Fimmtudagur 17. júní 2004

169. tbl. 8. árg.
Og víst er sælt að geta gengið að
jafn góðum manni á svona vísum stað,
sem auk þess getur enga björg sér veitt,
þótt allt hans líf sé rangfært sitt á hvað.
Því nú er öllum annt um forsetann
og allir landsins flokkar slást um hann,
og þeir, sem aldrei tóku tryggð við neitt,
þeir telja sér hann utanflokkamann.
Tómas Guðmundsson, Þjóðhátíð.

Þ að er gott til þess að vita, að geta gengið að Jóni Sigurðssyni. Þó eitthundrað tuttugu og fimm ár séu liðin frá því forseti hvarf af þessum heimi, þá geta nútímamenn margt gott haft af því að kynna sér orð hans og verk. Jón Sigurðsson var andstæðingur hafta en vildi leysa úr læðingi krafta hins almenna manns; þá myndi Íslendingum farnast best, þegar viðskipti þeirra væru sem frjálsust. Hann áttaði sig á því, að greiðasta leið til framfara er að hver og einn sé frjáls til að finna kröftum sínum farveg, án þess að brjóta á öðrum. Þá var hann enginn einangrunarsinni þegar kom að utanríkisverslun og barðist fyrir því að Ísland ætti frjáls viðskipti við önnur lönd, en lagði mikla áherslu á, að það viðskiptafrelsi yrði að vera við öll ríki en ekki bara fá.

„Annar annmarkaflokkur rís af því, að verzlan Íslands er bundin við eitt land, en bægt frá viðskiptum við öll önnur. Þetta er móthverft öllu eðli verzlunarinnar og allrar menntunar, því þar er grundvölluð á framför og velgengni mannkynsins, að hver býti öðrum gæðum þeim, sem hann hefir, og allir styðji eftir megni hver annan. Þegar syndgað er móti þessari reglu og boðorði náttúrunnar sjálfrar, þá er hegníng viss hverri þjóð, sem það gjörir, og hegníng sú er skömm og skaði hennar sjálfrar. Ekkert land í veröldinni er sjálfu sér einhlítt, þó heimska mannanna hafi ætlað að koma sér svo við, að það mætti verða, en ekkert er heldur svo, að það sé ekki veitanda í einhverju og geti fyrir það fengið það, sem það þarfnast. En þegar það getur fengið það, og það veitir einmitt verzlanin þá er það eins og það hefði sjálft þessi gæði. Þegar nú verzlanin er frjáls, þá leitar hver þjóð með það, sem hún hefir aflögu, þángað sem hún getur fengið það, sem hún girnist, eða hún færir einni þjóð gæði annarrar.“

Í fjölmörgum málum hefðu ýmsir landar Jóns gagn – en kannski ekki að sama skapi gaman – af að kynna sér hvað hinn gamli þjóðfrelsismaður hafði til málanna að leggja um sína daga. Þeir sem berjast fyrir opinberum framkvæmdum til allra hluta yrðu kannski fremur ósáttir við þá skoðun forseta að mikilvægustu framkvæmdir eigi að komast á með frjálsum félögum borgaranna, því að hin „mikilvægustu fyrirtæki, bæði til andlegra og líkamlegra þarfa þjóðarinnar, tilbúníngur á vegum, höfnum, brúm, hjólskipum og mýmörgum öðrum stórsmíðum, sem stjórnin hefði með engu móti getað afkastað eða komizt yfir að láta gjöra, er allt gjört með félagssamtökum manna.“ Og ætli ríkisafskiptasinnar taki undir þá hvatningu Jóns Sigurðssonar að menn venji „sig af að treysta á stjórnina eina sér til hjálpar [en] venj[i] sig á að nota sína eigin krafta; maður verður að læra að samlaga þessa krafta,svo þeir getið unnið saman til almennra heilla“?

Vissulega má segja að nú sé Vefþjóðviljinn að taka Jón Sigurðsson traustataki sem málsvara þeirra skoðana sem blaðið heldur fram, fimm aldarfjórðungum eftir hans dag. Auðvitað verða menn að fara varlega í að slá nokkru föstu um það hvað látnir menn myndu segja um málefni dagsins, ef þeir mættu mæla, en allt um það þá telur Vefþjóðviljinn fyllilega óhætt að telja Jón Sigurðsson með talsmönnum frelsis borgaranna og þess að hver maður hafi möguleika á að finna kröftum sínum útrás. Hitt er sjálfsagt að láta fylgja þeirri sögu, að ekki hvarflaði að Jóni Sigurðssyni að frelsi eins mætti verða svo mikið að það lokaði á möguleika annars. Í Nýjum félagsritum skrifaði hann svo:

„Enginn getur sá gert fullt gagn, sem ekki hefir frelsi til þess, en hætt er einnig við, að sá, sem hefir allt frelsi, gjöri ekki frelsi annarra hátt undir höfði, en þá má ekkert félag standast, ef ekki er slakað til á ýmsar hendur sanngjarnlega.“

En eins og Tómas Guðmundsson benti á, þá reyna hinir og þessir að hrifsa Jón Sigurðsson til sín og gera að sínum manni, vitandi það að hann „getur enga björg sér veitt“. Þegar Alþingi Íslendinga samþykkti inngöngu landsins í Atlantshafsbandalagið á sínum tíma, þá sneru vinstri menn styttu hans í þinghúsinu við, og birtu svo mynd af því í Þjóðviljanum að Jón hefði snúið sér undan á meðan alþingi samþykkti inngönguna. Jón Sigurðsson hafði hins vegar í lifanda lífi sagt að það væri „hinn mesti galli, að engar varnir [væru] á landinu“.

En þó sumir hafi gerst frekir til minningar Jóns Sigurðssonar, þá eru þeir ekki margir sem hafa lagt í að flytja þennan talsmann frelsis og framfara inn á landsfund Alþýðubandalagsins og koma honum meira að segja í bland við Karl Marx. En það hefur þó að minnsta kosti einum manni tekist. Í ræðu sinni á landsfundi Alþýðubandalagsins árið 1980 sagði maður nokkur:

„Sömu misserin og Karl Marx og Friðrik Engels sömdu rétt fyrir miðja síðustu öld stefnuávarp um sameiningu öreiga allra landa, sem engu hefðu að týna nema hlekkjunum einum, en heilan heim að vinna, þá sat Jón Sigurðsson í Kaupmannahöfn og sendi Íslendingum hugvekju í Nýjum félagsritum, þar sem réttur vor til sérstaks ríkis var rökstuddur með tilvísun í sögu þjóðarinnar. Sú staðreynd, að sterkasta hugsjónaákall verkalýðsstéttarinnar og grundvallarritgerð íslenskrar sjálfstæðishreyfingar voru samin á sömu misserunum fyrir röskum 130 árum, sýnir okkur, hve lengi tveir höfuðþræðir okkar stefnu hafa legið saman í tímans rás.“

Engin ástæða er til að nafngreina þennan ræðumann sérstaklega, en þess má þó geta að leiðir þeirra tveggja, ræðumannsins á landsfundinum og frjálsræðishetjunnar úr Kaupmannahöfn, liggja saman enn á ný í dag, þegar forseti Íslands leggur firnamikinn, árvissan og stóran blómsveig að minnisvarða Jóns Sigurðssonar.