Miðvikudagur 16. júní 2004

168. tbl. 8. árg.
Sjálfstæðisflokkurinn vill halda Sterlingspundinu og yfirgefa ESB.

K osið var til Evrópuþingsins um helgina og urðu úrslitin lítið fagnaðarefni þeim sem vilja sameina Evrópuríkin með góðu eða illu. Andstæðingum Evrópusamrunans gekk mun betur nú en áður, og fjöldi þingmanna mun nú berjast sérstaklega gegn Brusselvaldinu og jafnvel fyrir úrsögn landa sinna úr sambandinu. Fréttaskýrendur hafa reynt að skýra úrslit í hverju landinu á fætur öðrum, þannig að þar hafi kjósendur verið að refsa stjórnvöldum, helst fyrir Íraksstríðið en annars eitthvert annað mál. Þær skýringar eru hins vegar nokkuð einfeldningslegar. Í Bretlandi fékk Sjálfstæðisflokkurinn til dæmis 2,6 milljónir atkvæða, en flokkurinn berst fyrir úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu. Það er afar langsótt að telja atkvæði greidd þessum flokki vera mótmæli við stefnu ríkisstjórnar Verkamannaflokksins í Íraksmálinu. Almennur Breti, sem vill mótmæla innrásinni, hann fer ekki af þeim sökum einum að kjósa flokk sem berst fyrir úrsögn úr Evrópusambandinu. Þá má minna á að kjörsókn í Bretlandi var nú nokkru meiri en í síðustu kosningum til Evrópuþingsins, svo ekki þarf að vera að fylgistap Verkamannaflokksins stafi af því að stuðningsmenn hans hafi einfaldlega setið reiðir heima.

Í Frakklandi töpuðu stuðningsmenn Chiracs forseta verulegu fylgi, en Chirac var sem kunnugt er afar harður andstæðingur innrásarinnar í Írak. Sama má segja um þýska jafnaðarmenn, en þeir töpuðu miklu fylgi og eru aðeins hálfdrættingar á við Kristilega demókrata. Gerhard Schröder var ekki síðri andstæðingur árásarinnar á Saddam en Chirac var. Þar sem erfitt er að halda því fram að þeir Chirac og Schröder hafi tapað á stuðningi við stríðið – eins og mjög er reynt að segja um þá Blair og Berlusconi – þá er reynt að finna eitthvað annað sem fréttamenn eru líka á móti, svo sem breytingar á félagslegu kerfi eða einhverju slíku. Vitaskuld má vel vera að ýmsir kjósendur hafi látið slík mál hafa áhrif á sig. En slíkt verður seint vitað. Og fyrst skoðanir á Íraksstríðinu hafa verið nefndar, þá má vitaskuld vera að andstæðingar innrásarinnar hafi líka misst fylgi vegna þeirrar afstöðu. Þó meirihluti Frakka og Þjóðverja hafi vafalaust verið andvígir innrásinni, þá voru fjölmargir franskir og þýskir kjósendur auðvitað hlynntir innrás. Hví skyldu til dæmis þeir stuðningsmenn Chiracs sem ósáttir eru við andstöðu hans við stríðið, ekki hafa setið heima eða kosið einhverja smáflokka? Það er einfaldlega erfitt að slá svo miklu föstu um það af hverju fólk kaus eins og það gerði. Það sem liggur hins vegar fyrir er að staða hægri flokka og borgaralegra er góð en þó einkum að andstæðingum Evrópusamrunans gekk betur en áður.

O rkuflokkurinn er nýjasta aflið í íslenskum stjórnmálum og munar um minna. Markmið hans er að borin skuli virðing fyrir orkunni, bæði hlutlægri og óhlutlægri, og hver fagnar því ekki að loks skuli kominn fram flokkur sem berst jöfnum höndum fyrir hlutlægri og óhlutlægri orku. Og fyrst verið var að fjalla um Evrópukosningar hér að ofan er ekki úr vegi að benda á hve vel það á við að Orkuflokkurinn skuli einnig hafa á stefnuskrá sinn að sækja beri um aðild að Evrópusambandinu.