Föstudagur 28. maí 2004

149. tbl. 8. árg.

A

Dennis Quaid hefur vit á að búa sig vel þegar gróðurhúsaáhrifin reynast skammgóður vermir. – Úr The Day After Tomorrow.

llt tengist einhvern veginn. Fyrir rúmum fjórum árum var lagt út af bókinni The Coming Global Superstorm í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins. Var rit þetta haft til vitnis um að vegna áhrifa mannsins á  veðurfar á Jörðinni myndi íshella leggjast yfir norðurhluta hennar. Annar höfunda bókarinnar hafði verið numinn brott af geimverum en þær kunnu ekki betur að meta félagsskap af honum en að þær skiluðu honum. Þær höfðu þó ekki brugðið út af þeim vana geimvera að græða örflögu í manngarminn sem þær kippa með sér. Hefur umræddur bókarhöfundur átt nokkru í basli með þessa ígræðslu síðan og meðal annars leitað til skurðlæknis um að fjarlægja hana en án árangurs. Vefþjóðviljinn fylgdist með þessu ævintýri Morgunblaðsins og brottnuminna á sínum tíma en hefur haft litlar spurnir af því síðan.

Nú vill hins vegar svo vel til að komin er heil stórmynd bíó um þessar hamfarir, sem verða víst ef maðurinn gætir ekki að sér í neyslukapphlaupinu. The Day After Tomorrow segir einmitt frá nokkrum hremmingum sem mannkynið lendir í þegar Golfstraumurinn lognast út af, ylurinn úr hitabeltinu heldur sig fjarri og í skiptum fá menn á norðurhjaranum að kynnast fyrrnefndri íshellu betur en þeir kæra sig um. Já rétt til getið, myndin er byggð á bókinni góðu sem Morgunblaðið var svo framsýnt að helga Reykjavíkurbréf í mars árið 2000. Vel á minnst, sem var reyndar skömmu eftir að í ljós kom að annar umtalaður vandi mannkyns, 2000-vandinn, reyndist vandfundinn. 

Patrick J. Michaels rifjaði það upp að þessu tilefni í USA Today á mánudaginn að önnur stórmynd, The China Syndrome með Jane Fonda, hefði hjálpað til við að svipta menn dómgreindinni árið 1979. Nokkrum dögum eftir frumsýningu myndarinnar átti sér stað bilun í Three Mile Island kjarnorkuverinu í Pennsylvania í Bandaríkjunum. Lítilsháttar geislun barst frá verinu en engan sakaði. Óhappið og tilþrif Fonda á hvíta tjaldinu urðu þó til þess að ekki voru reist fleiri kjarnorkuver.

Nýting kjarnorku er engu að síður ein hagkvæmasta leiðin til að framleiða orku án þess að brenna jarðefnaeldsneyti. Kenningar um hlýnun andrúmsloftsins af mannavöldum, gróðurhúsaáhrifin svonefndu, byggjast á því að bruni á jarðefnaeldsneyti, olíu, kolum og gasi, valdi uppsöfnun koltvísýrings í andrúmsloftinu sem leiði til hlýnunar. En umhverfisverndarsinnar hafa komið því til leiðar, með aðstoð stórslysamynda, að kjarnorkuver fást hvergi reist. Á meðan svo er halda menn bara áfram að bruna í bíó á bensínháknum. Ætli einhver labbi kannski heim af The Day After Tomorrow?

József Berényi, aðstoðarutanríkisráðherra Slóvakíu og einn af frambjóðendum slóvakíska stjórnarflokksins, segir í blaðaviðtali í dag að hann telji að Ísland og Noregur eigi að ganga í Evrópusambandið.
 – úr frétt á forsíðu mbl.is á mánudaginn.

Hvernig verða svona fréttir til? Berényi! József Berényi (36) vill okkur í ESB! Líklega er skýringuna að finna í fyrirsögn viðtalsins í The Slovak Spectator þaðan sem tilvitnun mbl.is virðist vera. „Iceland“ í fyrirsögn hlýtur að leiða til fréttar um málið á Íslandi. Er þetta ekki svona sambærilegt við að Björn Ingi Hrafnsson kæmist á forsíðu stærsta fréttavefjar Grikklands fyrir almenna athugasemd um Kýpurdeiluna í Iceland Review?