sem lifðu byltinguna af voru jafnan höfðinu hærri en þeir sem gerðu það ekki.