Mánudagur 31. maí 2004

152. tbl. 8. árg.
Ég hóf reykingar um svipað leyti og Jón Steinar og hætti þeim 29 ára gamall og hafði allan tímann aðallega reykt venjulegan Camel, upp í tvo pakka á dag. Camel eru afskaplega góðar sígarettur, bragðmiklar og fastar.
– Haraldur Blöndal hæstaréttarlögmaður, í grein í Morgunblaðinu, 8. júní 2001.

S vona má ekki skrifa í blöðin lengur. Fyrir þremur árum bannaði alþingi fólki að fjalla opinberlega um einstakar tóbakstegundir nema það væri gert í þeim tilgangi að „vara sérstaklega við skaðsemi þeirra“. Þetta bann var samþykkt mótatkvæðalaust á alþingi, enda ekki fyrr en á allra síðustu vikum sem þingmenn tala sig hása um að „tjáningarfrelsið verði að njóta vafans“. Þingmenn hafa sem sagt bannað fólki að tala opinberlega um tóbak, nema í þessum eina tilgangi. Sá sem skrifar í blöðin og segir frá því að honum þyki gott að reykja og sérstaklega eina tegund umfram aðra, hann má búast við hinu versta. Hann er að minnsta kosti búinn að brjóta lögin.

Væntanlega sjá allir að með þessum lögum er tjáningarfrelsi borgaranna skert og ef forseti Íslands er í alvöru að hugsa um að staðfesta ekki nýsett „fjölmiðlalög“, þá er óskiljanlegt að tóbaksvarnarlögin hafi runnið athugasemdalaust í gegn, svo miklar hömlur sem þau leggja bæði á rekstur fyrirtækja, notkun fólks á eigin fasteignum og svo auðvitað tjáningarfrelsið. En það er nú eins og það er. Auðvitað datt engum heilvita manni í hug að sviðsetja þrýsting á forsetann vegna tóbaksvarnarlaganna enda eiga mál eins og þau, rétt eins og „fjölmiðlalögin“, að enda annað hvort á alþingi eða í dómsal. Ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Reykingar mjög heilla rafta / rettuna færi ég Skafta.“

Nú er sagt frá því í fréttum að talsverður meirihluti manna vilji að reykingar verði bannaðar með öllu á veitingahúsum. Þorgrímur Þráinsson og Jón Kristjánsson eru óðir og uppvægir að koma slíku banni á hið fyrsta. Mætti Vefþjóðviljinn láta í ljós þá skoðun, að það skipti nákvæmlega engu máli hversu margir eða fáir vilji slíkt bann. Það er ekkert sem bannar slíku fólki að opna og reka veitingahús og banna þar hvað sem það vill. Það er heldur ekkert sem neyðir þetta fólk inn á þau veitingahús sem nú eru starfandi. Ef menn fara inn í hús, þar sem eigandinn leyfir reykingar, þá hafa menn einfaldlega af fúsum og frjálsum vilja, afsalað sér öllum hugsanlegum „rétti til reykleysis“, svo ein froðuréttindin séu nefnd. Það er mál hvers og eins íbúðareiganda en ekki gesta hans hvort reykingar eru leyfðar í íbúðinni eða ekki. Gesturinn getur auðvitað sagt að fái hann ekki að reykja, þá bara komi hann ekki í heimsókn, og þá velur húsráðandi hvort hann vill frekar fá heimsóknina eða reykleysið, en flóknara er þetta ekki. Og með sama hætti ræður veitingahússeigandi hvort hann leyfir reykingar eða ekki. Ef meirihluti fólks vill ekki sækja staði sem leyfa reykingar, þá það. En flóknara er þetta ekki.

Þegar Haraldur Blöndal lést í vor, hafði hann ekki reykt í aldarfjórðung. Hann gerði þó undantekningu á reyklausa daginn og sagði það vera Þorgrími Þráinssyni til heiðurs. Það er ágætissiður.