Helgarsprokið 30. maí 2004

151. tbl. 8. árg.

V itanlega er það svo, margmennisins vegna, að íbúum höfuðborgarsvæðisins standa til boða ýmis varningur og þjónusta sem eru ekki til sölu á landsbyggðinni. En þó úrvalið sé skiljanlega meira fyrir sunnan en úti á landi, þá er einnig margt í boði til sveita sem sjaldan sést í borginni. Eitt af því eru héraðsfréttablöðin, sem mörg hver geta bæði verið fróðleg og skemmtileg til lestrar. Á Akureyri kemur þannig út vikublaðið Vikudagur og er þar margt að finna og efnistök stundum ólík hefðbundnum fréttablöðum. Í nýjasta tölublaði er meðal annars svohljóðandi klausa, birt undir fyrirsögninni „Óraunhæf krafa“:

Bæjarráð Húsavíkur hefur krafist þess að vísindaveiðum á hvölum verði hætt og hefur ennfremur samþykkt að leita eftir samstöðu sveitarstjórna á svæðinu eins og segir í frétt í blaðinu Skarpi 19. maí sl. Ferðamálafrömuðir á Húsavík segjast standa frammi fyrir ógnun, hvorki meira né minna, af hvalveiðum. Trúlega er þar átt við að eitthvað fækki þeim útlendu ferðamönnum sem fari í hvalaskoðunarferðir vegna vísindaveiðanna hér við land. Nú er það staðreynd að nánast er um einsdæmi að ræða ef hvalir eru veiddir á hvalaskoðunarslóðum og ætti raunar alls ekki að líðast. Mergurinn málsins er sá að ef þeir sem gera út á hvalaskoðunarferðir hefðu vit á að þegja, en ekki vera að básúna t.d. vísindaveiðarnar út í öllum fjölmiðlum sem hafa vilja, bæði innlendum og útlendum, myndi atvinnugreinin trúlega vera í miklum blóma eftir sem áður. Það hefur nefnilega aldrei reynt á hvort hvalveiðar og hvalaskoðun geta farið saman.

Er ekki meira vit í þessari klausu en mörgu því sem virðulegri fjölmiðlar hafa sagt með fleiri orðum um þetta mál? Hafa nokkrir Íslendingar gert meira úr hinum fábreyttu vísindaveiðum en einmitt hvalaskoðunarfyrirtækin, sem telja að nýtingarstefna Íslands eigi að fara eftir því hvað hentar þeirra fyrirtækjum best?

Ekki er aðeins fjallað um héraðsmál í Vikudegi. Það blað hefur eins og önnur fjallað um nýsamþykkt „fjölmiðlalög“ og segir um það málefni meðal annars í forystugrein:

Einhverju mesta gjörningaveðri íslenskra stjórnmála á seinni árum er nú að slota. Fjölmiðlafrumvarpið svokallaða er nú orðið að lögum frá Alþingi og hefur verið fært forseta Íslands til undirritunar. Aðeins eitt mál hefur fengið meiri umræðu á Alþingi í langan tíma en það var umræðan um evrópska efnahagssvæðið á árunum 1992-1993. Það sem einkennt hefur umræðuna nú eru stóryrði og briglsyrði stjórnmálamanna, einkum stjórnarandstöðunnar, á Alþingi. Mörg þung orð hafa fallið og virðulegustu alþingismenn hafa fallið í gryfju skrílmennskunnar og notað orðalag ótíndra götustráka. Menn hafa forðast að ræða aðalatriði málsins og stillt því upp sem einskonar baráttu milli góðs í íslensku stjórnmálum. …
Síðasta haldreipi þeirra sem barist hafa gegn setningu fjölmiðlalaganna er nú forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson. Þeir vonast til að hann neiti að undirrita lögin og að þau fari þess vegna í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er skoðun Vikudags að vissulega yrði það fáránlegt af forseta vorum að samþykkja ekki lögin, til þess eru þau allt of veigalítil og varða allt of fáa. Úr því forsetar lýðveldisins sáu ekki ástæðu til að láta lög um inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið, lög um kvótasetningu fiskveiða við strendur landsins og lög um evrópska efnahagssvæðið fara í þjóðaratkvæðagreiðslu þá er nákvæmlega engin ástæða til að fjölmiðlalögin fari þá leið. Slíkt yrði aðeins til að auka víðsjár í íslenskum stjórnmálum og rugla þjóðina enn meira en orðið er.
Vikuritið Vikudagur á Akureyri er eitt þeirra forvitnilegu héraðsfréttablaða sem gefin eru út hér á landi..

