Hér á síðunni hefur stundum verið sagt að það sé ekki marktækur munur á launum karla og kvenna. Ef marka má fréttir sem berast af þessu máli reglulega er hins vegar mjög mikill munur á launum karla og kvenna. Yfirleitt er þó aðeins hálf sagan sögð í þeim fréttum. Ekki hefur verið tekið tillit til þeirra þekktu þátta sem hafa áhrif á laun manna eins og vinnutíma, menntunar, ábyrgðar, stöðu, starfsreynsla, starfsaldur og svo framvegis. Fæstir þessara þátta eru vel mælanlegir. Prófgráður geta heitið það sama en þótt önnur sé úr Columbia en hin úr kartöfluflögupoka. Eru nokkur tvö störf algerlega sambærileg? Er nokkur leið að mæla ábyrgð? Ber skólabílstjóri minni ábyrgð en kennari? Þegar reynt hefur verið að taka tillit til þessara þátta stendur eftir 5 til 10% munur á launum kynjanna. Þá á eftir að meta alla þá huglægu þætti sem geta haft áhrif. Þegar tekið er tillit til þeirrar óvissu sem þessum mælingum, ef mælingar skyldi kalla, fylgir er ekki hægt að fullyrða meira um þessi mál en að kynin hafi svipuð laun.
Í fréttum Ríkissjónvarpsins í liðinni viku var tvisvar fjallað um launakönnun meðal bankamanna. Í fréttayfirliti aðalfréttatíma á miðvikudagskvöldið kom skilti á skjáinn með orðunum „Gríðarlegur munur“ og í kynningu fréttarinnar sagði að „konur í bönkum og fjármálafyrirtækjum væru einungis með 63% af launum karla samkvæmt nýrri launakönnun“. Var fjallað um þetta fram og til baka á sama hátt og svo oft áður þegar slík mál ber á góma. Hráum meðaltölum um laun skellt fram og dregnar af þeim ályktanir. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir þá sem telja það afar mikilvægt að kynin hafi sömu laun að því sé sífellt haldið fram sem staðreynd lífsins að konur hafi lægri laun en karlar. Hvaða áhrif hefur það á þá sem greiða laun ef þeir heyra það í sífellu að hin viðtekna venja sé að konur hafi lægri laun?
Í lok fréttarinnar kom hins vegar fram að ekki var einu sinni verið að bera saman „sambærileg störf“ heldur sækja karlar mun frekar í störf á verðbréfa- og tæknisviðum bankanna þar sem betri laun eru í boði en í hefðbundinni ráðgjöf til almennra viðskiptavina. Þessi samanburður er því algerlega út í bláinn en dæmigerður fyrir fréttaflutninginn af þessum málum.
Í kjölfar frétta af þessu tagi er gjarnan rætt við menn úr jafnréttisiðnaði en það er iðnaður sem hefur blómstrað eftir að hið opinbera hætti að reka prjónastofur í atvinnuskyni fyrir verkafólk og tók til við rekstur á jafnréttisstofum í sama skyni fyrir háskólafólk.