Helgarsprokið 13. júní 2004

165. tbl. 8. árg.

V

Í fenjum Louisiana má bæði skoða og bragða á krókódílum.

oðalega virðist ætla að verða erfitt að sætta sjónarmið þeirra sem starfa að ferðamálum og þeirra sem veiða hvali. Til hliðar við þá standa svo hinir svokölluðu umhverfisverndarsinnar og virðast stýra umræðunni þó hvorugur deiluaðila taki nokkra afstöðu með þeirra málstað. Íslensk stjórnvöld hafa nú ákveðið að dregið skuli úr fyrirhugaðri veiði í ár. Grænfriðungar telja baráttu sína hafa borið árangur og fagna þessari ákvörðun. Áfangasigur að þeirra mati.

Ferðamálafræðingar hafa látið hafa eftir sér að hagsmunir þeirra séu miklu mun meiri en hagsmunir hvalafangara. Því er haldið fram að mjög sé lagt að erlendum ferðamönnum að sniðganga Ísland á meðan hvalveiðar eru stundað hér. Þessi áróður á að hafa haft veruleg áhrif á ákvarðanatöku þessara ferðamanna og staðhæft er að fækkun hafi orðið í hvalaskoðunarferðum vegna hvalveiðanna. En felast meiri hagsmunir í hinni nýju atvinnugrein sem hvalaskoðun er heldur en í sjávarútvegi? Og þó svo væri, – er þá hægt að rökstyðja það með sæmilegum hætti að þetta mál sé þannig vaxið að minni hagsmunir eigi að víkja með lögbundnum aðgerðum fyrir meiri?

„Á Spáni hefur öldum saman verið stundað nautaat. Þrátt fyrir herferð dýraverndunarsinna hefur þessi íþrótt ekki skaðað ferðaþjónustu á Spáni á nokkurn hátt, nema síður sé. Ferðamenn panta enn að gömlum sið nautahala hinna föllnu nauta á veitingastöðum í nágrenni atanna.“

Vissulega er það ánægjulegt að framtakssömum einstaklingum hefur tekist að skapa nýja atvinnugrein með því að nýta þá náttúruauðlind sem hvalir eru. Það er hins vegar eitthvað svo gerræðislegt af þeirra hálfu að vilja þar með takmarka rétt annarra til að nýta þessa auðlind, ekki síst þar sem sú nýting á sér langa sögu. Þá eru rök þeirra gegn hvalveiðum afar ótrúverðug. Ferðamönnum hingað til lands hefur fjölgað umtalsvert frá síðasta ári, og reyndar stöðugt síðustu ár. Þótt einhver fækkun kunni að hafa orðið meðal þeirra sem koma hingað gagngert til hvalaskoðunar, þegar litið er yfir stutt tímabil, er ómögulegt að segja til um hvort sú fækkun stafi af hvalveiðum eða öðrum þeim fjölmörgu þáttum sem hafa áhrif á ferðalög manna. Ferðaþjónustan, sem virðist miða allt við þjóðhagsleg verðmæti, ætti þó ekki að kippa sér upp við það svo lengi sem heildarfjöldi ferðamanna eykst. Eðlilegast er auðvitað að ferðaþjónustan rökstyðji verðmæti þessara hvalaskoðunar með því að kaupa upp hvalveiðikvótann. Skilar það sér ekki „margfalt“ til baka? Hver veit nema að slík viðskipti myndu vekja jákvæða athygli erlendis, líkt og fiskveiðistjórnun Íslendinga gerir.

Ein grein innan ferðaþjónustunnar sem fer ört vaxandi er matargerð. Reglulega berast fréttir markaðssetningu íslenskra afurða erlendis og sérstökum ferðum útlendinga hingað til lands í þeim tilgangi einum að heimsækja íslenska veitingahús. Eitt veitingahús í miðborginni sérhæfði sig lengi vel í matreiðslu á hvalkjöti og virðist reyndar enn lifa á þeirri frægð sem það þá öðlaðist meðal hinna útlendu gesta. Hvalkjöt er enn á matseðlinum þar og vinsæll réttur. Nú er rétt að hafa í huga að ferðalög tengd náttúruskoðun eru augljóslega þáttur í ferðaþjónustu en er langt því frá að höfða til meirihluta ferðmanna. Ferðþjónusta um allan heim byggir á áhuga manna á mannvirkjum og matargerð, ekki aðeins á náttúrufyrirbærum; landslagi, fánu og flóru.

Mörg dæmi eru um að ólíkir hagsmunir fái samrýmst hagsmunum ferðaþjónustu. Á Spáni hefur öldum saman verið stundað nautaat. Þrátt fyrir herferð dýraverndunarsinna hefur þessi íþrótt ekki skaðað ferðaþjónustu á Spáni á nokkurn hátt, nema síður sé. Ferðamenn panta enn að gömlum sið nautahala hinna föllnu nauta á veitingastöðum í nágrenni atanna. Í Suðurríkjum Bandaríkjanna eru vinsælar krókódílaskoðunarferðir, ekki ósvipaðar hvalaskoðun við Ísland. Að þeim loknum þykir ómissandi að gæða sér á krókódílasteik. Engum vöknar um augun við það. Safaríferðir um villt lönd Afríku enda gjarnan á matreiðslu hinna undarlegustu dýra.

Það er óheppilegt ef grænfriðungum tekst það ætlunarverk sitt að láta líta út fyrir að sjónarmið hvalaskoðunarmanna og hinna sem vilja nýta hvali á annan hátt fái ekki samrýmst. Það er misskilningur hjá stjórnmálamönnum að halda að hér vegist á minni hagsmunir og meiri. Það eru einfaldlega ýmis konar hagsmunir í húfi og fráleitt að telja þátt ferðaþjónustunnar mikilvægustu hagsmunina sem allt annað verði að víkja fyrir.