Það er auðvitað alveg rétt að fjölmiðlalögin svokölluðu eru hvorki umdeildari né veigameiri en fjölmörg þau lög sem forseti Íslands, bæði sá sem nú situr og forverar hans, hefur undirritað. Hvaða skoðun sem menn hafa á einstökum lögum, þá hlýtur að verða að ætlast til þess að embætti forseta Íslands gæti samræmis í meðferð þess valds sem það telur sér hafa verið falið. Það er engin leið að halda því fram að fjölmiðlalögin séu umdeildari en lögin sem sett voru vegna svokallaðs „öryrkjadóms“ eða mikilvægari en lögin vegna Kárahnjúkavirkjunar. Sérstaklega er þetta áberandi með það síðara, því fjölmiðlalögunum má breyta hvenær sem alþingismenn sjá ástæðu til, en framkvæmdirnar fyrir austan, þær verða ekki teknar svo glatt aftur. Og hverjum dettur í hug að lög eins og hinar nýju samkeppnisreglur á fjölmiðlamarkaði séu umdeildari en til dæmis gagnagrunnslögin sem forseti Íslands undirritaði hiklaust? Eða bara mikilvægari en samkeppnislögin sjálf? Samkeppnislögin setja mun meiri hömlur á athafnafrelsi manna í viðskiptalífunu. Hvað hefðu menn eiginlega sagt ef forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, hefði neitað að staðfesta þau? Ætli menn hefðu ekki talið að hún hefði verið búin að missa vitið? Skömmu áður en Ólafur Ragnar Grímsson lét af þingmennsku stóð hann fyrir umræðu á þingi um það sem honum þótti nauðsyn þess að setja þegar í stað lög til að hindra samþjöppun fjölmiðla og eignatengsl þeirra á milli. Ef Ólafi Ragnari hefði orðið að þeirri ósk sinni og slík lög verið sett, en svo hefði þáverandi forseti neitað að staðfesta þau; hvað halda menn eiginlega að Ólafur Ragnar og aðrir hefðu sagt við slíkri uppákomu?

Það eru fleiri þjóðmál sem Vikudagur fjallar um og þar á meðal er nýlegur fundur Landssambands framsóknarkvenna, þar sem sambandið heimtaði að það yrði karl en ekki kona sem léti af ráðherrastarfi í haust, þegar umhverfisráðuneytið flyst frá Framsóknarflokki til Sjálfstæðisflokks. Um það segir blaðið:

Svona málflutningur á ekkert skylt við jafnrétti. Kona á ekki að gegna embætti bara af því að hún er kona. Þetta er beint ofbeldi og er því miður farið að verða allt of áberandi í samfélagi okkar nú um stundir. Þessi skoðun kvenna er afar ógeðfelld og magnar deilur milli kynjanna frekar en að efla jafnréttishugmyndir. Konur eiga allt gott skilið og auðvitað er það fásinna að halda þeim niðri á forsendum kyns síns en þær þurfa að vera jafnokar karlanna og/eða þeim fremri til þess að njóta þess jafnréttis sem þær gjarnan klifa á. Konur eiga að sækja fram í krafti hins sanna jafnréttis, ekki í krafti ofbeldis og ógnana.

Síðasta klausan sem hér verður tekin úr Vikudegi er úr dálki sem blaðið nefnir „á götuhorninu“ og flytur hinar og þessar athugasemdir um menn og málefni. Á einni athugasemdinni er fyrirsögnin „Stalín dáður í Brekkuskóla!“ og vekur vitaskuld nokkra athygli:

Veggjakrot þykir almennt ekki til marks um virðingu fyrir eignum eða almennum mannasiðum. Því hefur mönnum komið nokkuð á óvart þegar ekið er framhjá Brekkuskóla – þ.e. gamla Gagnfræðaskólahlutanum – að sjá veggi skólans þar útkrotaða. Mest áberandi er einn útveggur, raunar eini veggurinn sem eftir stendur af gamla hátíðarsal skólans sem búið er að rífa – en þessi veggur var semsé áður innveggur í salnum. Þar stendur nú stórum stöfum „Lifi Stalín“. Blasir þetta slagorð nú við öllum sem leið eiga framhjá skólanum og þykir fæstum skólaprýði. Á götuhorninu þykir mönnum þetta sóðalegt. Það bætir ekki úr skák að hátíðarsalurinn var á sínum tíma allur krotaður út samkvæmt herútboði skólayfirvalda, rétt áður en hann var síðan rifinn. Ekki vilja menn á götuhorninu kveða upp úr með hvort það sé góð uppeldisstefna að kenna skólabörnum veggjakrot, jafnvel í sal sem á að rífa. En slagorðið um Stalín lifir enn góðu lífi til minningar um sovéska harðstjórann og kennsluaðferðir í Brekkuskóla. Raunar mun Stalín ekki hafa verið nemendum mjög ofarlega í huga þegar slagorðið var skrifað, heldur var þetta skrifað fyrir áeggjan og frumkvæði eins kennarans við skólann og því greinilegt að ólíklegustu sjónarmið komast að þegar mótun á söguskoðun unglinga er annars vegar!…

Ekki veit Vefþjóðviljinn hvað til er í því að einhver kennarinn hafi hvatt menn til þessa krots eða þá hvort á því væri einhver skynsamleg skýring. Ekki nennir blaðið að velta því fyrir sér, frekar en þeirri spurningu hvað menn segðu eiginlega ef nemendur hefðu verið hvattir til að lýsa hollustu við Adolf Hitler eða Ku Klux Klan. Það er ekki víst að yfirlýsingin Heil Hitler! hefði þótt hafa menningarsögulegt gildi eða vera heilbrigð hvatning til að láta skoðanir í ljós. En ekki ætlar Vefþjóðviljinn að velta þessu sérstaklega fyrir sér, heldur lætur sér nægja að veðja bara á að undarleg gamansemi – í bland við talsverða vanþekkingu á mannkynssögu – hafi þarna gengið skefi of langt.

En það er sem sagt margt rætt í héraðsfréttablöðunum.