Þriðjudagur 15. júní 2004

167. tbl. 8. árg.

Þá er hæstiréttur Ísraels búinn að hnekkja banni við sölu svínakjöts í verslunum, að hluta að minnsta kosti. Ef marka má Jerusalem Post mega yfirvöld nú ekki lengur amast við því að svínakjöt sé selt í verslunum þar sem yfirgnæfandi meiri hluti manna vill kaupa svín eða lætur sér í léttu rúmi liggja þótt aðrir geri það. Þar sem mjótt er á munum milli fylgjenda og andstæðinga verslunar með svínakjöt verða bæjaryfirvöld að takmarka söluna, til dæmis með því að leyfa hana aðeins við bæjarmörkin eða í úthverfum. Hins vegar verða bæjaryfirvöld að grípa fast í taumana ef mikill meiri hluti er andvígur sölunni. Þeim ber þá að koma í veg fyrir verslun með kjötið.

Já er þetta broslegt? Væri það jafn hlægilegt ef hæstiréttur Íslands kæmist að þeirri niðurstöðu að selja mætti kjöt, ekki svínakjöt heldur kjöt af erlendum gripum, í verslunum á Íslandi ef meiri hluti viðkomandi bæjarbúa væri því fylgjandi? Væri það ekki nokkur framför sem taka mætti fegins hendi? Það væri jafnvel skref í rétt átt þótt Reykvíkingar gætu aðeins nálgast kjötið í Grafarholti og vestur í bæ, ef skoðanir eru mjög skiptar um ágæti þess að selja innflutt kjöt í borginni.

Og vel á minnst. Ísraelar hafa þá sömu afsökun fyrir þessum vandræðagangi sínum með svínakjöt og nota má sem fullgilda afsökun fyrir hverju sem er fyrir botni Miðjarðarhafs. Hvaða afsökun hafa Íslendingar fyrir sínu kjötbanni?

Ádögunum var hér fjallað um grein sem Egill Helgason hafði daginn áður birt í DV, en Egill hafði þar haft mörg orð um nýstofnaða lögfræðinganefnd vegna þjóðaratkvæðagreiðslu sem fyrirhuguð er síðar í sumar. Var hér eitt og annað í grein Egils gagnrýnt, meðal annars sú fullyrðing hans og ályktanir í framhaldi af fullyrðingunni, að enginn nefndarmaður kæmi frá Háskóla Íslands, en formaður nefndarinnar er einmitt lektor við lagadeild Háskólans. Egill hefur af þessu tilefni komið því á framfæri við Vefþjóðviljann að hann hafi, þegar honum hafi orðið þessi mistök ljós, leiðrétt þetta atriði á heimasíðu sinni. Það er sjálfsagt að halda því til haga.