Fimmtudagur 1. júlí 2004

183. tbl. 8. árg.

Það er dálítið skemmtilegt og sígilt atriði í íslenskum þjóðmáladeilum, að af öðrum væng stjórnmálanna telja menn sig iðulega vita allt um það sem er að gerast hinu megin. Þannig er klassískt að þegar vinstri menn æsast yfir einhverju máli, sem þeir gera oft, þá líður ekki á löngu þar til þeir frétta af miklum úrsögnum úr Sjálfstæðisflokknum. Þegar það svo gerist, og reyndar virtist með öllu hætt um tíma, að Morgunblaðið tekur í leiðurum eða Reykjavíkurbréfum svipaða afstöðu og Sjálfstæðisflokkurinn, þá frétta vinstri menn með sama hætti af geysilegum mannfjölda sem er að segja upp áskriftinni. Reyndar er mesta furða að nokkur sé ennþá í Sjálfstæðisflokknum og styttist sjálfsagt í það að félagaskráin komist í mínus, svo oft frétta vinstri menn af „hrinu úrsagna“. Í blöðum vinstri manna má yfirleitt á sama tíma lesa klausur þess eðlis að „menn telja“ eitt og annað, að sjálfstæðismenn séu óánægðir með forystuna, að fólk sé mjög á móti hinum og þessum forystumönnum flokksins, að þessi eða hinn forystumaður sé að segja eða hugsa þetta og hitt, og í næstu klausu kemur fram að það sé á hinn bóginn altalað að Össur Skarphéðinsson líffræðingur hafi mjög styrkt stöðu sína.

Þetta virðast margir vinstri menn telja sér trú um, ár eftir ár. Stundum virðist sem að minnsta kosti sumum þeirra sé nauðsynlegt að trúa þessu; það er að segja, að trúin á málstaðinn nægi ekki, heldur verði þeir að sannfæra sig um að það sé fullt af fólki sömu skoðunar, og málstaðurinn þá þar með réttur væntanlega. Hugsanlega er það þess vegna, sem margur vinstri maður virðist eiga svo erfitt með þá staðreynd að Ólafur Ragnar Grímsson fékk ekki traustsyfirlýsingu meirihluta landsmanna í forsetakjörinu á dögunum og að meira en fjörutíuþúsund Íslendingar mættu sérstaklega til að greiða atkvæði gegn honum, þrátt fyrir að enginn raunhæfur kostur væri í boði. Það er þá líka kannski þess vegna sem þeir gera allt sem þeir geta til að gera sem minnst úr þeirri sterku yfirlýsingu sem þessar tugþúsundir sendu frá sér í kosningunum – og reyna þeir sumir meira að segja að komast fram hjá því, sem blasir við, að auð atkvæði og atkvæði greidd Baldri Ágústssyni voru hvort tveggja atkvæði greidd sérstaklega gegn Ólafi Ragnari Grímssyni.

Með því er ekki verið að gera lítið úr Baldri Ágústssyni eða þeirri staðreynd að á fjórtánda þúsund kjósenda óskaði beinlínis eftir því að hann tæki við störfum af Ólafi Ragnari þegar eftir mánuð. En setjum okkur aðeins í spor kjósanda, sem fær í hendur kjörseðil og vill nýta hann til að láta í ljós andstöðu sína við forsetadóm Ólafs Ragnars Grímssonar. Sá kjósandi á þrjá kosti; að skila auðu, kjósa Ástþór eða kjósa Baldur. Sá kostur að kjósa Ástþór er ekki góður, meðal annars vegna þess að slíkt atkvæði er fremur talið sem undarlega yfirlýsingu um að kjósandinn sé fylgismaður Ástþórs Magnússonar og hans baráttuaðferða, maður sem telur að nú verði allt að gera til að ná friði í heiminum og til þess verði að virkja Bessastaði og svo framvegis. Standa þá eftir tveir kostir fyrir þá kjósendur sem hafa viljað láta í ljós þá skoðun að Ólafur Ragnar Grímsson eigi ekki heima á Bessastöðum. Ef menn taka þann kostinn að skila auðu, þá er á honum sá augljósi galli að Ólafur Ragnar Grímsson og áhangendur hans byrja strax eftir kosningar að þylja það að á Íslandi hafi „aldrei tíðkast að telja auða seðla með“, og því hafi Ólafur sigrað með sínum atkvæðum gegn einungis atkvæðum hinna tveggja. Þeir sem vilja forðast þetta, þeir lenda hins vegar í því að menn reyna að halda því fram að atkvæði þeirra Baldurs og Ástþórs séu einfaldlega persónuleg atkvæði þeirra en ekki til marks um neina óánægju með Ólaf Ragnar Grímsson. Telja má fullvíst, að flestir þeir sem sýna vildu andstöðu við forsetadóm Ólafs Ragnars Grímssonar hafi þurft að velja á milli þess að skila auðu og kjósa Baldur og eðlilegast sé að skilja þau atkvæði á þann hátt. Með því er ekki gert lítið úr árangri Baldurs Ágústssonar, sem getur verið hæstánægður með það, óþekktur maðurinn, að á fjórtánda þúsund landa hans beinlínis kjósi hann gegn sitjandi forseta. Það hefðu þessir kjósendur varla gert nema þeir vildu fremur hafa Baldur Ágústsson en Ólaf Ragnar Grímsson á Bessastöðum. – En af þessu sést, hversu erfiðri stöðu þeir voru í sem vildu sýna andstöðu sína við áframhaldandi setu Ólafs Ragnars Grímssonar á Bessastöðum. Og vafalaust hafa ýmsir slíkir kosið hann engu að síður; ekki af stuðningi við hann heldur af þeirri staðreynd að einhver þessara þriggja Íslendinga varð að vinna. Enginn vildi Ástþór og enginn þekkti Baldur. Og samt náði Ólafur Ragnar Grímsson, sitjandi forseti Íslands, ekki atkvæðum 50 % landsmanna. Var langt frá því meira að segja.

Nú spyr hins vegar kannski einhver: Já en getur ekki verið að maður sem kaus Baldur sé jafnframt ánægður með Ólaf; telji bara Baldur enn betri af tveimur mjög góðum kostum? – Auðvitað má spyrja á þann veg, en það er engu að síður mjög ólíklegt. Vegna þeirrar stöðu sem forsetaembættið hafði alltaf haft á Íslandi, þá má ætla að flestir myndu endurkjósa eðlilegan forseta sem leitar endurkjörs. Menn færu ekki að taka einhvern fram yfir sitjandi forseta, jafnvel þó þeir hefðu hugsanlega valið hann fremur af þeim tveimur ef þeir væru báðir í kjöri fyrsta sinni. Það þurfi verulega óánægju með sitjandi þjóðhöfðingja til að menn kjósi annan frambjóðanda – að ekki sé talað um algerlega óþekktan mann sem enginn mælti sérstaklega með.

Sú spurning sem skiljanlegra væri að menn spyrðu sig, er hins vegar önnur: Hvað hefði gerst ef Ólafur Ragnar Grímsson hefði fengið raunverulegan mótframbjóðanda? Hvernig hefði „sigurvegara kosninganna“ þá gengið?