K aupfélag Eyfirðinga svf., eða KEA, er reiðubúið til að leggja 100 milljónir króna til gerðar Vaðlaheiðarganga austan Akureyrar. Þetta mun hafa komið fram á aðalfundi undirbúningsfélags sem stofnað var í febrúar í fyrra um gerð jarðganga undir Vaðlaheiði. Þetta er vitaskuld fagnaðarefni þeim sem vilja láta bora viðkomandi göng og þeir eiga þá ekki eftir að safna nema 98% af áætluðum kostnaði ganganna, en samkvæmt fréttum er áætlað að göngin myndu kosta 5 milljarða króna. Þessum útreikningum er að vísu rétt að taka með hefðbundnum fyrirvara og margfalda með rauntölu talsvert vel yfir einum, því að reynslan sýnir að slíkar áætlanir eru fremur gerðar til að þrýsta á um að hafist verði handa við verkið en að þær eigi að gefa rétta mynd af kostnaðinum.
Umferð um Víkurskarð, veginn sem göngin eiga að leysa af hólmi, var í fyrra að meðaltali 980 bílar á sólarhring. Til samanburðar má nefna að um Hvalfjarðargöngin óku í fyrra að meðaltali yfir 3.500 bílar á sólarhring, eða hátt í fjórfalt fleiri bílar en gætu átt erindi um göngin undir Vaðlaheiði. Hvalfjarðargöngin hafa borið sig og reynst arðbær framkvæmd og útlitið um arðsemi var gott þegar í þau var ráðist, sem sést best á því að einkaaðilar voru fúsir til að leggja fram fé til gangagerðarinnar. En jafnvel þótt gert væri ráð fyrir að umferðin myndi aukast eitthvað vegna ganganna fyrir norðan er fullkomlega óraunhæft að gera ráð fyrir að þau göng gætu orðið arðbær. Vilji KEA eða einhverjir einkaaðilar þrátt fyrir þetta leggja fram fjármagn til gangagerðarinnar er engin ástæða til að amast við því, en ætli þeir sér að seilast í vasa skattgreiðenda til að gera göngin er málið farið að horfa allt öðruvísi við. Óarðbær gangagerð – sérstaklega þar sem vegur er fyrir – er fullkomlega óásættanleg fyrir skattgreiðendur.