M iðstjórn Alþýðusambands Íslands kom saman fyrir helgi og kyrjaði þann söng sem við var að búast úr þeirri átt. ASÍ segir í ályktun um efnahagsmál að ríkisstjórnin verði að vera ábyrg og að það feli í sér að skatta megi ekki lækka. Launamönnum, sem neyddir eru til að greiða ASÍ félagsgjald, þykir þetta líklega dálítið kyndugt, því að ríkisstjórnin hefur uppi áform um að lækka tekjuskatt þeirra um allt að fjögur prósentustig og einnig að lækka virðisaukaskatt. Þetta er mikil kjarabót og ætti að teljast eftirsóknarverð kaupmáttaraukning út frá sjónarmiði launþegahreyfingar, en svo er aldeilis ekki. ASÍ telur að fái launþegar að halda fleiri krónum tekna sinna í eigin vasa þá verði þessum krónum bara eytt í vitleysu. Miklu betra sé að ríkið ráðstafi þessum krónum og það þrátt fyrir að ASÍ gagnrýni ríkið í sömu ályktun fyrir að eyða of miklu fé.
Þetta er auðvitað alveg stórundarlegt sjónarmið hjá launþegasamtökum, en skýrast vafalítið af því að forystan er af pólitískum ástæðum á móti lækkun skatta og þarf engar áhyggjur að hafa af því að launþegar segi sig úr samtökunum þó að þau berjist gegn hagsmunum launþeganna. Annað ekki síður öfugsnúið hjá ASÍ er ályktun sem samþykkt var á sama fundi og sú sem vísað er til hér að framan. Í síðarnefndu ályktuninni er ályktað þvert á þá fyrri og ríkisstjórnin hvött til að lækka opinber gjöld á bensín og olíur. Hvernig má það vera að ekki megi lækka virðisaukaskatt, sem leggst meðal annars á olíuvörur, en lækka megi aðrar opinberar álögur á þessar vörur? Ef marka má fyrri ályktun ASÍ er glapræði að ætla að lækka gjöld á neysluvörur og skilja þar með meira eftir í vösum almennings sem muni eyða krónunum sínum í tóma vitleysu. Þessar tvær ályktanir eru með öllu óskiljanlegar, sérstaklega þegar þær eru lesnar í samhengi.
Fátt er þó alslæmt og í ályktuninni um efnahagsmál er sú skoðun miðstjórnar ASÍ ítrekuð að takast verði á við kerfislægan vöxt rekstrarútgjalda ríkissjóðs. Þetta er jákvætt innlegg í umræðuna, en tölur Hagstofunnar, sem birtar voru fyrir helgi, um áætlaða aukningu samneyslunnar á fyrsta fjórðungi ársins eru ekki síður jákvæðar, að minnsta kosti þegar þær eru bornar saman við þá þróun sem oft hefur verið. Samkvæmt þessum nýjustu áætlunum hefur dregið úr aukningu samneyslunnar á síðustu ársfjórðungum og aukningin var á fyrsta fjórðungi þessa árs og allt árið í fyrra minni en aukning landsframleiðslunnar, þ.e. hagvöxturinn. Næstu tvö ár á undan var þróun þessara stærða óhagstæð að því leyti að samneyslan jókst hraðar en landsframleiðslan. Það er vitaskuld óæskilegt að hið opinbera skuli halda áfram að vaxa, en þó er jákvætt þegar tekst að halda vexti þess vel undir vexti þjóðarbúsins í heild.