Laugardagur 29. maí 2004

150. tbl. 8. árg.

S tjórnarflokkarnir lofuðu báðir fyrir kosningar að þeir ætluðu sér að lækka skatta eftir kosningar kæmust þeir í aðstöðu til. Svo virðist sem aðeins annar þeirra hafi haft mikinn áhuga á að koma þessu stefnumáli sínu í framkvæmd. Engum, sem fylgdist með þingfrestun gærdagsins og fréttum af henni, dylst að Framsóknarflokkurinn dregur lappirnar í málinu. Erfitt er að segja til um hver ástæðan kann að vera því að allar aðstæður eru nú ákjósanlegar til skattalækkunar. Og þær eru ekki aðeins ákjósanlegar, heldur er nauðsynlegt að lækka skatta hið allra fyrsta ef ríkissjóður á ekki að yfirfyllast af fé með tilheyrandi sóun fjármuna. Eins og kunnugt er gengur þeim mun verr að gæta aðhalds í meðferð opinbers fjár sem hið opinbera hefur meira fé á milli handanna og það fé sem ríkið hefur milli handanna vex ört þessi misserin. Samkvæmt uppgjöri um greiðsluafkomu ríkissjóðs á fyrsta ársfjórðungi, sem kynnt var í vikunni, jukust skatttekjur um nær 11% milli ára að raungildi, en útgjöldin hækkuðu mun minna. Eins og áður sagði munu þau hins vegar að óbreyttum sköttum fljótlega elta hækkun teknanna og þess vegna meðal annars er nauðsynlegt að lækka skatta sem fyrst.

Fyrrverandi efnahagsráðgjafi fjármálaráðherra síðustu vinstri stjórnar og fyrrverandi frambjóðandi Alþýðubandalagsins hefur sem oftar blandað sér í umræður um kosti og galla skattalækkunar. Eins og fyrri daginn sér hann ýmsa galla við hugmyndir um lækkun skatta, en kemur síður auga á kostina. Er það mjög í anda þess flokks sem nú er hættur að bjóða fram en efnahagsráðgjafinn barðist fyrir á sínum tíma. Í tíð síðustu vinstri stjórnar, sem hrökklaðist frá völdum eftir þriggja ára óstjórn áranna 1988-1991, voru skattar hækkaðir mikið og reglulega og svo fór að fjármálaráðherrann þáverandi, Ólafur Ragnar Grímsson, varð alræmdur fyrir skattahækkanir sínar og hlaut fyrir vikið viðurnefnið Skattmann. Þrátt fyrir mikla hækkun skatta – eða ef til vill frekar vegna skattahækkunarinnar – var ríkissjóður rekinn með 30 milljarða króna halla á þessu tímabili. Efnahagsráðgjafi fjármálaráðherrans, Már Guðmundsson, gegnir nú starfi aðalhagfræðings Seðlabankans og hefur ekki gengið af trúnni. Þegar hann ráðlagði fjármálaráðherra síðustu vinstri stjórnar var viðhorfið það að ekki mætti lækka skatta vegna þess að árferði væri slæmt og auknar tekjur þyrfti í ríkissjóð. Nú er árferðið allt annað og talið er að hagvöxtur verði góður næstu árin. Þá ætti að vera hagstætt að lækka skatta núna, en nei, það er ekki endilega svo að mati fyrrum efnahagsráðgjafa fjármálaráðherra og ýmissa annarra sem telja sig hafa betur vit á því en almenningur hvernig ráðstafa skuli fjármunum almennings. Efnahagsráðgjafinn fyrrverandi varar við því að skattalækkun nú geti orðið olía á eldinn og orðið þensluvaldandi.

Það er vandlifað. Skatta má ekki lækka í  hallæri því að þá þarf ríkissjóður á auknu fé að halda um leið og tekjur hans dragast saman. Skatta má ekki heldur lækka þegar vel árar, því að þá er hætt við að fólk eyði peningunum sem ríkið tekur ekki af því í tóma vitleysu og hagkerfið ofhitni. Og ef svo ólíklega vildi til að algert jafnvægi væri í efnahagsmálum og útlit væri fyrir áframhaldandi jafnvægi, þá mætti örugglega alls ekki raska þessu dýrmæta jafnvægi með því að lækka skatta. Trúi menn þeim sem tala gegn skattalækkun er málið ósköp einfalt; skattar mega aldrei lækka. Raunin er hins vegar sú að skattar eiga ekki að vera hagstjórnartæki og það er alls ekki æskilegt að ríkið reyni að beita sköttum til að stýra sveiflum í efnahagslífinu. Lækkun skatta er æskileg í sjálfu sér vegna þess að þannig aukast yfirráð einstaklinganna yfir eigin fjármunum og um leið minnka þeir fjármunir sem hið opinbera ráðstafar. Þetta hvetur til betri nýtingar fjármuna og eykur velsæld alls almennings bæði til skemmri og lengri tíma.